Skýrsla forsætisráðherra um störf faghóps um samræmdar aðgerðir til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu var lögð fyrir Alþingi, á 133. löggjafarþingi 2006-2007. Í henni eru tillögur að margþættum aðgerðum sem leiða eiga til hollara mataræðis og aukinnar hreyfingar landsmanna.
Alþingi samþykkti 11. maí 2005 eftirfarandi þingsályktun um aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um samræmdar aðgerðir til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Faghópur á vegum forsætisráðuneytis verði settur á laggirnar til að greina vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi, bæði orsakir vandans og afleiðingar.
Að lokinni greiningu á orsökum og afleiðingum geri hópurinn tillögur að samræmdum aðgerðum og framkvæmdaáætlun sem lagðar verði fyrir ríkisstjórnina í apríl 2006. Við mat á afleiðingum verði m.a. horft til áhrifa á einstaklinginn, heilbrigði hans og félagslega stöðu, á atvinnulífið og á heilbrigðis- og tryggingakerfið og heildarkostnaður samfélagsins af afleiðingum vandans metinn. Við greiningu á orsökum verði horft vítt, svo sem á áhrif mataræðis og lífsstíls nútímafjölskyldna, áherslur á hreyfingu í starfi og aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Enn fremur verði hugað að verðlagsmálum, aðstöðu almennings til íþrótta, útivistar og hreyfingar, skipulagi byggðar og samgangna og hlutverki starfsmanna skóla og heilbrigðisþjónustu við greiningu á vanda einstaklinga í forvarnaráðgjöf til foreldra og eftirfylgni aðgerða. Við skipun faghópsins verði haft í huga hve víðtækt verkefnið er og leitast við að tryggja þátttöku sem flestra viðkomandi ráðuneyta svo og fulltrúa Lýðheilsustöðvar sem hefur veigamiklu lögbundnu hlutverki að gegna á þessu sviði. Í starfi faghópsins verði haft til hliðsjónar markmið 11 í gildandi heilbrigðisáætlun, næringarráðleggingar manneldisráðs og samþykkt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar: „Global strategy on diet, physical activity and health“.
Forsætisráðherra skipaði 31. október 2005 faghóp, til samræmis við ákvæði fyrrgreindrar ályktunar Alþingis. Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og blaðamaður var skipaður formaður faghópsins. Aðrir sem áttu sæti í faghópnum voru dr. Jón Óttar Ragnarsson næringarfræðingur, Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari, Anna Ólafsdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar, Sæunn Stefánsdóttir, þáverandi aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, Árni Einarsson, uppeldis- og menntunarfræðingur, Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, Valur N. Gunnlaugsson matvælafræðingur og Petrína Baldursdóttir leikskólastjóri. Faghópurinn skilaði forsætisráðherra í september 2006 skýrslu, sem hér fylgir á eftir, um tillögur að fjölþættum aðgerðum til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. LÉTTARA LÍF Tillögur að fjölþættum aðgerðum til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.
Léttara Líf....