Félagssýning Textílfélags Íslands er nú haldin á Korpúlfsstöðum en 38 textílkonur sýna verk sín þar sem nútíminn mætir þjóðlegum blæ í einum skemmtilegasta sýningarsal landsins sem hýsti í byrjun síðustu aldar stærsta mjólkurbú landsins. Þóra Björk Schram og María Valsdóttir, textílkonur og meðlimir í félaginu, tóku á móti blaðamanni Bændablaðsins og leiddu í gegnum salarkynnin.
Fjölbreytileikinn er mikill á sýningunni því þar er jafnt prjóna- og fatahönnun, veflistaverk, tauþrykk, þæfing, útsaumur, pappírsverk, ljósmyndaverk, ljósahönnun og margskonar óhefðbundin þráðlistaverk unnin í blandaðri tækni. Sýningin var sett upp á þremur stöðum á Listasumri á Akureyri síðastliðið sumar.
„Við textílkonur elskum allt sem heitir efni. Við erum alltaf að finna einhvern efnivið og þar kemur íslenskt roð og skinn sterkt inn. Það er auðvitað alltaf verið að vinna með íslensku efnin eins og ullina, enda leitum við mikið í íslenska náttúru til dæmis með jurtalituninni því mikið af því sem við gerum er náttúrutengt. Umhverfið skapar okkur. Ég er sem dæmi með gamaldags blúndur í ljósunum sem ég geri,” lýsir Þóra brosandi og María bætir við:
„Við erum ofsalega ólíkar en eigum það eitt sameiginlegt að það er mikill eldmóður í okkur. Textílfélagið var stofnað árið 1974 og núna eru um 80 meðlimir í því allsstaðar að af landinu og á öllum aldri en eingöngu konur. Félagið er hattur utan um ákveðna starfsemi eins og sýninguna núna og við leigjum af félaginu vinnurýmin okkar hér í húsinu. Þannig að hér er komin fín vinnuaðstaða og mikilvægt fyrir okkur að hafa sameiginlegan vettvang að koma á, enda er andinn hérna í húsinu alveg sérstakur og mikil saga tengd Korpúlfsstöðum.”