Oliver Aron skákmeistari Rimaskóla 2014. Mykael og Nansý komust í úrslit á Barna-blitz
Skákmót Rimaskóla var haldið í 21. skipti í hátíðarsal skólans og bar að þessu sinni upp á bolludag. Líkt og í fyrra var mótið opið öllum skákkrökkum á grunnskólaaldri og teflt um titilinn Skákmeistari Rimaskóla 2014. Einnig var teflt um um tvö laus sæti í úrslitum á Barna-blitz mótinu, en úrslit þess móts ráðast Hörpunni n.k. laugardag. Það voru tæplega 70 krakkar sem tóku þátt í veglegu skákmóti þar sem öllum þátttakendum var boðið upp á rjómabollu í tilefni dagsins og veitt 20 verðlaun. Meðal keppenda voru allir sterkustu skákmenn Rimaskóla auk þess sem skákmeistarar úr Álfhólsskóla og Ölduselsskóla mættu til leiks og gerðu mótið mun sterkara. Oliver Aron Jóhannesson í 10. bekk Rimaskóla vann mótið örugglega enda langhæstur allra þátttakenda á stigum (2200). Oliver Aron sem varð núna skákmeistari Rimaskóla þriðja árið í röð vann allar sínar sex skákir. Í næstu sætum með 5 vinninga voru þau Mykael Kravchuk Ölduselsskóla, Nansý Davíðsdóttir, Joshua Davíðsson og Jóhann Arnar Finnsson Rimaskóla og þeir Felix Steinþórsson og Dawid Kolka Álfhólsskóla. Önnur í stúlknaflokki á eftir Nansý varð Heiðrún Hauksdóttir Rimaskóla og Tinna Björk Rögnvaldsdóttir í Rimaskóla varð þriðja, báðar með 3 vinninga.
Í keppninni um tvö laus sæti í úrslitum á Barna-blitz urðu þau Mykael og Nansý efst og voru stigamun á undan Felix og Joshua, en öll fengu þau 5 vinninga á mótinu.
Mótsstjóri var Stefán Bergsson og afhenti hann Oliver Aroni farandbikar skólans til varðveislu næsta árið. Aðeins Hjörvar Steinn Grétarsson hefur oftar orðið skákmeistari Rimaskóla en stórmeistarinn nýkrýndi varð skólameistari í sjö ár. Alls voru veitt 20 verðlaun, pítsur, bíómiðar og sælgætispokar.
Með kveðju
Helgi Árnason
Skólastjóri Rimaskóla