Ungmennafélagið Fjölnir

Ungmennafélagið Fjölnir var stofnað 11. febrúar 1988. Nafn félagsins var ákveðið í apríl sama ár og merki félagsins hannað í ágúst sama ár. Fjölnir hefur um árabil verið eitt stærsta íþróttafélag landsins með um og yfir 4.000 iðkendur í 12 íþróttadeildum.

Hjá félaginu starfa að meðaltali um 100 manns í mismunandi störfum, auk um 150 sjálfboðaliða, sem eru gríðarlega mikilvægir og standa undir nær öllu daglegu starfi félagsins.

Félagið er „ungt“ og hefur ekki langa sigurhefð og titlalista.  Við eigum þó marga glæsilega fulltrúa, sem hafa orðið heimsmeistarar, ólympíumeistarar, íslandsmethafar, meistarar í ýmsum yngri flokkum, o.s.frv. – en stóra titlar í hópíþróttunum hafa ekki enn náðst í hús.

Félagið hefur allt til að verða enn meira stórveldi í íþróttum, en til þess að það náist, þarf meiri samstöðu í hverfinu um félagið okkar !

Fjölnir er ungmenna og íþróttafélag, sem þjónar íbúum Grafarvogs og nágrennis.

Fjölnir er einnig aðili UMFÍ í gegnum ÍBR en það breyttist á liðnu ári 2021. Fjölnir mun leitast við að vera miðpunktur íþrótta- og félagsstarfs í Grafarvogi. Fjölnir mun leitast við að auka áhuga félaga og almennings á líkamsrækt og stuðla að alhliða íþróttaiðkun. Afreksstarf er mikilvægt til að byggja upp fyrirmyndir.  Fjölnir stefnir að því að eiga afreksfólk í öllum deildum félagsins.

Fjölnir leitast við að auka áhuga félaga og almennings á hverskonar félags- og tómstundastarfi. Fjölnir mun vinna gegn notkun tóbaks, neyslu áfengis og í raun allra skaðnautna s.s. vímuefna. Fjölnir er stoltur meðlimur í UMFÍ og vinnur að markmiðum og stefnuskrá sambandsins og samkvæmt kjörorðunum þess:   “ Íslandi allt“

Deildir innan Fjölnis

Knattspyrna  Körfubolti  Sund  Fimleikar  Handbolti  Skák  Frjálsar íþróttir  Karate  Tennis