• HEIM
  • HAFÐU SAMBAND
facebook
email
Dagur gegn einelti – Hvatningarverðlaun
Grafarvogskirkja
Korpúlfar félag eldri borgara í Grafarvogi
Árgangamót Fjölnis í knattspyrnu
Ungmennafélagið Fjölnir 
  • HEIM
  • FRÉTTIR
  • MYNDIR
    • MYNDIR ÚR HVERFINU
  • HVERFIÐ OKKAR
    • VIÐBURÐIR
    • GALLERÍ KORPÚLFSSTAÐIR
    • ATVNNULÍFIÐ
      • VERSLUNARKJARNAR
        • BREKKUHÚSUM
        • HVERAFOLD
        • KORPUTORG
        • LAUFRIMA 21
        • SPÖNGIN
      • Sorpa
        • HVERFISSKIPULAG REYKJAVÍKUR
        • Hlutverk
        • Pappír er ekki rusl
    • FÉLAGASAMTÖK
      • KORPÚLFAR – FÉLAG ELDRI BORGARA Í GRAFARVOGI
      • SKÁTARNIR
    • GRAFARVOGSKIRKJA
      • Fermingar 2020
      • KIRKJUBYGGINGIN
      • LOGAFOLD SAFNAÐARBLAÐ
    • GÖNGU OG HJÓLALEIÐIR
    • HVERFISRÁÐ
      • HVERFIÐ Í TÖLUM
    • Heilsugæsla í Grafarvogi
    • ÍTR
      • GUFUNESBÆR
    • KORT AF GRAFARVOGI
    • MENNING OG LISTIR
      • KARLAKÓR GRAFARVOGS
      • MENNINGARHÚS SPÖNGINNI
    • SAGA GRAFARVOGS
      • KORPÚLFSSTAÐIR
    • SKÓLARNIR Í GRAFARVOGI
      • FÉLAGSMIÐSTÖÐVAR
      • FRAMHALDSSKÓLAR
      • FRÍSTUNDAHEIMILI
      • HEIMILI OG SKÓLI – LANDSSAMTÖK FORELDRA
        • FORELDRASÁTTMÁLINN
      • LEIK- OG GRUNNSKÓLAR
      • TÓNLISTARSKÓLINN
      • TÓNSKÓLI HÖRPUNNAR
    • STOLT GRAFARVOGS
    • ÞJÓNUSTUMIÐSTÖÐVAR
      • DAGFORELDRAR
        • DAGFORELDRAR Í HVERFINU
      • FÉLAGSMIÐSTÖÐ Í SPÖNG
      • ELDRI BORGARAR
      • FERÐAÞJÓNUSTA FATLAÐS FÓLKS
      • FÉLAGSLEG RÁÐGJÖF
      • FÉLAGSLEGAR ÍBÚÐIR
      • FJÁRHAGSAÐSTOÐ
      • SÉRFRÆÐIAÐSTOÐ VIÐ GRUNNSKÓLA
      • SKAMMTÍMAVISTUN ÁLFALAND
  • AÐSENT EFNI
    • DALE CARNEGIE
      • NÆSTA KYNSLÓÐ
    • TAPAÐ – FUNDIÐ
    • JÓLIN Í GRAFARVOGINUM
  • ÍÞRÓTTIR
    • FJÖLNIR
      • Sumarnámskeið 2019
      • Sumarnámskeið 2018
      • Sumarnámskeið 2016
    • GOLFKLÚBBUR REYKJAVÍKUR – KORPA
    • ÍÞRÓTTIR OG ÚTIVERA
    • GRAFARVOGSLAUG
      • ALMENNAR UPPLÝSINGAR
  • UM OKKUR

Aðsent efni

Vogabyggð breytist í íbúðahverfi

18 jún 2015
Baldvin Berndsen
0
Aðsent efni, Deiliskipulag, Mannlíf, Reykjavíkurborg, Skemmtilegt, Vogabyggð, Þétting byggðar

Vogabyggð breytist í íbúðahverfi

  • Samningar við lóðarhafa í undirbúningi
  • 1.100 íbúða hverfi gæti orðið að veruleika
  • Breytingar kalla á endurbyggingu allra innviða hverfisins

mynd1-loftmyndVogabyggð austan Sæbrautar verður breytt í íbúða- og atvinnusvæði samkvæmt deiliskipulagstillögu sem er í vinnslu. Svæðið er í dag eingöngu atvinnusvæði en eftir breytingar verður fjórðungur húsnæðis ætlaður atvinnustarfsemi.   Gert er ráð fyrir 1.100 íbúðum í hverfinu eftir breytingar.

Breytingin kallar á endurbyggingu á öllum innviðum hverfisins og á það sér ekki fordæmi í Reykjavík að endurbyggja og breyta svo stóru svæði sem hér um ræðir. Reykjavíkurborg hefur kynnt þessi áform um breytingu á skipulagi og fyrirkomulag á uppbyggingu fyrir lóðarhöfum innan hverfisins.

Í upphafi árs var sérstökum starfshópi hjá borginni falið að vinna að uppbyggingu hverfisins og hefur hann fengið umboð borgarráðs til að semja við lóðarhafa á grundvelli fyrirliggjandi deiliskipulagstillagna og samningsramma.

Verðmætari lóðir

Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir auknu byggingarmagni á svæðinu.  Íbúðarhúsnæði verður á flestum lóðum og heildarbyggingarmagn um 155.000 m2  fyrir þær 1.100 íbúðir sem áætlað er að byggja. Atvinnuhúsnæði verður á um 56.000 m2.

Þessi uppbygging og breytt nýting mun auka verðmæti lóðanna verulega. Vegna mikils kostnaðar við uppbyggingu innviða hverfisins er áformað að semja við lóðarhafa um fyrirkomulag uppbyggingar og þátttöku þeirra. Í samþykkt borgarráðs áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að hefja ekki framkvæmdir við uppbyggingu hverfisins fyrr en lóðarhafar sem ráða yfir 70% af nýju byggingarmagni á viðkomandi svæði hafa skuldbundið sig til þátttöku og að ráðast í uppbyggingu á sínum lóðum.   Lóðarleigusamningar á svæðinu eru alls 50 og lóðarhafar um 140 talsins. Í síðasta lagi 1. nóvember á að liggja fyrir hvort nægilegur fjöldi  lóðarhafa vilji taka þátt í endurbyggingu Vogabyggðar.

vb1-fra_sjoKröfur um fjölbreytni og gæði

Við uppbyggingu hverfisins verða höfð að leiðarljósi samningsmarkmið Reykjavíkurborgar fyrir endurbyggingu eldri hverfa sem samþykkt voru í borgarráði í nóvember sl. en þau eru:

  • Fjölbreytileiki í stærð og gerð íbúða
  • Gæðasvæði og gott umhverfi
  • Góð nýting lands
  • Stofnkostnaður innviða sé greiddur með fjármunum af uppbyggingunni
  • Sérstakar fjárhæðir séu til listsköpunar
  • 20 – 25% íbúða séu leigu-, búsetu- og stúdentaíbúðir
  • Kaupréttur Félagsbústaða sé að 5% íbúða

vb3-yfirlitsmyndNýr skóli gangi samningar eftir

Breytingarnar á hverfinu kalla á framkvæmdir við gerð gatna, torga, stíga, nýrra stofnlagna, strandstíga, útsýnis- og göngupalla, landfyllinga og grjótvarna. Auk þess er gert ráð fyrir göngubrú og stíflu við Háubakkatjörn, brú yfir Naustavog, færslu á Kleppmýrarvegi og færslu á skólpdælustöðvar. Verði hverfinu breytt í íbúðahverfi með 1.100 íbúðum kallar það á byggingu grunn- og leikskóla, en gert er ráð fyrir að ráðist verði í slíka framkvæmd samhliða uppbyggingu íbúða. Frumkostnaðaráætlun fyrir uppbyggingu innviða hverfisins nemur tæpum 5 milljörðum.

Hverfið í heild afmarkast af Kleppsmýrarvegi, Sæbraut og Súðarvogi.

 

Nánari upplýsingar og fjöldi mynda eru í frétt á vef Reykjavíkurborgar >>>  http://reykjavik.is/frettir/vogabyggd-breytist-i-ibudahverfi

 

 

 

Risahvannir í íslenskri náttúru og finnast einnig í Grafarvogi

18 jún 2015
Baldvin Berndsen
0
Aðsent efni, Grafarvogur, Hvannir, Hvannir í Grafarvogi, Náttúrufræðistofnun, Risa Hvönn, Varist Risa Hvönn

Í samtali við Snorra Sigurðsson hjá Reykjavíkurborg þá segir hann: „Kortlagning er hafin og mun eiga sér stað í sumar. Það er viðamikið verkefni og ekki víst að náist að skoða öll hverfi. Þess vegna tökum við glöð við öllum ábendinum sem berast um vaxtarstaði tröllahvanna eða mögulega vaxtarstaði. Við vitum af þeim  í Grafarvogi en það væri gott að fá fleiri ábendingar. Á síðustu árum hafa sést plöntur við Gullinbrúna og innarlega í sjálfum Grafarvoginum – fyrir neðan Foldahverfið.

Þetta eru ekki margir staðir í borgarlandinu og þar sem Grafarvogurinn er tiltölulega ungt hverfi eru minni líkur en meiri að það sé að finna margar plöntur í einkagörðum – en þá er það líklegast í einbýlishúsahverfum í eldri hluta Grafarvogsins t.d. Hömrum og Foldum. Plöntur í einkagörðum geta farið að dreifa úr sér inn á opin svæði, meðfram göngustígum o.s.f.v. þannig að það er mikilvægt að vita um þær einnig.

Þar sem sumarið fór seint af stað eru plönturnar að verða sýnilegar fyrst núna og eru enn í smærri kantinum, þær munu þó stækka mikið eftir því sem líður á sumarið. En við erum því rétt að byrja að hefja kortlagningarvinnuna og ég geri ráð fyrir að júlí verði aðalmánuðurinn“.

Ágengar tegundir sem leggja undir sig ný landsvæði, valda sífellt auknum áhyggjum. Meðal ágengra tegunda sem vaxa á Íslandi eru tvær náskyldar tegundir af ættkvíslinni Heracleum, stundum nefndar risahvannir. Risahvannir hafa verið notaðar sem skrautjurtir í görðum enda þykja þær blómfagrar. Þær eru hins vegar varasamar því þær eiga auðvelt með að ná fótfestu í lágvöxnum gróðri, dreifast hratt af sjálfsdáðum og geta orðið alvarlegt illgresi sem erfitt er að uppræta. Plönturnar eru eitraðar og ef safi þeirra berst á húð getur hún brunnið illa í sólarljósi. Risahvannir eru fremur sjaldgæfar utan garða enn sem komið er en tegundin hefur þó náð að mynda stórar breiður á höfuðborgarsvæðinu og í Eyjafirði.

Í Evrópu hafa fundist yfir 20 tegundir af ættkvíslinni Heracleum. Þrjár þeirra teljast til risahvanna, bjarnarkló (H. mantegazzianum), tröllakló (H. persicum) og Heracleum sosnowskyi, og vaxa tvær fyrrnefndu á Íslandi. Stærð þeirra, bæði mikil hæð sem plönturnar ná og risavaxin stærð laufblaðanna, útskýrir hvers vegna plönturnar eru nefndar risahvannir. Samkvæmt reglugerð nr. 583/2000 er óheimilt að flytja inn eða rækta risahvannir.

Bjarnarkló Tröllakló
Bjarnarkló. Ljósm. Teemu Mäki. Tröllakló. Ljósm. Krister Brandser.

 

Saga ræktunar og útbeiðsla risahvanna

Upprunaleg heimkynni bjarnarklóar eru í Vestur-Kákasusfjöllunum. Bjarnarkló er talin vera algengasta tegundin af sveipjurtaætt og var fyrst lýst árið 1895. Gögn úr grasasöfnum á Bretlandi, í Noregi og Hollandi sýna hins vegar að kynni Evrópu af bjarnarkló hafi í raun hafist mun fyrr. Árið 1817 er plantan skráð á frælista í Kew-grasagarðsins í London. Stuttu seinna, eða árið 1828, er bjarnarkló farin að vaxa af sjálfsdáðum utan grasagarða í Cambridgeshire og fljótlega virðist plantan hafa náð að dreifa sér víðs vegar um Evrópu.

Tröllakló rekur uppruna sinn til Tyrklands, Íran og Íraks. Var tegundinni fyrst lýst árið 1829 og virðist henni löngum hafa verið ruglað saman við annað hvort bjarnarkló eða Heracleum sosnowskyi. Líkt og hjá bjarnarkló finnast fyrstu merki tröllaklóar í Evrópu í Kew-grasagarðinum í London. Voru fyrstu fræin sem sáð var af garðyrkjufræðingum í Norður-Noregi um 1836 einmitt tekin úr safni grasagarðsins.

Hvatinn að dreifingu risahvanna virðist að mestu hafa verið forvitni sem og að plantan þótti sóma sér vel í görðum. Fræjum var sáð í fjöldann allan af grasagörðum og á betri landareignir víðs vegar um Evrópu. Þetta tíðkaðist út 19. öldina en það var ekki fyrr en viðvaranir um áhrif risahvannanna birtust í vestur-evrópskum ritum um 1950 að draga fór úr útbreiðslu tegundanna af mannavöldum.

Í Evrópu finnst bjarnarkló einkum í mið- og vestanverðri álfunni en tröllakló er nær eingöngu að finna í Skandinavíu. Báðar tegundirnar voru fluttar til Íslands á síðustu öld. Útbreiðsla þeirra hér á landi bendir til þess að aukin hætta sé á frekari dreifingu plantnanna til skaða fyrir íbúa og flóru landsins.

Útbreiðsla bjarnarklóar Útbreiðsla tröllaklóar
Útbreiðsla bjarnarklóar á Íslandi og í Evrópu. Útbreiðsla tröllaklóar á Íslandi og í Evrópu.

 

Plöntulýsingar

Bjarnarkló (H. mantegazzianum)

Hæð plöntunnar er 2,2-3,2 m, oft með sterka, beiska lykt. Venjulega einn, lítið eitt loðinn stöngull með víðu miðholi. Neðri hluti stönguls getur verið allt að 50-100 mm í þvermál. Stöngullinn hefur fjólubláa eða dumbrauða flekki og er settur stinnum hárum neðan til, en mýkri hárum ofar. Hárin eru glær, krulluð og standa 45 gráður út frá stönglinum. Blöðin eru þrífingruð eða fjöðruð, gróftennt, með fjólublá slíður, stilkurinn venjulega 40-90 cm langur. Blaðröndin er tvítennt eða tvísagtennt með langyddum tönnum. Endar smáblaðanna eru mjó- og langyddir. Heil, samsett blöð geta verið allt að 3 m löng. Sveipirnir eru venjulega flatir eða lítið eitt kúptir, 9-15 cm háir og 25-60 cm breiðir. Aldinin eru öfugegglaga með fjórum dökkum rákum sem breikka neðst, lítið eitt loðin með stuttum kirtilhárum (0,5-1 mm).

Tröllakló (H. persicum)

Hæð plöntunnar er 1,8-2,8 m, með lykt sem líkist einna helst anís. Plantan myndar venjulega fleiri en einn (1-5), holan, hærðan stöngul, sem er fjólublár neðst en dregur úr lit ofar. Stöngulhárin eru glær og útstæð, ókrulluð. Blöðin eru margskiptari en hjá bjarnarkló, allt að 2 m löng og 80 cm breið. Sagtennur blaðrandarinnar eru venjulega snubbóttar (ávalar) og endar smáblaðanna styttri og breiðyddari. Neðra borð blaðsins er venjulega þéttsetið stuttum hárum, en efra borðið er hárlaust. Sveipirnir eru meira eða minna kúptir, 10-15 cm háir og 30-50 cm breiðir. Aldinin eru aflöng, með fjórum, dökkum og jafnbreiðum rákum. Tröllakló er þó afar breytileg í útliti og því getur oft reynst erfitt að aðgreina hana frá bjarnarkló.

Blöð og aldin tröllaklóar og bjarnarklóar
Blöð og aldin tröllaklóar (H. persicum) og bjarnarklóar (H. mantegazzianum) sýna vel þau einkenni sem helst má nota til aðgreiningar á tegundunum (sjá nánari lýsingu í texta). Teikningar eftir Monika Osterkamp, teknar úr Flora Nordica, 6. bindi, með leyfi höfundar.

 

Áhrif á vistkerfi og menn

Tilvist risahvannanna bjarnarklóar og tröllaklóar á Íslandi má líta á sem vistfræðilegt vandamál og ógn við heilsu manna. Frá vistfræðilegu sjónarhorni stafar innlendri flóru og tegundafjölbreytni bein ógn af plöntunum. Hæð og umfang þeirra gerir þeim kleift að breiðast yfir innlendan gróður á auðveldan hátt því þær taka til sín allt að 80% sólarljóssins á kostnað annarra lágvaxnari tegunda. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að þar sem risahvannir hafa náð kjölfestu hefur fjölbreytileika og þéttleika innlendra tegunda hnignað verulega. Þar sem þær vaxa þétt getur hnignun gróðurs orðið það mikil að rof myndast í jarðveginn og eru áhrifin því mikil á vistkerfið. Erlendis hefur orðið vart við aukið rof á árbökkum af völdum risahvanna.

Risahvannir ógna ekki aðeins vistkerfum heldur eru þær líka eitraðar og stafar fólki bein hætta af þeim. Þær innihalda efnasambönd sem nefnast fúranókúmarín (e. furocoumarins) sem finnast í miklu magni í safa þeirra. Komist safinn í snertingu við húð getur myndast alvarlegur bruni en efnasamböndin virkjast þegar þau verða fyrir sólarljósi. Snerting við safann er þannig sársaukalaus í fyrstu en bruninn hefst í fyrsta lagi 15 mínútum eftir snertingu. Flestir eru viðkvæmastir 30 mínútum til tveimur klukkustundum eftir snertingu. Eftir um sólarhring verður vart við roða á húð og síðar mikilli útferð frá sýkta svæðinu. Eftir um þrjá daga koma fram bólgur eða blöðrur á húð. Bruninn veldur yfirleitt varanlegu öri á húðinni og svokölluðu ljósertnisexemi. Sýkta húðsvæðið getur því verið viðkvæmt fyrir sólarljósi árum saman. Svo virðist sem raki í andrúmslofti og sviti geti ýkt upp viðbrögð húðarinnar við brunanum. Safinn úr risahvönnunum er sérstaklega varasamur þegar hann kemst í snertingu við augu fólks en slíkt getur valdið tímabundinni og jafnvel varanlegri blindu. Þrátt fyrir að ýmsar aðrar tegundir sem vaxa í Evrópu innihaldi svipuð efnasambönd þá eru risahvannirnar sérstaklega varasamar vegna mikils styrks efnasambandanna í þeim en einnig vegna stærðar þeirra.

Brunasár af völdum risahvanna
Brunasár af völdum risahvanna gróa mjög hægt og skilja eftir sig dökka bletti á húð. ©Bob Kleinberg með leyfi frá NYSDEC.

 

Almenningur er oft ekki meðvitaður um þær hættur sem fylgja risahvönnum. Þeir sem sinna garðyrkjustörfum eru í mestum áhættuhópi því mjög varasamt er að meðhöndla plönturnar án þess að vera í hönskum eða öðrum viðeigandi hlífðarbúnaði. Börnum stafar einnig mikil hætta af plöntunum en svo virðist sem breiður af risahvönnum séu spennandi leiksvæði. Holur stöngull risahvannanna er jafnvel notaður sem baunabyssa eða sjónauki. Þar sem engin erting verður þegar fólk kemst í snertingu við safann, fær viðkomandi enga viðvörun og heldur því áfram við iðju sína eða leik, sem verður oft þess valdandi að áhrifin verða mun verri en ella.

Komist fólk í snertingu við safa, skal húðsvæðið tafarlaust þvegið varlega með sápu og vatni. Mikilvægt er að halda sig frá sólarljósi að loknum þrifum í að minnsta kosti 48 klukkustundir eða lengur. Hafi fólk fengið safa risahvanna yfir stór svæði líkamans eða í augu skal tafarlaust leitað læknis.

Eyðing risahvanna

Að losna við risahvannir er langtímaverkefni og er mikilvægt að ráðast af fullum krafti í eyðingu þeirra sem fyrst. Sé beðið of lengi má búast við að vandamálið aukist mikið með tímanum. Bæði bjarnarkló og tröllakló hafa gríðarlega mikla fræframleiðslu en talið er að hver planta geti framleitt allt að 20 þúsund fræ. Ef um er að ræða aðeins eina eða fáar plöntur má klippa þær niður og grafa ræturnar upp. Þó má gera ráð fyrir plantan geri vart við sig í allt að þrjú ár, ef ekki lengur, eftir að rætur hafa verið grafnar upp. Því þarf að fylgjast vel með vaxtarstað plöntunnar í nokkur ár á eftir. Séu plönturnar orðnar fleiri og jafnvel farnar að mynda stórar breiður þarf skipulagt átak til að ráða niðurlögum plöntunnar. Hér þarf þá oftast að notast við blandaða aðferð, klippingu plantnanna, uppgreftri róta og notkun illgresiseyðis, allt eftir umfangi. Gera má ráð fyrir því að beita þurfi þessum aðferðum í þrjú ár eða lengur. Að auki er mjög mikilvægt að þurrka risahvannir og þar með drepa ræturnar áður en þeim er fargað.

Það skal ítrekuð nauðsyn þess að vera ávallt í viðeigandi hlífðarbúnaði þegar risahvannir eru meðhöndlaðar. Vatnsheldir hanskar, andlitshlífar og alklæðnaður er nauðsynlegur.

Þeim sem vilja koma á framfæri upplýsingum um vaxtarstaði risahvanna er bent á netfangið agengartegundir@ni.is, einnig eru frekari ráðleggingar um eyðingu risahvanna fúslega veittar í þessu netfangi.

Menningarmótsskólar skólaárið 2014/15

16 jún 2015
Baldvin Berndsen
0
Aðsent efni, Féagsmiðstöðin Spönginni, Grafarvogur, Menntamál, Miðgaraður, Rimaskóli, Skemmtilegt, Skólastarf

Í tilefni af Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni UNESCO ár er tilkynnt hvaða skólar séu formlegir Menningarmótsskólar. Sjö skólar eru menningarmótsskólar í Reykjavík.

Þetta skólaárið voru það eftirfarandi skólar:

Leikskólinn Rofaborg, Leikskólinn Hólaborg, Leikskólinn Árborg, Leikskólinn Laugasól, Ingunnarskóli, Háteigsskóli og Landakotsskóli.

Verkefnið Menningarmót – fljúgandi teppi hefur verið innleitt í fjölmörgum leik -, grunn – og framhaldsskólum í Reykjavík frá árinu 2008 og er víða orðið hluti skólastarfsins. Styrkleikar og fjölbreyttir menningarheimar nemenda eru í forgrunni í þessu fjölmenningarlega verkefni Borgarbókasafns. Allir skólar geta tekið þátt í að þróa verkefnið og orðið formlegir Menningarmótsskólar að vori til.   Hvernig hægt er að koma í hóp Menningarmótsskóla.

Menningarmót bjóða uppá gagnvirkt samstarf við foreldra sem eru ávallt mjög áhugasamir og virkir þátttakendur með börnum sínum. Aðferðin hefur nýst í vinnu með sjálfsmynd barna í leikskólum, samfélagsfræði, íslensku, tónlistar- og leiklistarkennslu í grunnskólum og lífsleikni í grunn- og framhaldsskólum og íslensku sem öðru tungumáli á fullorðinsstiginu. Meðal markmiða verkefnisins er að þátttakendur geri sér ljóst að fjölbreytt menning, áhugasvið og ólík tungumál mynda mikilvægt menningarlegt litróf í samfélaginu öllu.

Á vefnum www.menningarmot.is sem var opnaður nýlega má finna margvíslegar upplýsingar um hvernig nota má Menningarmótin í  kennslu og skólastarfi allt frá leikskóla til fullorðinsfræðslu. Vefurinn er einnig samráðsvettvangur fyrir hugmyndir og nýjar leiðir sem verða til í skólunum í tengslum við verkefnið og byggir hann á samstarfi  höfundans og skóla – og frístundasviðs Reykjavíkur. Menningarmótsverkefnið samræmist stefnu borgarinnar um fjölmenningarlegt skólastarf. Kristín R. Vilhjálmsdóttir, kennari og verkefnastjóri fjölmenningar í Borgarbókasafninu, er höfundur Menningarmótsins og hefur þróað verkefnið í kennslu bæði í Danmörku og á Íslandi.

 

Júní III

 

Fjölnir í þriðja sætið – Aron átti frábæran leik

15 jún 2015
Baldvin Berndsen
0
Aðsent efni, Fjölnir knattspyrna, Grafarvogur., Verslunarmiðstöðin Spöngin
Aron

Aron Sigurðarson – mikið efni þarna á ferð.

Fjölnismenn halda uppteknum hætti í Pepsídeild karla í knattspyrnu en í kvöld lögðu þeir Leikni úr Breiðholtinu með þremur mörkum gegn engu. Fyrri hálfleikur var markalaus enda fátt um fína drætti. Bæði lið fengu þó tækifæri til að skora en það gekk ekki eftir.

Síðari hálfleikur var öllu líflegri og sóknir Fjölnismenn þyngdust jafnt og þétt og markið virtist liggja í loftinu. Það var á 59. Mínútu sem Aron Sigurðarson opnaði markareikning Grafarvogsliðsins með laglegu skoti utarlega í markteignum, vel að verki staðið hjá þessum bráðefnilega pilti sem hafði ekki sagt sitt síðasta í leiknum.

Þórir Guðjónsson kom sigri Fjölnis í örugga höfn fjórum mínútum fyrir leikslok með hnitmiðuð skoti rétt fyrir utan vítateig. Aron Sigurðarson skoraði þriðja markið rétt fyrir leikslok með glæsilegu skoti við miðjuhringinn sem fór yfir markvörð Leiknis sem var kominn full framarlega úr markinu. Engu að síður vel að verki staðið. Glæsilegur sigur staðreynd og Fjölnir komið í þriðja sæti í deildinni með 17 stig, tveimur stigum á eftir FH sem trónir í efsta sætinu með 19 stig en Breiðablik er í öðru sæti með 18 stig.

Það er óhætt að segja að þessi kröftuga byrjun Fjölnismanna komi skemmtilega á óvart. Það verður ekki tekið af liðinu að það er að leika fínan bolta og verðskuldar að vera í toppbaráttu deildarinnar. Aron Sigurðarson átti frábæran leik og vex með hverri raun. Efnilegur strákur hér á ferð sem á svo sannarlega framtíðina fyrir sér.

Annars er liðsheild Fjölnismanna sterk og skilar þessum árangri sem nú er kominn í hús. Það verður skemmtilegt og fróðlegt að fylgjast með framhaldinu. Það er gaman þegar vel gengur og hrósa liðinu um leið fyrir góða frammistöðu.

Það var einstök stemning á Fjölnisvelli í kvöld en hátt í 1400 áhorfendur fylgdust með leiknum. Næsti leikur liðsins í Pepsídeildinni verður gegn Víkingum á útivelli 22. júní.

 

Júní III

 

Sölutjald Fjölnis í Austurstræti á 17. júní – Forsala í Sportbitanum 16. júní

12 jún 2015
Baldvin Berndsen
0

Góðan dag,

Körfuknattleiksdeild Fjölnis verður með sölutjald fyrir framan Landsbankann í Austurstræti á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Meðfylgjandi er auglýsing. Ýmislegt góðgæti í boði og að sjálfsögðu úrval af vinsælum blöðrum. Hlökkum til að sjá alla velunnara Fjölnis

Forsala á blöðrum verður í Sportbitanum Egilshöll þann 16. júní frá kl. 16:00 – 22:00. Mikið úrval af vinsælum blöðrum. Tryggið ykkur blöðru í tíma

Áfram Fjölnir!

Með kveðju,

Körfuknattleiksdeild Fjölnis

 

 

Júní IIIStólpi auglýsing stór II

 

 

Afmælishátíð Bílabúðar Benna

12 jún 2015
Baldvin Berndsen
0
Aðsent, Æfmælishátíð Bílabúðar Benna, Benni, Grafarvogur, Skemmtilegt

Bílabúð Benna IBílabúð Benna er 40 ára á þessu ári og býður allri fjölskyldunni á veglaga afmælishátíð, laugardaginn 13 júní, milli kl. 12-16 við Vagnhöfðann.

Fyrirtækið, var stofnað 26. maí, árið 1975, af hjónunum Benedikt Eyjólfssyni og Margréti Betu Gunnarsdóttur. Nú starfa um 130 manns hjá Bílabúð Benna, sem er eitt af öflugustu fyrirtækjunum innan bílgreinarinnar. „Við erum ákaflega stolt á þessum tímamótum og munum fagna áfanganum með ýmsum hætti á afmælisárinu undir yfirskriftinni „Bein leið í 40 ár.“ segir Benedikt Eyjólfsson, forstjóri Bílabúðar Benna.

„Við hefjum fagnaðinn, laugardaginn 13. júní, með veglegri afmælishátíð fyrir alla fjölskylduna, við höfuðstöðvar okkar að Vagnhöfða 23.“

Að sögn Benedikts verður hátíðin afar fjölbreytt, 40 afmælistertur verða á boðstólum ásamt grilluðum pylsum, gosi og ís.

Hátíðin verður afar fjölbreytt:

► 40 afmælistertur verða á boðstólum ásamt grilluðum pylsum, gosi og ís

► Sirkús Íslands mætir á svæðið og verður með ýmsar uppákomur

► Lína Langsokkur bregður á leik með börnunum.

► Hljómsveitin Sólin(n) frá Sandgerði, með Kidda Casio í fararbroddi, sem kemur saman sérstaklega af þessu tilefni

► Hoppukastali og leiktæki fyrir börnin

► Andlitsmálun og blöðrulistamenn

► Gamlir og nýir bílar verða til sýnis á svæðinu

Hlökkum til að sjá ykkur!

 

 

 

Júní III

 

 

Kallað eftir skoðunum íbúa á tilhögun úrgangsmála

08 jún 2015
Baldvin Berndsen
0
Aðsent efni, Reykjavík

Hvenær mun Reykjavíkurborg hefja söfnun á plasti við heimili? Hvernig mun Reykjavíkurborg draga úr sóun og myndun úrgangs í Reykjavík? Hvað verður gert við lífræna eldhúsúrganginn? Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum er svarað í tillögum starfshóps  um framtíð úrgangsmála í Reykjavík.

  • Grenndarstöð við Arnarbakka í Breiðholti.

  • Reykjavíkurborg vill draga úr sóun og myndun úrgangs í borginni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Reykjavíkurborg hefur óskað eftir umsögnum um drög að aðgerðaráætlun í úrgangsmálum í Reykjavík. Áætlunin mun gilda fyrir árin 2015 – 2020 og eru markmið hennar að draga úr myndun úrgangs og auka endurnýtingu og endurvinnslu. Sérstök áhersla er lögð á val íbúa á þjónustustigi í tillögunum. Frestur til að skila umsögnum er til föstudagsins 3. júlí 2015.

Mikill ávinningur og betri yfirsýn

Skilvirk meðhöndlun úrgangs hefur í för með sér fjárhagslegan, samfélagslegan og umhverfislegan ávinning fyrir sveitarfélög og íbúa þeirra en um er að ræða lögbundna grunnþjónustu sveitarfélaga. Aðgerðaáætluninni, sem er skipt í þrjú tímabil, er ætlað að auka yfirsýn og gegnsæi málaflokksins og auðvelda skipulagningu og forgangsröðun verkefna sem ráðist verður í. Lagðar eru til 42 aðgerðir, tíu leiðarljós og meginlínur um þjónustu grenndarstöðva sem verða til hliðsjónar við ákvarðanatöku um úrgangsmál í sveitarfélaginu.

Reykjavíkurborg mun áfram, samkvæmt tillögununum, bjóða íbúum að velja það þjónustustig sem hentar þeim og greiða íbúar fyrir þjónustuna í takt við það. Þannig geta íbúar núna valið hvort þeir vilja nýta sér þjónustu grenndar- eða endurvinnslustöðva eða láta sækja endurvinnsluefni við heimili sín.

Óskað eftir umsögnum

Sérstök áhersla er lögð á upplýsingagjöf í drögunum en fræðsla er undirstaða aukinnar neysluvitundar sem dregur úr sóun. Mikilvægt er að draga úr úrgangi frá fyrirtækjum og heimilum og úr fjárhagslegum og umhverfislegum kostnaði við meðhöndlun hans.

Borgin hefur sett gott fordæmi með umhverfisvænum rekstri stofnanna borgarinnar, svo sem með verkefninu Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar. Enn frekari áhersla verður lögð á flokkun og skil endurvinnanlegs úrgangs hjá stofnunum borgarinnar á næstu árum.

Rekstraraðilar munu verða hvattir til að auka flokkun og skil á endurvinnsluefnum til að uppfylla þau markmið í úrgangsmálum sem Reykjavíkurborg vinnur að en svipað magn af úrgangi fellur til frá rekstraraðilum í Reykjavík og íbúum.

Umsagnir skal senda í tölvupósti á netfangið umsogn@reykjavik.is eða í bréfpósti til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12 – 14, 105 Reykjavík til og með föstudeginum 3. júlí 2015. Allar ábendingar og tillögur um það sem betur mætti fara í áherslum borgarinnar til ársins 2020 í þessum mikilvæga málaflokki eru vel þegnar.

Hjálögð Aðgerðaráætlun í úrgangsmálum í Reykjavík til 2020

Umsagnarvefur þar sem óskað er eftir tillögum og aðgerðum í úrgangsmálum í Reykjavík

Sjómannadagurinn 7. Júní 2015 – Kveðjumessa Lenu Rósar Matthíasdóttur í Grafarvogskirkju

08 jún 2015
Baldvin Berndsen
0
Aðsent efni, Barnastarf, Bænahald, Grafarvogskirkja, Guðþjónusta, Lena Rós, Prédikun Sr Lenu Rós, Prestar, Sjómannamessa

Höfðu þessir lærisveinar aldrei migið í saltan sjó?

Ég veit ekki hvað ykkur datt í hug þegar þið heyrðuð guðspjallið lesið hér áðan. Kannski einhver ykkar hafi af vorkunsemi látið hugann reika til Jesú. Hann hafði jú gengið langar vegalengdir, mætt mörgu fólki, predikað og kennt, læknað og hlustað hvar sem fólk á vegi hans varð og mátti að auki þola aðfinnslur og aðkast þeirra sem vildu hann burt. Hann var úrvinda af þreytu. Kannski datt ykkur í hug að það hefði nú verið yndælt að geta boðið honum heim, í uppábúið rúm, í mjúkar amerískar springdýnur og færa honum ristað brauð og djús, horfa á hann sporðrenna því á meðan þið nuddið á honum fæturnar.

Kannski hvarflaði hugur ykkar meira í áttina að lærisveinunum, að hugleysi þeirra eða trúmennsku. Þeir voru jú trúfastir vinir, hvort tveggja í senn námsmenn hjá Jesú og samstarfsmenn í hreyfingu hans. Þeir gerðu sitt gagn í þjónustunni og komu honum undan fjöldanum og út í bátinn með álíka fumlausum hætti og lífverðir Kim Kardashian hefðu gert. En þeir urðu líka hræddir um að báturinn myndi farast.

Kannski var það eitthvað allt annað sem þú hugsaðir, mundirðu kannski skyndilega eftir ferðinni með gamla Herjólfi hér um árið í bandbrjáluðu veðri, þegar þú ætlaðir að æla út fyrir borðstokkinn en fékkst allt á skóna? – Já, þær geta verið svo ótalmargar myndirnar sem birtast okkur þegar við lesum þetta litla en ríkulega myndræna guðspjall um Jesú og storminn. Sjálf varð ég hugsi yfir viðbrögðum lærisveinanna og óttanum sem birtist í orðum þeirra. Það er engu líkara en þessir menn hafi aldrei migið í saltan sjó. Þeir virðast missa tökin, hætta að stóla á sjálfa sig og sína kunnáttu en varpa ábirgðinni allri yfir á sofandi manninn. Mér finnst það alltaf jafn skrítið, þegar ég hugsa um það, sumir þeirra voru nefnilega vanir fiskimenn áður en þeir gengu til liðs við Jesú. Voru þeir strax búnir að gleyma því hvernig þeir ættu að bera sig að?

Því ef þú hefur alist upp við útgerð, eða stundað sjósókn, þá veistu að lífið snýst um bátinn, veðrið og fiskinn. Þú andar að þér hafinu og þekkir það eins og lófann þinn. Umræðan við matarborðið er umræða um afla dagsins, um hrefnuna sem sinnti óvenju nálægt, um selinn sem reif netin. Verðið á kílóinu, bilaða kranann á bryggjunni og um það hvernig við matreiðum lostætið sem borið var heim í hús þann daginn. Þú lest veðrið úr tunglinu, skýjunum, sjólaginu, háttarlagi dýra og fugla. Án afláts andarðu að þér sjónum og getur ekki annað. Hann er lífið þitt. Allt þetta í milli þess sem greint er frá skóladeginum, prakkarastrikunum eða sögunum sem við heyrðum út í búð í gær. Fjölskyldusagan og fiskisagan fléttast saman í eina litríka frásögn sem fjallar um sorgir og sigra í rammsöltum hversdeginum.

Ég var svo heppin að fá að fá að kynnast þessari hlið íslenskrar alþýðumenningu og upplifði það á eigin skinni að standa af mér ölduna með pabba úti á sjó. Þá hafði ég frá blautu barnsbeini unnið mig upp í landvinnslunni úr því að moka salti í það að fella netin með mömmu og fannst ég stór þegar ég fékk að hausa í fyrsta sinn. Já, það var sko fullorðins að handhausa þorsk. En það ekki fyrr en ég fékk að prufa að vera á handfærum með pabba, og ég upplifði á einu augabragði að breytast úr töffara í ákaflega hjartasmáa og huglausa mús, að ég vissi hvað var að vera fullorðinn.

Við höfðum verið á skaki við mynni Héðinsfjarðar þegar stormviðrið skall á með slíkum hvelli að illilega varð stætt um borð. Aldrei hafði ég upplifað svona sjó fyrr og hafði ekki heldur ímyndunarafl til að skilja hvernig smábátur mögulega gæti haldið stefnu í slíku róti. Ég fór eitthvað að væla og pabbi skipaði mér niður í lúkar og sagði mér að halda þar til þangað til við kæmum inn fyrir fjarðarkjaftinn í Ólafsfirði. Ég gleymi því seint hve hrædd ég var um pabba. Það var svo skrítið að ég hugsaði ekkert um eigin afdrif, en gerði mig þeim mun uppteknari af hugmyndum um það hvað myndi gerast ef pabbi drukknaði. Hvernig mömmu myndi reiða af, hverju pabbi myndi missa af og hversu sárt systur mínar myndu gráta hann. Það var akkúrat þá sem ég áttaði mig á að ég var að verða fullorðin. Því kannski er það ekki fyrr en maður stendur frammi fyrir örlögum ástvina að maður áttar sig á því í hverju það felst að vera fullorðinn. Allt í einu skildi ég setninguna hafið gefur og hafið tekur og fanst ég hafa upplifað mikla hetjudáð að hafa hætt að væla og látið mig hafa það að hýrast í lúkarnum gegnum allan veltinginn.

Þegar ég svo les guðspjall dagsins þá skynja ég þennan sama ótta hjá lærisveinunum. Óttann sem vaknar vegna þeirra sem maður elskar mest. Var það kannski þannig ótti sem rak þá til að vekja meistarann. Ekki að þeir hafi verið svo hræddir um sjálfa sig, heldur um hann. Þeir voru jú þarna hans vegna. Setningin: ,,Við förumst“ felur þá í sér sorgina yfir því að möguleikar hans sem þeir elskuðu mest yrðu að engu. Var það ekki kannski einmitt kærleikur og hetjudáð sem stýrði þeim í að öskra á hann ,,Ræs“? Ef ég gef mér það og leyfi mér síðan að taka hugsunina aðeins lengra og spyrja sjálfa mig, hvað ef báturinn væri íslenskt samfélag í dag, hvað ef hinn sofandi leiðtogi væri ríkisstjórnin okkar og lærisveinarnir værum ég og þú. Þá finn ég um leið að það er einmitt þessi sami ótti sem gerir að verkum að almenningur hrópar af öllum kröftum á tvísýnum tímum? Kærleikur og hetjudáð og ábyrgðartilfinning gagnvart þeim sem við elskum mest eru drifkrafturinn sem knýr okkur til að hrópa frá öllum þessum útifundum, bloggsíðum, net- og fjölmiðlum.

En óánægjan verður ekki til í tómarúmi. Lág laun og veik staða velferðarkerfisins eru sennilega þeir þættir sem valda mestri óánægju á Íslandi í dag. Möguleikar unga fólksins okkar að koma sér þaki yfir höfuðið eru hverfandi. Leigumarkaðurinn löngu sprunginn og leiguverð svo hátt að flestum reynist erfitt að leggja til hliðar og safna til íbúðarkaupa.   Þessi sama óánægja með bág kjör og erfiða lífsafmkomu hefur orðið allt of mörgum fjölskyldum hvati til þess að yfirgefa landið.

– ,,Er það nema von, segir Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia háskóla, að fólk sé óánægt þegar þjóðin lætur það yfir sig ganga, ár eftir ár, að veiðiheimildum sé úthlutað til útgerðanna langt undir sannvirði. Laun gætu verið hér mun hærri og velferðarkerfið mun betur sett ef þjóðin fengi að njóta arðsins af þeim auðlindum sem hún á. Nú vill ríkisstjórnin taka stórt skref í þá átt að festa þetta kerfi enn frekar í sessi. Þess vegna er tími til kominn að landsmenn segi hingað og ekki lengra og leggi sitt lóð á vogarskálarnar til að sópa burt úr sjávarútvegi okkar þeirri spillingu sem þar ríkir. Því það er spilling að leigja makrílkvóta með 80 % afslætti. Kvótann á að bjóða upp svo að þjóðin fái markaðsverð fyrir veiðiheimildirnar“. (Tilvitnun lýkur)

Við getum flest verið sammála hinum unga hagfræðingi um að Fiskveiðiauðlindin sé og eigi áfram að vera þjóðareign. Við getum örugglega líka flest verið sammála um það að sá arður sem af þjóðareigninni skapast ætti að nýtast til að byggja upp gott velferðarsamfélag. Sú hugmynd ætti alls ekki að þurfa að vera skoðun nokkurra einstaklinga sem á samfélagsmiðlum fá útrás fyrir vanþóknun sína og reiði, heldur er um að ræða réttlætismál og baráttumál okkar allra, algerlega óháð því hvort við höfum nokkurn tíma migið í saltan sjó eða ekki. Því í reynd fjallar stóra makrílfrumvarpið um afkomumöguleika komandi kynslóða hér á landi. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um kvótasetningu á makríl er eiginlega sniðið til þess að ala á sundurlyndi og ójöfnuði og fer beinlínis gegn niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem á sínum tíma sagði misbrest hafa verið á því, að gætt hafi verið sanngirni (við upptöku kvótakerfisins) þegar tímabundnar aflaheimildir breyttust í varanlegar aflaheimildir. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna komst sumsé að því að þáverandi yfirvöld hefðu beitt þegna landsins óréttlæti. Það er alvarlegt mál að ríkisstjórn lands skuli fá á sig þann dóm að vinna gegn heill landsmanna. Maður skyldi því ætla að þær ríkisstjórnir sem á eftir komu hefðu reynt að bæta fyrir vitleysuna, en sú hefur ekki enn orðið raunin. Og það sem meira er, með þessu nýjasta frumvarpi virðir ríksstjórn Íslands að vettugi varnaðarorð Mannréttindadómstólsins og gengur enn lengra í vitleysunni með því að reyna að festa óréttlætið enn frekar í sessi, fjöldanum til óheilla og örfáum til sigurs.

Jesús sofnaði í bátnum, hann virtist vera algerlega sultuslakur þegar hann vaknaði, líkt og honum væri alveg sama um hætturnar allt um kring. En þrátt fyrir það þá hlustaði hann á lærisveina sína. Hann virtist reyndar stórmóðgaður yfir því að þeir skyldu halda að báturinn myndi farast. Enda leit hann aldrei á sig sem venjulegan mann og birtist heldur ekki fólki sem venjulegur maður. Vinir hans upplifðu Guð tala í gegnum hann og fundu hvernig hann öruggur hvíldi í varðveislu Guðs hvort sem var í logni eða stormviðri lífsins. Við getum lært margt af honum þar og lagt okkur fram um að hvíla í Guði jafnvel þótt pólitískt stormviðri skeki tilveru okkar. En takið eftir því að jafnvel þótt Jesús væri sultuslakur og undrandi á viðbrögðum lærisveinanna, þá hlustaði hann á þá og á rökin þeirra og kom til móts við þarfir þeirra. Hann lægði vindinn svo þeim liði vel.

Landinu okkar er auðvelt að líkja báti sem sem siglir hægt en örugglega um heimsins höf, í logni sem stormi og stundum í stórkostlega úfnum sæ. Ekki allir þola álagið frá öldurótinu, og líkt og tölur frá hagstofu sýna eru alltf of margir íslendingar farnir frá borði vegna stormviðrisins undanfarin misseri. Hinir sem eftir standa hrópa á yfirvöld að vakna. – En það er nýtt fyrir mér að nota bátinn sem líkingu fyrir landið, því alla tíð hef ég litið á hann sem líkingu fyrir kirkjuna. Ég sé hana eins og risastóra galeiðu og finnst ég vera heppin að hafa fengið að grípa í árina hér í Grafarvoginum frá ársbyrjun 2004 til ársloka 2014. Hér hef ég séð margar góðar hendur munda árar. Allir hafa þessir dyggu þjónar lagt sitt lóð á vogarskálarnar, hvert á sínum hraða á sínum tíma, stigið um borð og aftur frá borði. Og áfram siglir fleyið. Stundum gat virkilega gefið á bátinn og það kom fyrir að ég hrópaði á meistarann, hvort hann væri ekki örugglega vakandi. En þegar ég lít yfir tímann minn hér sé ég að lengst af fylgdi okkur blíður blær og lygn sjór.

Ég sagði einhvern tíma frá því í blaðaviðtali hversu hissa ég væri á því að mörgum árum eftir vígslu hlakkaði enn í mér þegar ég stingi lyklinum í skráargatið á skrifstofunni minni að morgni dags. Ég upplifði raunverulegan unaðshroll yfir því að mega þjóna hér, fá að vera ein af árunum um borð. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát. En nú hef ég tekið við nýrri ár í nýju landi og þarf að læra annan takt, pínulítið öðruvísi áralag og finn að það gerir mig hæfari ræðara um borð í þessari sömu risastóru galeiðu sem hin kristna kirkja er. En hvort sem við finnum okkur við árina í kirkjuskipinu eða ríkisgaleiðunni, skulum við hvert og eitt reyna að bæta áralagið og skipta máli. Ég finn það með mig, að þótt ég sé farin er ég hvergi nærri hætt að róa á íslandsmiðum. Ég finn æ meiri þörf fyrir að staðsetja mig með þeim sem hrópa hæst á sofandi leiðtoga. Bara að þeir skynji að þar fara lærisveinar sem af kærleika og umhyggju fyrir landi og þjóð, hrópa fullum hálsi ,,RÆS… við förumst!“.

Kæru grafarvogsbúar! Af hjartans auðmýkt þakka ég samfylgdina og bið ykkur öllum Guðs blessunar!

Gleðilegan sjómannadag!

 

[su_button url=“https://www.facebook.com/media/set/?set=a.347978168710681.1073741867.111119802396520&type=1″]Myndir frá athöfninni….[/su_button]

 

 

40 ára afmælis-sýning Kvartmíluklúbbsins verður haldin dagana 5. – 7. júní í Egilshöll.

06 jún 2015
Baldvin Berndsen
0
Aðsent efni, Bílar, Grafarvogur, Kvartmíluklúbburinn, Sýning Egilshöll
Kvartmíluklúbbur logoYfir 200 af glæsilegustu og kraftmestu tryllitækjum landsins verða í salnum og þar á meðal verður Fire Force 3 þotubíllinn til sýnis.

Opnunartímar:
Föstudagurinn 5.júní kl.18-22
Laugardagurinn 6.júní kl.10-22
Sunnudagurinn 7.júní kl. 10-17

Aðgangseyrir kr.1.500,
Frítt fyrir 12 ára og yngri í fylgd með fullorðnum.
[su_button url=“https://www.facebook.com/media/set/?set=a.347044218804076.1073741866.111119802396520&type=1″]Myndir frá sýningunni….[/su_button]
« First‹ Previous115116117118119120121Next ›Last »
banner
banner
banner
banner
banner
banner

Gagnlegir tenglar

  • HEILSUGÆSLAN
  • AUSTURMIÐSTÖÐ
  • HVERFIÐ MITT
  • MOJE_S_SIEDZTWO
  • MANO_KAIMYNIST_JE
  • MY NEIGHBOURHOOD

Börnin okkar

  • FRAMHALDSSKÓLAR
  • GUFUNESBÆR
  • LEIK OG GRUNNSKÓLAR
  • SKÁTAFÉLAGIÐ HAMAR
  • TÓNLISTARSKÓLINN

GRAFARVOGSBÚAR Á FLICKR

Allur réttur áskilinn © 2025
www.grafarvogsbuar.is