Göngu og hjólaleiðir

 

 

 GÖNGU- OG HJÓLASTÍGAR Í GRAFARVOGI

Góðir göngu- og hjólastígar eru um allan Grafarvog. Stígur liggur meðfram allri byggðinni í Grafarvogi allt upp í Mosfellsbæ. Ennfremur eru stígar sem liggja þvers og kruss um hverfið og því hægt að velja sér hring við hæfi hvers og eins.

Með uppbyggingu göngu- og hjólastígakerfis Reykjavíkur er íbúum og gestum gert kleift að ferðast hjólandi eða gangandi um borgina á öruggan, aðlaðandi og vistvænan máta. Víða eru göngubrýr eða undirgöng undir umferðaræðar og stígar eru lagðir um vinsælar útivistarperlur eins og Elliðaárdalinn og Ægissíðu.

Hjólavefsjáin, http://is.ridethecity.com/iceland, er gagnvirkur vefur á vegum Ride The City sem sýnir borgarbúum á einfaldan hátt hvernig hjólafólk kemst frá A til B á sem fljótlegastan og öruggastan hátt. Borgarbúar geta slegið inn upphafsstað og leiðarenda, og vefurinn sýnir um leið fljótlegustu leiðina, öruggustu leiðina, vegalengd og ferðatíma. Það var Jón Gnarr borgarstjóri sem afhenti Open Street Map á Íslandi götugögn Reykjavíkurborgar án endurgjalds til þess að leiðavalið byggi á bestu upplýsingum hverju sinni.

Áningarstaðir

Sex áningarstaðir eru nú við stígakerfið, þar sem vegfarendur geta kastað mæðinni og notið útsýnisins, skoðað göngu- og hjólastígakort fyrir höfuðborgarsvæðið og gripið í nesti. Staðsetning áningarstaða er valin með tilliti til hvar þeir koma flestum til góða, en ekki síður hvernig tekið er á móti ferðamönnum sem koma hjólandi að borgarmörkum og þeim vísað af umferðaræðum inn á stígakerfi borgarinnar. Áningarstaðirnir eru hannaðir af Kjartani Mogensen landslagsarkitekt.

Kortin

Á hverjum áningarstað er kortastandur með tveimur kortum. Öðru megin er yfirlitskort fyrir höfuðborgarsvæðið en hinum megin er kort sem sýnir næsta nágrenni með ítarlegum upplýsingum. Yfirlitskortið sýnir tegun, númer og lengdir stíga, áningarstaði, sjúkrahús, flugvelli og tjaldsvæði. Deilikortin sýna hins vegar næstu tvo til fjóra kílómetra út frá áningarstað meðnánari upplýsingum fyrir ferðamenn, söfn, kirkjur, sundlaugar og fleira. Einnig eru bekkir við stíga merktir inn á deilikortin og táknmyndir bygginga sem hægt er að nota sem kennileiti.

Merkingar og númer

Göngu- og hjólastígakerfi Reykjavíkur er unnið eftir danskri fyrirmynd og er byggt upp á sama hátt og númerakerfi íslenska vegakerfisins. Númerakerfið er sameiginlegt fyrir allt Höfuðborgarsvæðið og reyndar er mögulegt að nota það fyrir göngu- og hjólastíga á landinu öllu.

Unnið er að uppbyggingu og viðhaldi stígakerfisins á hverju ári og eru kortaupplýsingar á áningarstöðum og á vefnum uppfærðar í samræmi við þá vinnu.

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/framkvaemdasvid/gongu_og_hjolastigar/hjolastigakort_gullinbru_vefur.pdf

 

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/framkvaemdasvid/gongu_og_hjolastigar/hjolastigakort_korpulfstadir_vefur.pdf