Kirkjubyggingin

Kirkjubyggingin

Í samkeppni um hönnun Grafarvogskirkju lögðu arkitektarnir Finnur Björgvinsson og Hilmar Þór Björnsson áherslu á hugmynd um klassíska þrískipa kirkju sem byggir á öllum helstu hefðum kirkjubygginga liðinna tíma.

KirkjaLitilMyndGrafarvogskirkja er mikilvæg bygging og þungamiðja Grafarvogshverfis og eitt af kennileitum þess. Húsið hefur sterka ímynd í nálægð og fjarlægð. Kirkjan er áberandi séð frá Vesturlandsvegi og Gullinbrú og er svipmikil þegar komið er að henni. Þó húsið sé lítið að grunnfleti er það áberandi í byggðinni vegna forms og efnisvals, þar sem falla saman þungt og dökkt form miðskipsins og ljósir og léttir fletir hliðarskipanna.Þessar andstæður, þungur og léttur minna á andann og efnið.

Uppbygging

Grafarvogskirkja er þrískipt, – miðskipið er „Via Sacra,“ hinn heilagi vegur sem táknar um vegferð mannsins frá vöggu til grafar og áfram til eilífðar. Við enda hins heilaga vegar er hringurinn sem er söfnuðurinn. Hringurinn er opinn á móti eilífðinni þar sem er altarið; borð Drottins. Þarna sameinast tveir helstu pólar í kirkjuarkitektúr; vegurinn og hringurinn. Eins og í dómkirkjum miðalda tengjast miðskipinu ótal rými og kapellur sem þjóna þörfum líðandi stundar.

Miðskipið er steinsteypt og klætt steinum. Steinarnir í veggjum miðskipsins er skírskotun til ritningarinnar þar sem segir „… látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús.“ Steinarnir tákna þar mannlífið sem er „… musteri Guðs.“ Þannig eru steinarnir tákn safnaðarins.

Þegar inn í kirkjuna er komið blasir við enda miðskipsins stór steindur gluggi, „Kristnitakan“ eftir Leif Breiðfjörð sem er um 6 metrar á breidd og 12 metrar á hæð. Veggir og gólf eru klædd steinflísum af sömu gerð og notaðar eru utaná byggingunni. Í loftinu eru hvítar málmplötur sem stjórna ómtíma hljóðsins í kirkjunni. Ofan við málmplöturnar er lýsing sem er ofurlítið óregluleg og fer vaxandi þar til komið er að altarinu þar sem hún er í hámarki í hæð og ljósmagni. Þetta er skírskotun til himinsins. Ómtíminn lengist eftir því sem nær dregur altari. Forkirkjan og miðskipið „Via Sacra“ er lífæð hússins þar sem hátíðlegt yfirbragð eykst eftir því sem innar dregur.

Skírnarfontar og táknmyndir

210888499_eefda3449e_mÍ Grafarvogskirkju er tekinn upp sá siður, sem algengastur var til forna, að staðsetja skírnarfont á leið barnsins til samfélags kristinna manna. Fyrir miðju „Via Sacra,“ gengt kapellu er skírnarfontur staðsettur. Rúmt er um hann og aðstandendur þess sem á að skíra safnast þar saman við athöfnina. Að henni lokinni er haldið með barnið að altarinu í söfnuð kristinna manna.

Ef horft er á grunnmynd kirkjunnar sést að hún líkist fiski, en fiskur er elsta tákn kristinna manna. Fiskur er á grísku „ichþys.“ Þegar kristnir menn sáu stafina skildu þeir að þarna var skammstöfun fyrir orðin: Jesú Kristur, Guðs sonur, frelsari. Við þetta varð fiskurinn leynilegt felumerki.

Kirkjan er þrískipa, en skipið er eitt af táknum kirkjunnar þar sem sagt er að „kirkjan sé skip sem siglir yfir heiminn. Drottinn er við stýrið og hinir kristnu áhöfnin og hreyfiaflið er heilagur andi. Fyrir afli hans siglir skipið í höfn Paradísar og lífsins eilífa. Guðs orð er áttavitinn …“

Af grunnmynd kirkjunnar má lesa nokkrar helstu tölur sem skipað hafa stóran sess í trúarlegu táknmáli. Fyrst er að telja miðskipið sem er eitt. Talan einn er móðir allra talna; Guð er einn og einn er tala upphafsins. Hliðarskipin eru tvö; lögmál og fagnaðarerindi, Gamla- og nýja testamenti. Skip kirkjunnar eru þrjú; heilög þrenning. Upprisa Jesú var á þriðja degi. Hliðarskipunum er skipt í fjóra hluta; tölu heimsins, höfuðáttirnar og guðspjallamennirnir fjórir. Af allri grunnmyndinni má síðan sjá form fisksins sem er elsta tákn kristinna manna.

Myndmál altarisgluggans

Leifur Breiðfjörð glerlistamaður var spurður að því, hver kveikjan hefði verið að þessu mikla listaverki, altarisglugga Grafarvogskirkju, sem jafnframt gegnir hlutverki altaristöflu

„Það var komið að máli við mig fyrir um tveimur árum og ég beðinn að gera fyrstu hugmynd að slíku verki. Þá fór ég upp í kirkju og skoðaði hana í bak og fyrir og sá þá, að hún er byggð upp á svokölluðu basilikuformi, sem er ævafornt og Rómverjar notuðu fyrr á tímum til þess að byggja kirkjur sínar. Eftir að ég hafði skoðað gömlu rímversku basilikurnar nánar, varð niðurstaðan sú, að ég ákvað að byggja listaverkið upp í þeim sama anda, þ.e.a.s. á hinum gamla grunni, en leitast samt við að hafa það nútímalegt.
GlugginnÉg hef alltaf lagt áherslu á, að verkein sem ég er að vinna séu í miklum tengslum við arkitektúrinn. Og þetta verk er engin undantekning; það er hugsað jafnt sem hluti af arkitektúrsheild Grafarvogskirkju en er þó sjálfstætt listaverk.“

Kirkjan virðist hærri

„Verkið er samhverft í meginatriðum, en helsta einkenni þess er gríðarstór sigurbogi. Form hans gerir það að verkum, að kirkjan virðist hærri en hún er. Steindi glugginn er staðsettur um 70 cm fyrir innan ytra gler kirkjunnar og á pósta ytra glersins eru festir flúrlampar, sem lýsa verkið upp aftanfrá og gera það sýnilegt að innan, þegar dimmt er úti. Einni er verkið lýst upp að innanverðu með ljóskösturum sem gerir það sýnilegt utanfrá. Glerið sem ég nota, er ógegnsætt antikgler, eða það sem kallað er „opaque.“ Það gerir það að verkum, að ekki sést í pósta ytra glersins og flúrpípurnar.“

En hvað með uppbyggingu verksins að öðru leyti? Hvert sótti listamaðurinn myndefni sitt?

„Jú, hugmyndin að því var ekki lengi að fæðast. Ég ákvað strax að sameina tvennt, annars vegar Krist í ásæti og hins vegar kristnitökuna á Þingvöllum árið 1000, ekki síst vegna þess, að verkið er gjöf íslensku ríkisstjórnarinnar til æsku landsins í tilefni kristnitökunnar.“

Sigurboginn himneski

„Verkið er tvískipt; annars vegar er myndræn uppbygging, þar sem tengsl þess við arkitektúr kirkjunnar skipta meginmáli, ásamt samsetningu lita, lína og forma, og hins vegar er svo myndefnið sjálft. Þessi tvö atriði héldust í hendur allt frá fyrsta degi. Ég gerði frumdrögin 11. mars 1998, og það eru minnstu drög sem ég hef gert að nokkru verki, ekki nema 6 cm á hæð og 3 cm á breidd. Þau voru samþykkt og hafa ekkert breyst í grunnatriðum. Síðan gerði ég margar frumteikningar, í hlutföllum 1:10 og síðan 1:15, og að lokum gerði ég vinnuteikningar í fullri stærð, 1:1 í litum. Bogaformið sem er mjög áberandi í rómverskum basilikunum, er nauðsynlegt í þessum glugga, ekki síst þar sem kirkjan er að öðru leyti köntuð.
Neðst í glugganum má sjá veggi Almannagjár og þar í forgrunni er fólk í glitklæðum. Gjáveggurinn er settur mosadyngjum hér og þar, og myndar dökkan bakgrunn fyrir presta og aðra þá, sem standa við altarið; þetta er gert til að forðast of skært bakljós. Fyrir ofan klettavegginn birtist Kristur svo í hásæ ti með fjórum kerúbum, ásamt engli með básúnu. Umhverfis Krist er mandöluform. Og sigurboginn sem ég nefndi áðan, er enginn venjulegur sigurbogi, hann er ekki massífur, ég læt bláan lit himinsins leysa hann upp að hluta og gera hann þannig himneskan. Með því er ég að vitna til sigurs Krists á Þingvöllum.“