66% nemenda í 2. bekk geta lesið sér til gagns
Lesskimun sem gerð var í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2014 sýnir að 66% nemenda í 2. bekk luku tilskildum árangri í lesskimunarprófi og teljast því samkvæmt skilgreiningu geta lesið sér til gagns.
Þeir nemendur sem ekki ná tilskildum árangri í lesskilningi, eða 483 af þeim 1.407 sem tóku prófið, þurfa stuðning í lestri með einstaklingsáætlun eða einstaklingsnámskrá. Sá hópur er samkvæmt skimuninni misstór eftir skólum eða frá engum nemenda upp í 40% nemenda í árgangi.
Niðurstöður skimunarinnar nú (66%) eru jafnar meðaltalshlutfalli þeirra sem hafa getað lesið sér til gagns síðastliðin 12 ár.Hlutfall nemenda sem les sér til gagns 2014 er um 3 prósentustigum hærra en árið 2013 en það ár var hlutfallið það lægsta síðan 2005. Þrátt fyrir hækkun á milli ára er hlutfallið lægra nú en það var árin 2008-2012.
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs segir að enda þótt niðurstöðurnar fari ekki undir meðaltalið undanfarin ár þá megi alltaf gera betur.
„Við höfum sett okkur það markmið að allur þorri barna geti lesið sér til gagns á fyrstu árum grunnskólans. Það er einmitt verkefni nýs fagráðs um eflingu lestrarfærni og lesskilnings að móta tillögur um hvernig megi ná því marki, hvaða viðmið séu raunhæf og sömuleiðis hvort tilefni sé til að endurskoða lesskimunarprófið sem borgin hefur notað frá 2002, svo greina megi fyrr og þjónusta þau börn sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda í sínu lestrarnámi.“