„Við erum stöðugt á ferðinni og í þessu tíðafari er það viðvarandi verkefni að halda gönguleiðum greiðfærum. Klakinn er ekkert að hverfa við þetta hitastig,“ segir Sigurður Geirsson stjórnandi dráttavéladeildar Reykjavíkurborgar og hann gerir ráð fyrir að vera á ferðinni með allan sinn mannskap inn í helgina og áfram næstu viku.
Á hverjum degi dreifa starfsmenn 30 – 40 tonnum af sandi eða um 200 tonnum á viku. Eftir stígum og gangstéttum fara sérútbúnar dráttarvélar sem borgin keypti haustið 2012. Í forgangi eru helstu göngu- og hjólastígar , svokallaðir stofnstígar milli borgarhluta og síðan helstu gönguleiðir að strætóbiðstöðvum og skólum sem eiga að vera greiðfærar fyrir kl. 8:00 virka daga. Notaður er þveginn sandur (0 – 8 mm) á gönguleiðir en saltblanda við strætóbiðstöðvar.
Viljum bregðast hratt við
„Starfsmenn Reykjavíkurborgar leggja sig fram um að sinna vetrarþjónustunni vel,“ segir Guðjóna Björk Sigurðardóttir stjórnandi reksturs og umhirðu borgarlandsins. Auk gönguleiða hefur þurft að sandbera klakann sem er á skóla- og leikskólalóðum. Guðjóna segir að sýna verði starfsmönnum skilning við þessar síbreytilegu aðstæður, en mikilvægt sé að fá ábendingar. „Við leggjum áherslu á að bregðast vel og hratt við þegar ábendingar berast,“ segir hún og bætir við að best sé að fá ábendingar inn á ábendingavef Reykjavíkurborgar. Opna ábendingavef >>> Borgarlandið fyrir þínar ábendingar
Sandur og salt fyrir íbúa
„Borgarbúar hafa verið duglegir að sækja sér sand og salt á hverfastöðvarnar og verkbækistöðvar garðyrkjunnar,“ segir Guðjóna, sem leggur áherslu á þessa þjónustu.
Sand og salt geta íbúar sótt á hverfastöðvarnar við Njarðargötu, við Jafnasel, á Kjalarnesi og einnig á þjónustumiðstöðina á Stórhöfða. Hverfastöðvarnar eru opnar mánudaga til fimmtudaga frá kl. 7:30 – 17:00 og föstudaga kl. 7:30 – 15:25. Einnig má sækja sand á verkbækistöðvar garðyrkjunnar við Árbæjarblett og á Klambratúni við Flókagötu. Þær eru opnar mánudaga til miðvikudaga frá kl. 7:30 – 18:00 og fimmtudaga og föstudaga kl. 7:30 – 15:25.