UPPLÝSINGAR UM DAGGÆSLU Í HEIMAHÚSUM

Birna Róbertsdóttir er daggæsluráðgjafi Miðgarðs. Hún metur umsóknir um leyfi til daggæslu og sér um ráðgjöf og stuðning við dagforeldra í Grafarvogi og á Kjalarnesi. Birna veitir foreldrum ráðgjöf og upplýsingar um þá dagforeldra sem hafa laust pláss. Kominn er út nýr bæklingur um daggæslu í heimahúsum.  Hér er hægt að nálgast bæklinginn (PDF 197KB).

Skilyrði til leyfisveitinga

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar veitir leyfi til daggæslu í heimahúsi skv. reglugerð frá árinu 2005 og sjá daggæsluráðgjafar um útfærslu þess.

Skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla eru m.a. eftirfarandi:

 • Umsækjandi skal vera orðinn 20 ára
 • Umsækjandi skal hafa lokið grunnámskeiði sem haldið er í samvinnu við Námsflokka Reykjavíkur eða hafa aðra menntun á sviði uppeldis-, kennslu- og/eða félagsfræða
 • Skila skal læknisvottorði fyrir umsækjanda og fjölskyldu hans
 • Skila skal sakavottorði fyrir umsækjanda og fjölskyldumeðlimi eldri en 18 ára
 • Skylt er að virða lög um tóbaksvarnir og eru því reykingar óheimilar á meðan á dvöl barna stendur
 • Leikrými fyrir hvert barn innanhúss skal vera a.m.k. 3,5 fm
 • Útivistaraðstaða skal vera fullnægjandi og hættulaus
 • Skila þarf vottorði frá Eldvarnareftirliti
 • Skila þarf umsögn síðasta vinnuveitanda

Veitt er leyfi til gæslu allt að fjögurra barna samtímis að meðtöldum þeim börnum sem fyrir eru á heimilinu yngri en 6 ára.

Eftir eins árs samfelldan starfstíma er heimilt að veita leyfi fyrir einu barni til viðbótar, enda hafi dagforeldri sýnt af sér hæfni til starfsins og veitt börnum góðan aðbúnað í hvívetna.

Að jafnaði skulu ekki vera fleiri en tvö börn undir eins árs aldri.

Framlag

Skv. ákvörðun borgarstjórnar um aukið framlag eru daggjöld vegna barna sem eru í daggæslu í heimahúsum og eiga lögheimili í Reykjavík háð eftirfarandi skilyrðum:

 • Að dagforeldri hafi leyfi yfirvalda til daggæslu á heimili sínu
 • Að barnið sé á aldrinum 6/9 mánaða til 6 ára
 • Að kvittun frá viðkomandi dagforeldri og undirskrifuð af foreldri á þar til gerðu eyðublaði um aukið framlag berist til Miðgarðs
 • Að dagforeldrar skili mánaðaryfirliti fyrir 15. hvers mánaðar

Niðurgreiðslur eru 11 mánuði ársins, þ.e. 12. mánuðurinn er sumarfrí barnsins.

Að velja dagforeldri
Á skrifstofu Miðgarðs er hægt að nálgast lista yfir nöfn, heimilisföng og símanúmer hjá dagforeldrum sem hafa starfsleyfi. Þegar verið er að velja dagforeldri er ráðlagt að foreldrar kynni sér vel þjónustuna sem í boði er hjá dagforeldri og allar aðstæður á heimilinu sem nýttar eru til starfsins, t.d. leikaðstöðu bæði inni og úti, hvíldaraðstöðu og leikfangakost.

Mælt er með því að foreldrar kynni sér starfsemi og aðstæður hjá fleiri en einu dagforeldri og velji síðan þá sem þeim líst best á. Ráðlagt er að gera skriflegan samning milli foreldra og dagforeldris um dvalartíma barns og gjald fyrir dvölina. Ákvörðun um vistun barns hjá dagforeldri er ætíð á ábyrgð foreldra.

Hlutverk dagforeldris
Dagforeldri skal kaupa slysatryggingu vegna barnanna sem hjá henni dvelja. Dagforeldrar bera ábyrgð á andlegri og líkamlegri velferð barnanna þann tíma sem þau dvelja hjá þeim, hafa samvinnu og veita foreldrum upplýsingar um daglega líðan barnanna. Þeir sjá til þess að börnin fái notið skipulagðra og frjálsra leikja með góðum leikfangakosti.

Samkvæmt ákvæði reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum ber dagforeldrum, eins og öðrum starfshópum sem hafa afskipti af börnum, skylda til að tilkynna barnaverndaryfirvöldum verði þeir þess áskynja að atlæti eða aðbúnaði barns sé ábótavant.

Umsjón og eftirlit
Eftirlit daggæsluráðgjafa er m.a. fólgið í heimsóknum á heimili dagforeldra, einu sinni til tvisvar á ári. Eftirllitsaðili fer síðan í óboðarar heimsóknir fjórum sinnum á ári og fylgist með að öll öryggisatriði séu í lagi. Á reynslutímanum eru heimsóknir fleiri og einnig ef upp koma einhverjar athugasemdir eða kvartanir frá foreldrum vegna þjónustu dagforeldris. Ráðgjöf daggæsluráðgjafa felst annars vegar í skipulegri fræðslu og ráðgjöf við dagforeldra og hins vegar leiðbeiningum og upplýsingum til foreldra.

Athygli er vakin á því að þrátt fyrir eftirlit af hálfu daggæsluráðgjafa Miðgarðs hafa foreldrar yfirleitt bestu aðstöðu til að fylgjast með starfsemi dagforeldra þar sem þeir eru í daglegu sambandi við þá. Ef upp kemur óánægja hjá foreldrum með umönnun eða aðbúnað barns eru þeir hvattir til að ræða málið við dagforeldrið. Ef það ber ekki árangur er hægt að hafa samband við daggæsluráðgjafa á skrifstofu og leita eftir ráðgjöf eða leggja fram kvörtun.