Flugeldasala Hjálparsveitar skáta í Spönginni
Flugeldasala stendur nú yfir sem hæst en gamla árið verður kvatt með stæl á miðnætti annað kvöld. Landsmenn hafa verið duglegir í gegnum tíðina að skjóta flugeldum á loft og kveðja þannig gamla árið og fagna hinu nýja. Það hefur ekki farið framhjá neinum manni að Grafarvogsbúar hafa alltaf verið duglegir að skjóta upp flugeldum á þessum tímamótum. Í Spönginni mörg undanfarin ár hefur Hjálparsveit skáta í Reykjavík verið með sölu ýmiss konar flugelda og blys og annan varning tengdum áramótunum. Grafarvogsbúar í stórum hópum hafa lagt leið sína á sölustað skátanna í Spönginni en um leið eru þeir að styðja gott málefni.
Vefsíðan grafarvogsbuar.is var á ferðinni í hverfinu í kvöld og kom við á sölustað Hjálparsveitar Skáta í Spönginni og þar var nóg að gera og búið að vera í allan dag að sögn Kjartans Long verslunarstjóra.
,,Það er búið að vera góður straumur fólks til okkar í dag. Salan tók mikinn og góðan kipp í dag en á morgun, gamlársdag, er aðalsöludagurinn en þá fer fram um 70% af allri sölu hjálparsveitanna. Ég er búinn að vinna á þessum sölustað í Grafarvogi undanfarin ár og alltaf koma sömu andlitin og versla hjá okkur sem svo sannarlega ánægjulegt. Ég get ekki séð annað en að góð sala verði í flugeldum fyrir áramótin en svo er að sjá að veðrið á gamlárskvöld verði gott,“ sagði Kjartan Long, verslunarstjóri á flugeldasölu Hjálparsveita Skáta í Spönginni.
Opnunartími flugeldasölunnar er til klukkan 10 í kvöld, föstudag 30. desember, en á morgun, gamlársdag, verður opnað klukkan 10 og verður opið til 16 síðdegis.