Íþróttaakademía Fjölnis stofnuð
Nú í haust var hrundið af stað verkefni sem kallast Íþróttaakademía Fjölnis [ÍAF] og er það tækifæri ætlað unglingum sem æfa boltaíþrótt í Fjölni og í 9. og 10. bekk. Verkefnið snýst um að bjóða upp á skipulagða tækniþjálfun í handbolta, fótbolta og körfubolta ásamt hagnýtri fræðslu í þeim þáttum sem skipta máli, s.s. íþróttasálfræði og næringarfræði. Aðalmarkmið ÍAF er að bjóða upp á þjálfun og fræðslu sem styður við það sem þegar er gert í flokkum félagsins, annað og fleira en gert er nú þegar í deildunum. Þetta verkefni er hugsað fyrir þá íþróttamenn sem vilja ná langt í sinni íþrótt og eru tilbúin að leggja mikið á sig, til að svo megi verða.
ÍAF byggir á samstarfi unglingadeilda grunnskóla Grafarvogs og Umf. Fjölnis og felst tækifærið fyrir unglingana að fá að velja ÍAF sem valgrein í náminu sínu í stað hefðbundinna námsgreina. Þess má geta að verkefnið er unnið að fyrirmynd sem hefur gengið afar vel hjá Haukum í Hafnarfirði, Afreksskóla Hauka, undir stjórn Kristjáns Ómars Kristjánssonar.
Skráning í verkefnið var mjög góð og um 36 nemendur eru nú skráðir, og koma þeir úr boltagreinunum þremur af báðum kynjum. Haldinn var kynningarfundur með foreldrum og iðkendum í byrjun annar og verkefnið kynnt. (sjá mynd)
Ein megin forsenda þess að verkefnið gengur eins vel og raunin er, eru þeir góðu þjálfarar sem fengust til að starfa með okkur. Til að stýra bóklegu tímunum þar sem allar greinarnar koma saman fengum við Elmar Hjaltalín yfirþjálfara fótboltans og Arnór Ásgeirsson íþróttafræðing til liðs við okkur. Um tækniþjálfunina sem er einnig einu sinni í viku sjá þeir Pétur Sigurðsson (körfubolti), Elmar Hjaltalín (fótbolti) og Guðmundur Rúnar Guðmundsson (handbolti).
Haustönnin sem er senn á enda runnin var vonandi aðeins fyrsta af mörgum og mun verkefnið vera í stöðugri þróun næstu misserin. Vonast er til að í framtíðinni verði hægt að bjóða upp á þetta tækifæri fyrir fleiri greinar úr Fjölni. Forsvarsmenn eru þess fullvissir að æfingarnar og fræðslan mun hjálpa íþróttamönnum Fjölnis að ná fram sínum besta árangri þegar fram í sækir.