Stelpurnar skrefi nær Pepsí-deildinni!
Vörn og markvarsla skópu sigurinn í Ólafsvík
Það voru frábærar aðstæður til knattspyrnuiðkunar í Ólafsvík í gærkvöldi þegar stelpurnar í meistaraflokknum heimsóttu Víking í A-riðli 1. deildarinnar, flott veður og góður völlur.
Fjölnir byrjaði af krafti og fengu óskarbyrjun, strax á 6. mínútu skoraði Aníta gott mark með skoti úr teignum eftir góðan undirbúning Erlu og Estherar. Fljótlega jafnaðist leikurinn og bæði lið áttu sín færi, Víkingur kannski það besta þegar boltinn small í slánni á Fjölnismarkinu en inn vildi boltinn ekki. Fjölnir leiddi því í 1-0 í háflleik.
Seinni hálfleikurinn var svipaður, liðin skiptust á að sækja, fengu nokkur ágæt færi og varði Helena meðal annars boltann vel í slánna en fleiri mörk litu ekki dagsins ljós og mikilvægur sigur Fjölnis því í höfn.
„Þetta var heldur dauf frammistaða hjá okkur í dag. Við vorum undir í bardaganum víða á vellinum og héldum bolta illa í liðinu en sigurinn kannski því sætari. Ég var mjög ánægður með Helenu í markinu og varnarleikinn okkar í leiknum, að halda hreinu í níunda leiknum í sumar er frábært. Víkingsliðið er flott, duglegar og baráttuglaðar. Það sem skyggði á leikinn og maður nennir varla að tuða yfir eru dómaramálin en það er langt síðan maður hefur séð svona einhliða dómgæslu eins og var í leiknum í gær.“ -Sagði Siggi þjálfari að leik loknum.
Liðið: Helena, Elvý, Íris, Eyrún, Kristjana (Regína 79.mín), Ásta (Oddný 53.mín), Aníta, Theresa, Erla (Kamilla 70.mín), Esther, Hrefna (Lovísa 66.mín), Bjarklind kom ekki inn á.
—
Staðan í riðlinum er nú þannig að Fjölnir er á toppnum með 36 stig, HK/Víkingur í öðru sæti með 31 stig og Grindavík svo í þriðja sæti með 26 stig en öll lið eiga þrjá leiki eftir og níu stig í pottinum. Okkar konur eru þar með öruggar í fjögurra liða úrslitakeppnina um sæti í úrvalsdeild þar sem Grindavík á ekki möguleika á að ná þeim að stigum. Það getur þó skipt sköpum að vinna riðilinn til að fá næstefsta liðið úr B-riðli í umspilinu í stað þess efsta en þau lið sem vinna umspilið og komast í úrslitaleik deildarinnar spila í Pepsí-deildinni að ári!