Stuðningur áhorfenda mikilvægur
Frjálsíþróttakeppni WOW Reykjavik International Games fer fram í Laugardalshöllinni í dag og hefst klukkan 13:00. Sextán mjög góðir erlendir gestir taka þátt í mótinu auk fremsta frjálsíþróttafólks landsins. Erlendu gestirnir eru allir betri eða af svipuðu getustigi og okkar besta fólk og því von á mjög spennandi keppni. Mótið er líklega sterkasta innanhúsmótið í frjálsum íþróttum frá upphafi sem haldið hefur verið hér á landi.
Ekki verður aðeins barist um sigur í hverri grein á mótinu því nokkrir keppenda eru að berjast við að ná lágmörkum fyrir Evrópumótið sem fram fer í Belgrad í mars. Stuðningur áhorfenda í keppni sem þessari getur skipt sköpum og því eru allir hvattir til að mæta í Laugardalshöll í dag til að hvetja frjálsíþróttafólkið okkar til dáða. Frjálsíþróttakeppnin verður klukkan 13-15 í Laugardalshöllinni og kostar 1500 krónur inn, frítt fyrir 12 ára og yngri.
Á meðal keppenda í 60 m hlaupinu er Skotinn Allan Hamilton sem sigraði á laugardaginn skoska meistaramótið á nýju meti, 6,74s. Það er líklegt að hann þurfi að taka á öllu sínu ef hann á að hafa Danann Festus Asante, sem er búinn að hlaupa á 6,81s í ár. Þá munu án vafa Daninn Kristofer Hari, sem á best 10,37s í 100m hlaupi (frá árinu 2013) og okkar Íslandsmethafi í 100m hlaupi, Ari Bragi Kárason, leggja allt undir í þessari jöfnu keppni. Ari Bragi á best 6,94s í 60m, nokkrum hundraðshlutum betra en tugþrautarstjarnan Tristan Freyr Jónsson sem á best 7 sekúndur sléttar.
Bestan tíma í 400 m hlaupi kvenna á Arna Stefanía Guðmundsdóttir úr FH, 53,91s. Arna Stefanía stefnir að því að tryggja sig inná EM sem fram fer í Belgrad í sumar og þarf að hlaupa undir 54 sekúndum á morgun til að komast þangað. Erlendu keppendurnir sem munu án efa heyja harða baráttu við hana koma frá Belgíu og Hollandi. Axelle Dauwen frá Belgíu keppti á Ólympíuleikunum í 400 m grindahlaupi í sumar og var keppinautur Örnu Stefaníu á EM síðasta sumar. Hennar besti tími er 54,20. Frá Hollandi kemur Femka Bol sem hljóp á 55,40 s um liðna helgi sem er besti tími allra þátttakenda á yfirstandandi innanhústímabili.
Aníta á besta tíma keppenda í 800 metra hlaupinu (2:00,14) en þar munar mjög litlu. Sanne Verstegen frá Hollandi mun án efa veita Anítu harða keppni en hún á best 2:00,47 sem og besti 800m hlaupari Norðmanna, Hedda Hynne, en hún á best 2:00,94. Í hlaupinu munu einnig keppa Anna Silvander Svíþjóð sem á best 2:02,53 og Ida Fillingsnes, Noregi, sem á best 2:04,66. Til þess að tryggja hratt og skemmtilegt hlaup mun Femke Bol frá Hollandi „héra“ í hlaupinu.
Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir keppir í kúluvarpi á mótinu í dag og ætlar að freista þess bæta Íslandsmetið í greininni. Hún stefnir á að kasta yfir 16 metrana og veit að kast yfir 16,3 m mun tryggja henni rétt til þátttöku á EM innanhúss í Serbíu í mars.
Hér má finna lista yfir allar keppnisgreinar í frjálsíþróttakeppni dagsins og upplýsingar um þátttakendur og þeirra besta árangur: http://urslitmota.fri.is/MotFRI/SelectedCompetitionEvents.aspx?Code=RIG2017
Meðfylgjandi myndir frá mótinu í fyrra er velkomið að nota með fréttum af keppninni, ljósmyndari er Sportmyndir.is.