Séra Guðrún Karls Helgudóttir, þjónar fyrir altari. Ræðumanneskja dagsins er Erla Karlsdóttir, heimspekingur og guðfræðingu.
Kirkjukórinn syngur undir stjórn Hákonar Leifssonar, organista.
Tvö börn verða skírð í guðsþjónustunni.
Kirkjukaffi.
Miðnæturhlaup Suzuki fer fram í 24.sinn í kvöld fimmtudaginn 23.júní. Þó að skráningu sé ekki lokið er ljóst að fjölmennt verður í hlaupinu í kvöld því 2.480 hafa forskráð sig en það eru örlítið fleiri en forskráðu sig í fyrra.
Þegar er búið að slá tvö þátttökumet í hlaupinu. 627 eru skráðir í hálft maraþon og hafa aldrei verið fleiri. Þá eru erlendir gestir fjölmennari en nokkru sinni áður, 880 eru skráðir sem er 27% fleiri erlendir þátttakendur en skráðu sig í heildina í fyrra. Flestir erlendu þátttakendanna sem nú eru skráðir koma frá Bandaríkjunum eða 321. Þá eru skráðir Bretar 160, Kanadamenn 108 og Þjóðverjar 44.
Í dag verður hægt að skrá sig í Laugardalshöll frá kl.16 og þar til 45 mínútum fyrir ræsingu hverrar vegalengdar. Á sama stað sækja forskráðir þátttakendur hlaupnúmerið sitt og önnur skráningargögn.
Hlauparar verða ræstir af stað á Engjavegi í Laugardal á eftirfarandi tímum:
Kl. 21:20 – Hálfmaraþon ræst á Engjavegi ofan við bílastæði Skautahallarinnar.
Kl. 21:50 – 5 km hlaupið ræst fyrir framan Laugardalshöllina.
kl. 22:00 – 10 km hlaupið ræst fyrir framan Laugardalshöllina.
Þátttakendur koma í mark í trjágöngunum við gömlu þvottalaugarnar fyrir neðan Skautahöllina. Reikna má með að flestir hlauparar verði komnir í mark um miðnætti og munu eflaust flestir láta þreytuna líða úr sér í Laugardalslauginni en þangað er öllum þátttakendum boðið að hlaupi loknu.
Í Miðnæturhlaupi Suzuki er að mestu hlaupið á stígum en þó að hluta til á götum. Sjá kort hér. Vegna hlaupsins verður truflun á umferð auk þess sem loka þarf nokkrum götum í stutta stund meðan hlauparar fara hjá. Hér á heimasíðu hlaupsins má nálgast nánari upplýsingar um hvenær götur eru lokaðar og búast má við truflun á umferð. Ökumenn sem eiga leið hjá eru góðfúslega beðnir að taka tillit til hlaupara og starfsmanna hlaupsins.
Þátttakendur geta valið milli þriggja vegalengda: hálfmaraþons (21,1 km), 10 km og 5 km. Allar hlaupaleiðir í Miðnæturhlaupi Suzuki eru löglega mældar samkvæmt reglum AIMS sem eru alþjóðleg samtök hlaupa. Því er allur árangur og met sem slegin eru í hlaupinu viðurkennd af Frjálsíþróttasambandi Íslands.
Heimasíða Miðnæturhlaups Suzuki með öllum helstu upplýsingum er http://marathon.is/midnaeturhlaup
Nánari upplýsingar veita
Svava Oddný Ásgeirsdóttir, hlaupstjóri, s. 898 9614
Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi, s. 868 6361
Kveðja
f.h. Reykjavíkurmaraþons
Anna Lilja Sigurðardóttir
annalilja@ibr.is
s. 868 6361
Ísland leikur seinasta leik sinn í riðlakeppni EM í Frakklandi í dag en það eru Austurríkismenn sem eru mótherjar Íslands í leiknum.
Það er ljóst að sigur í leiknum fleytir íslenska liðinu áfram í 16-liða úrslit en eitt stig gæti einnig gert það eins lengi og úrslit í öðrum riðlum eru okkur hagstæð.
Allir leikmenn eru til í slaginn fyrir utan Alfreð Finnbogason en hann er í leikbanni eftir að fá tvö gul spjöld.
Leikurinn hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma (18:00 að frönskum tíma) og er leikið á Stade de France í París.
Fjölmörg fyrirtæki á Íslandi taka þátt í fjörinu og gefa starfsfólki tækifæri á að horfa á leikinn, mörg hver loka fyrr og önnur eru með leikinn á skjá hjá sér.
Áfram Ísland
Samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg verða malbikunarframkvæmdir við Kringluna þriðjudaginn 21.júní með tilheyrandi lokunum gatna.
Hér er orðrétt tilkynning frá borginni. EF VEÐUR LEYFIR mun Malbikunarstöðin Höfði hf. vinna við malbikun á Kringlunni, frá Listabraut að Kringlu nr. 41.
Byrjað verður um klukkan 9 eða þegar veður leyfir og unnið fram eftir degi.
Götukaflinn verður lokaður fyrir alla umferð á meðan framkvæmdum stendur.
Meðfylgjandi er teikning af áætlaðri lokun á þessum kafla. Smelltu hér til að skoða teikninguna.
Með fyrirfram þökkum fyrir skilninginn Zophanías Þ. Sigurðarsson Tæknistjóri Rekstrarfélags Kringlunnar.
Í kvöld, mánudaginn 20. júní, verður farið í sólstöðugöngu í Viðey þá sjöttu í röð, en slíkar göngur hafa tíðkast í Reykjavík frá árinu 1985. Gengið verður um fallegar slóðir á vesturhluta Viðeyjar og staldrað við á nokkrum stöðum til þess að hlýða á erindi leiðsögumanna kvöldsins. Þór Jakobsson veðurfræðingur mun segja frá sólstöðum, sólstöðumínútunni, hátíðum og hefðum í tengslum við sólstöður. Sævar Helgi Bragason formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness verður með áhugavert erindi í fjöruborðinu í Viðey.
Venju samkvæmt verður slegið upp varðeldi og sungið saman undir harmónikkuspili. Gönguleiðin er hæfileg en mælt er með góðum skóm, skjólgóðum jakka og smá nesti.
Siglt verður frá Skarfabakka kl. 20:30 og siglt til baka kl. 23:00. Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.200 kr. fyrir fullorðna, 1000 kr. fyrir eldri borgara og 600 kr. fyrir börn 7–15 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.
Minnt er á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins sigla frítt.
Fjölnismenn eru komnir í toppsætið í Pepsídeild karla í knattspyrnu eftir frábæran sigur á KR, 3-1, á Extravellinum í kvöld. Fjölnir verður í efsta sætinu að minnsta kosti í einn sólarhring en FH á leik inni gegn Val á morgun og getur með sigri skotist í efsta sætið að nýju.
KR-ingar byrjuðu betur í leiknum í Grafarvogi í kvöld þegar Michael Præst kom vesturbæjarliðinu yfir. Mínútu fyrir lok fyrri hálfleiks jafnaði Martin Lund Pedersen fyrir Fjölni.
Fjölnismenn voru hættulegri eftir sem á síðari hálfleikinn leið og komust yfir á 53. mínútu með marki frá Gunnari Má Guðmundssyni. Það var síðan Marcus Solberg sem innsiglaði sigur Fjölnis með glæsilegu skallamarki á 72. mínútu.
Byrjun Fjölnismanna er frábær í deildinni og virðist liðið hafa alla burði til að vera í toppbaráttunni í sumar.
Sjá fleiri myndir hérna….
Einstaklingskeppni WOW Cyclothon hófst klukkan 17 í gær, þegar sjö hjólreiðamenn lögðu af stað í hring um landið frá Egilshöll.
Þá lögðu fimmtán lið frá samtökunum Hjólakrafti af stað klukkan 18. Í liðum Hjólakrafts eru hátt í 100 börn ásamt foreldrum og fylgdarmönnum en nær allir hjálpast að við að hjóla kílómetrana 1.358.
Í dag miðvikudag munu aðrir keppendur í WOW Cyclothon leggja af stað. A-flokkur, með fjórum hjólreiðamönnum og tveimur aðstoðarmönnum, kl. 17.00 og B-flokkur, með 10 liðsmönnum, kl. 18.00.
Hægt er að skoða myndir frá Egilshöll hérna…. og verður bætt við myndum eftir startið í kvöld.
Óskum öllum góðs gengis.