Skráning í sumarstarf fyrir börn og unglinga að hefjast
Í sumar verður fjölbreytt framboð af afþreyingu og fræðslu í boði fyrir börn og unglinga í Reykjavík.
Skráning
Skráning í sumarstarf á vegum Reykjavíkurborgar fer fram á Rafrænni Reykjavík. Skráning í sumarfrístund, sumarstarf frístundaheimilanna, fyrir börn sem eru að ljúka 1.–4. bekk grunnskóla hefst mánudaginn 27. apríl kl. 9:00. Skráning á siglinganámskeið í Siglunesi og á dýranámskeið í Húsdýragarðinum hefst sama dag.
Auk sumarfrístundar munu frístundamiðstöðvarnar bjóða upp á smiðjur fyrir börn sem eru að ljúka 5.-7. bekk og félagsmiðstöðvarnar verða með sumaropnun fyrir unglinga sem voru í 8.–10. bekk í vetur. Skráning í 10-12 ára smiðjurnar hefst 18. maí og fer hún einnig fram á Rafrænni Reykjavík. Nánari upplýsingar um sumarstarf frístundamiðstöðvanna eru á www.fristund.is.
Upplýsingar um skráningu í sumarstarf íþrótta- og æskulýðsfélaganna er að finna á www.fristund.is og á upplýsingasíðum hvers sumarstarfstilboðs fyrir sig.
Ef foreldrar geta ekki nýtt sér rafræna innritun geta þeir farið í frístundamiðstöðvar borgarinnar og á þjónustumiðstöðvar hverfanna og fengið aðstoð við skráningu. Ekki er hægt að skrá börn í sumarstarf Reykjavíkurborgar í gegnum síma. Starfsfólk þjónustumiðstöðva, frístundamiðstöðva og símavers Reykjavíkurborgar (s. 411 1111) geta þó leiðbeint símleiðis ef forráðamenn eru við nettengda tölvu. Skráning í sumarfrístund, siglinganámskeið og dýranámskeið þarf að fara fram fyrir kl. 12:00 á föstudögum eigi barn að byrja á mánudeginum á eftir, en foreldrum er þó bent á að skrá tímanlega þar sem vikurnar geta fyllst fljótt.