Vinnuhópur um framtíðarskipulag í Gufunesi ætlar að kynna svæðið og möguleika þess á Grafarvogsdeginum á laugardag. Fulltrúar hópsins verða í hinni nýju félagsmiðstöð í Spöng kl. 13 – 15. Áhugasamir gestir eru hvattir til að koma með óskir sínar og hugmyndir um nýtingu Geldinganessins, skipulag svæðisins og innviði.
Innan þess svæðis sem um ræðir falla Gufunesbærinn og lóð Áburðarverksmiðjunnar að Geldinganesi. Svæðið í heild er um 1,3 ferkílómetrar að stærð. Nokkur uppbygging hefur átt sér stað en ótal möguleikar eru til aukinnar eða breyttrar nýtingar í framtíðinni.
Tillaga um opna hugmyndasamkeppni
Inga Rut Gylfadóttir, landslagsarkitekt og verkefnisstjóri vinnuhópsins, segir að mikilvægt sé að fá gott heildarskipulag sem nýtist sem best fyrir sem flesta. Vinnuhópurinn hefur lagt til að framtíðarskipulag Gufuness fari í opna hugmyndasamkeppni meðal fagfólks. Inga Rut segir mikilvægt að undirbúa þá samkeppni vel og fá hugmyndir og skýrar forsendur frá sem flestum aðilum, hagsmunaaðilum, íbúum og öðrum áhugasömum svo skipulagið og framtíðarnotkun svæðisins verði sem best.
Samráð um tækifærin í Gufunesi
Borgarstjóri skipaði í byrjun mars hóp til að fjalla um tækifærin í Gufunesi , fjalla um framtíðarsýn þess og útivistarsvæðið í grennd við Gufunesbæ, nýtingarmöguleika á svæði gömlu öskuhauganna og svæði Áburðarverksmiðjunnar. Í hópnum eiga sæti fulltrúar allra flokka og formaður hans er Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs.
Helstu verkefni hópsins eru samkvæmt skipunarbréfi:
- að fara yfir fyrirliggjandi hugmyndir og eftir atvikum kalla eftir nýjum um notkun og/eða uppbyggingu í Gufunesi
- að setja fram framtíðarsýn fyrir svæðið í heild
- að meta kosti í uppbyggingu útivistarstarfsemi, s.s. ylstrandar, aðstöðu fyrir vatnasport eða golfvallar
- að kanna möguleika á hótelrekstri og annarri atvinnustarfsemi á svæðinu
- að leggja drög að uppbyggingu göngu- og hjólastíga
- að kanna kosti brúarsmíðar yfir í Viðey
- að skoða hugsanlega uppbyggingu á gömlu öskuhaugunum og hvað varúðarráðstafana þarf að grípa til á því svæði.
Í skipunarbréfinu er gert ráð fyrir nánu samstarfi við íbúasamtök Grafarvogs og Fjölni. Einnig er gert ráð fyrir samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili vinnu sinni fyrir 1. október 2014.