Fjölnismenn í þriðja sætinu
Fjölnir tyllti sér í þriðja sæti Pepsídeildar í knattspyrnu í kvöld með sigri á Víkingi Reykjavík, 2-1. Fyrri hálfleikur var markalaus en fyrsta mark leiksins kom ekki fyrr en sex mínútum fyrir leikslok. Þórir Guðjónsson var þar að verki með marki af stuttu færi.
Fjórum mínútum síðar skoraði Igor Jugovic frábært mark með góðu skoti fyrir utan vítateig og Fjölnismenn voru komnir í 2-0. Víkingar pressu nokkuð á lokamínútum leiksins og það bar árangur þegar Alex Freyr Hilmarsson minnkaði muninn fyrir gestina. Lengra komust þeir ekki og afar mikilvægur sigur í höfn hjá Grafarvogsliðinu.
Vörn Fjölnismanna stóð fyrir sínu og var hún einn sterkasti hlekkur liðsins í leiknum. Fjölnismenn geta verið sáttir með uppskeruna, 13 stig að loknum sjö umferðum og aðeins einu stigi á eftir efstu liðum.
sjá fleiri myndir hérna….