Jón Margeir Evrópumeistari á nýju meti
Jón Margeir Sverrisson úr Fjölni varð í dag Evrópumeistari í 200 metra skriðsundi á nýju Evrópumeti þegar hann kom fyrstur í mark af miklu öryggi á Evrópumeistaramóti fatlaðra í Eindhoven í dag.
Jón Margeir, sem keppir í flokki þroskahamlaðra S14, kom í bakkann á 1:58,60 mínútu og bætti fyrra Evrópumetið sitt um 70/100 úr sekúndu. Þetta er enn eitt afrekið hjá Jóni sem vann til gullverðlauna í greininni á Ólympíumóti fatlaðra fyrir tveimur árum.
Næsti maður á eftir Jóni var Bretinn Thomas Hamer sem kom í bakkann á 2:00,36 mínútum.
Thelma í baráttu um verðlaunasæti
Í morgun kepptu Kolbrún Alda Stefánsdóttir úr Firði/SH og Aníta Ósk Hrafnsdóttir úr Firði/Breiðabliki í undanrásum 200 metra skriðsund, í flokki þroskahamlaðra, en komust ekki í úrslit. Þær stöllur komu í bakkann á nákvæmlega sama tíma eða 2:27,72 mínútum.
Thelma Björg Björnsdóttir komst hins vegar í úrslit í 100 metra skriðsundi, í flokki hreyfihamlaðra S6, en hún varð fjórða í undanrásum á 1:26,11 mínútu. Hún kemur því til með að berjast um verðlaunasæti í úrslitunum í kvöld.