Heimili og skóli – landssamtök foreldra taka undir áskorun Barnaheilla um gjaldfrjálsan grunnskóla á Ísland. Líkt og segir í áskoruninni eiga öll börn rétt á grunnmenntun án endurgjalds samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland hefur lögfest. Þar er jafnframt kveðið á um að ekki megi mismuna börnum sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra, svo sem vegna efnahags.
Talsverður kostnaður getur leynst í þessum innkaupalistum og ef skoðaðir eru t.a.m. innkaupalistar á netsíðum þá getur kostnaður þar verið á bilinu 2.500-7.500 kr. fyrir barn í 1. bekk. Þá er skólataska ekki meðtalin. Þegar fleiri en eitt barn eru í fjölskyldunni eykst kostnaðurinn. Sumir skólar eru með sameiginlegan sjóð sem notaður er til ritfangakaupa. Þá greiða foreldrar t.d. um 500-1000 kr. á ári og skólinn sér um innkaupin. Þetta fyrirkomulag hefur víða mælst vel fyrir. Þá má einnig velta fyrir sér kostnaði við skólamáltíðir og frístundaheimili sem eru líka rekin af sveitarfélögunum. Tíðkast hefur að námsmenn og einstæðir foreldrar fái afslátt af leikskólagjöldum og mætti hafa sama háttinn á með frístundaheimilin til að jafna aðgengi barna að þeim. Gjaldtaka fyrir slíkt starf getur þó verið hindrun fyrir marga foreldra og getur þar með stuðlað að mismunun í aðgengi barna að tómstunda- og félagsstarfi.
Kostnaður vegna námsgagna er þó ekki eini ófyrirséði kostnaðurinn sem mætir foreldrum á haustin. Ýmiss kostnaður fylgir skólaferðum eins og t.d. á Reyki og Laugar en sá kostnaður er nú að mestu í höndum foreldra. Það þýðir m.a. að börn með sérþarfir fá ekki þann stuðning sem þau þurfa til að geta nýtt sér þessar ferðir. Foreldrafélag á höfuðborgarsvæðinu tók saman þann kostnað sem fylgt getur þessum ferðum og var viðmiðunarkostnaður á bilinu 25-30.000 kr á barn.
Í lögum um grunnskóla frá 2008 (nr. 91, 31. gr) kemur fram að kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skuli veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja þá eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu. Þó kemur fram í lögunum að opinberum aðilum sé ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír, án þess að í raun sé skilgreint hvað persónuleg not þýðir. Við tökum undir þann skilning Barnaheilla að öll gögn sem nemandi þarf að nota til skólagöngu sinnar séu í raun hluti af námsgögnum en ekki svokölluð persónuleg gögn. Því ætti skólinn með réttu að útvega þau gögn sem nemandi þarf til að stunda nám sitt.
Við fögnum því frumkvæði Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og tökum undir áskorun þess efnis að 31. gr. grunnskólalaga verði breytt og skýrar reglur settar um að óheimilt sé að krefja foreldra um innkaup á gögnum, greiðslu fyrir gögn sem nota á vegna skólagöngu barnanna eða fyrir aðra starfsemi á vegum skóla. Á hinn bóginn geta foreldrafélög staðið fyrir söfnun eða styrkt starf skólans með einum eða öðrum hætti en það ætti þó að vera valkvætt. Einnig ætti að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir mismunun barna þegar kemur að félagsstarfi barna á vegum skólans, t.d. þegar farið er í skólaferðir.
Göngum í skólann –
Nú styttist í að verkefninu Göngum í skólann (www.iwalktoschool.org ) verði hleypt af stokkunum í níunda sinn hér á landi. Verkefnið verður sett miðvikudaginn 9. september og lýkur því formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 7. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.
Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskautar eða hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.
Á síðasta ári tóku milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Á sama tíma var nýtt þátttökumet slegið hér á landi en alls skráðu 66 skólar sig til leiks. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur hlotið styrk frá Evrópuráðinu í gegnum Erasmus+ styrkjakerfi þeirra til verkefna sem munu tengjast European Week of Sport eða Íþróttaviku Evrópu sem haldin verður 7. – 13. september nk. Í yfir 30 Evrópulöndum. Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Sjá nánar á www.ec.europa.eu/sport/week
Sett hefur verið upp ný heimasíða fyrir verkefnið og er slóðin sú sama www.gongumiskolann.is Á síðunni má áfram finna allar helstu upplýsingar um verkefnið og hugmyndir að framkvæmd.
Sú nýjung er á vefnum að nú skrá skólar sig til leiks undir flipanum „Skráning“. Einungis þarf að fylla inn nafn skóla, nafn tengiliðs og setja inn stutta lýsingu á hvað viðkomandi skóli ætlar að gera í tilefni af Göngum í skólann mánuðinum. Munið að smella á skrá.
Þeir skólar sem ætla að taka þátt þurfa að skrá sig á síðunni fyrir 4. september nk. en ekkert kostar að taka þátt. Ekki er lengur þörf á að senda tölvupóst til að skrá sig. Á nýju síðunni er hægt að senda inn myndir/myndbönd og skemmtilegar frásagnir undir flipanum „Sendu okkur“. Nafn þeirra skóla sem taka þátt birtist á síðunni undir flipanum „Skráðir skólar“. Líkt og undanfarin ár munu þeir skólar sem senda okkur myndir og frásögn hljóta glaðning í lok verkefnisins. Tvær handbækur geta nýst skólum við útfærslu á verkefninu. Þær eru Handbók um hreyfingu fyrir grunnskóla (sérstaklega kafli 3) sem Embætti landlæknis gefur út og Handbók í umferðarfræðslu sem Samgöngustofa gefur út. Hægt er að nálgast bækurnar rafrænt á síðunum www.umferd.is og www.landlaeknir.is. Á þessum heimasíðum má einnig finna annan fróðleik sem snýr að heilsueflingu og umferðarfræðslu en vefurinn www.umferd.is er samstarfsverkefni Menntamálastofnunar, Samgöngustofu og Grundaskóla á Akranesi.
Bestu kveðjur,
Björn Rúnar Egilsson
Verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT
[su_button url=“http://grafarvogsbuar.is/wp-content/uploads/2015/09/Kynningarbréf_nýr-vefur_tengiliðir.pdf“]Kynningarbréf…..[/su_button]