- HEIM
- FRÉTTIR
- MYNDIR
- HVERFIÐ OKKAR
- AÐSENT EFNI
- ÍÞRÓTTIR
- UM OKKUR
Fjölnir mætir Stjörnunni í 19. umferð Pepsi-deildar karla og fer leikurinn fram á Extra vellinum í Dahlhúsum
Allir á völlinn og styðjum okkar menn!
KOMA SVO!
Prjónamessa í Grafarvogskirkju
Í Grafarvogskirkju er starfræktur öflugur prjónaklúbbur. Sunnudaginn 2. september klukkan 11:00 verður prjónamessa í kirkjunni, en það er kaffihúsaguðsþjónusta með prjónaívafi. Prjónarar eru sérstaklega hvattir til að mæta með prjónana eða aðra handavinnu og í boði verður kaffi og meðlæti á meðan á messu stendur. Prjónaklúbbskonur sjá um ritningarlestra og bænagjörð og sýna handverkið sitt. Lítið barn verður borið til skírnar.
Sunnudagaskólinn hefst á ný eftir sumarfrí og er klukkan 11:00 á neðri hæð kirkjunnar. Umsjón hafa Pétur Ragnhildarson og séra Guðrún Karls Helgudóttir. Undirleikari er Stefán Birkisson. Söngur, sögur og límmiðar.
Fyrsta Selmessa sumarsins hefst á sunnudaginn klukkan 13:00. Séra Guðrún Karls Helgudóttir þjónar, Hilmar Örn Agnarsson er organisti og Vox Populi leiðir song.
Nú styttist í að ný, spennandi viðbótar vaðlaug fyrir þau allra yngstu verði byggð við Grafarvogslaug eins og við Grafarvogsbúar kusum í kosningunum Betra hverfi 2017 og er ein sú vinsælasta hugmynd sem hefur verið kosin í Reykjavík. Nú eru þessar fínu teikningar á lokametrunum og mega hönnuðir fá mikið hrós fyrir hversu góða útkomu stefnir í en framkvæmdir ættu að byrja á næstu mánuðum og á að ljúka á líðandi ári eða sem næst því. Vaðlaugin stefnir í 35 fm stærð en núverandi vaðlaug/trúðapottur er 30 fm. Nýja vaðlaugin verður staðsett milli litlu útilaugar og göngustíga í stóru útilaugar og gert er þar ráð fyrir smábarna rennibraut og fleiri skemmtilegum leiktækjum fyrir 0-6 ára.
Sem tillöguhöfundur og mikil baráttumaður á bak við þessa tillögu hef ég verið í góðu samstarfi við starfmenn borgarinnar til að útfærslan verði í þá átt sem hugmyndin snýr að. Það er þó eitt lokaatriði sem mig langar til að leita til ykkar með, þar sem við vorum mörg styðjandi á bak við þessa hugmynd, finnst ykkur að barnarennibrautin sem á að tilheyra vaðlauginni eigi að vera ofan í henni eða fyrir utan?
(Ef barnarennibrautin er ofan í vaðlauginni getur barnið rennt sér án þess að fara úr vaðlauginn svipað og í Lágafellslaug/Mosfellsbæ, ef barnarennibrautin er ekki ofan í vaðlauginni þarf barnið að fara úr vaðlauginni og renna sér svo ofan í vaðlaugina)
Garpaæfingar og skriðsundsnámskeið fullorðna eru að hefjast í þessari viku. Já það er komið að því að standa upp úr sófanum og læra að synda skriðsund eða bæta gamla sundstílinn í skemmtilegum félagsskap í Grafarvogslaug.
Egló Ósk Gústafsdóttir verður þjálfari á skriðsundsnámskeiðunum og einnig mun hún þjálfa Garpasundið. Eygló Ósk er tvöfaldur Olympíufari, margfaldur Íslandsmeistari, Íslands- og norðurlandamethafi, hún var kjörin íþróttamaður ársins 2015.
Hlökkum til að sjá ykkur, kveðja stjórn sunddeildar Fjölnis.
Komið þið sæl.
Við fórum af stað með tilraunaverkefni síðastliðinn vetur, fylgd í Strætó frá frístundarheimilum í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal fyrir 1. og 2. bekk sem voru á æfingum klukkan 14:30 – 15:30 mánudaga – fimmtudaga í Egilshöll og aftur til baka í fristundina að loknum æfingum.
Fylgdin var bara í boði fyrir fimleika fyrir þennan aldur í fyrra. Verkefnið gekk mjög vel og ætlum við að halda áfaram með fylgdina í vetur og bjóða upp á fleiri íþróttagreinar á þessum tíma.
Fylgdin byrjar fyrir fimleika, handbolta og körfubolta mánudaginn 3. september, fótboltinn bætist svo við í október þegar ný önn hefst hjá þeim.
Foreldrar munið að skrá fylgdina hjá frístundaheimili barnsins,
Mjög mikilvægt er að krakkarnir séu með Strætómiða báðarleiðir eða Strætókort.
Starfsmenn fylgja krökkunum frá frístundarheimili í Egilhshöllina og til baka í frístundarheimili. Ath. að börn í Foldaskóla, Húsaskóla, Kelduskóla Vík, Sæmundarskóla og Dalskóla ganga sjálf út á stoppustöð og frá stoppustöð í frísundarheimilið en það verðu fylgdarmaður í vagninum sem tekur á móti þeim og fylgir inn í Egilshöll og svo aftur í vagninn og minnir á að fara út á réttum stað. Ef frístundarheimilin hafa tök á því að senda starfsmann með krökkunum út á stoppustöð munu þeir gera það (fer eftir fjölda iðkenda sem eru að fara frá hverjum stað fyrir sig og mönnun frístundarhemilisins).
Hérna eru svo fekari upplýsingar um tímasetningar, Strætóleiðir og verð.
Málfríður Sigurhansdóttir
Íþrótta- og félagsmálastjóri
Ungmennafélagsins Fjölnis
Börn á leið í skóla
Það er farið að hausta og nú streyma skólabörn í grunnskólana sem flestir hófu nýtt skólaár í síðustu viku.
Heimili og skóli hefur verið aðili að verkefninu Göngum í skólann mörg undanfarin ár en markmiðið með því er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta til og frá skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Verkefninu verður hleypt af stað í tólfta sinn miðvikudaginn 5. september næstkomandi og lýkur svo formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 10. október.
Allir skólar landsins fá sent veggspjald verkefnisins Göngum í skólann og geta verið með. Þeir skólar sem vilja taka þátt í verkefninu þurfa að skrá sig á www.gongumiskolann.is
Skólar eru hvattir til að vera með í þessu skemmtilega verkefni og það geta allir verið með hvort sem þeir eru staðsettir í þéttbýli eða dreifbýli. Oftar en ekki þarf bara svolítið ímyndunarafl þar sem skipulag sumra skólahverfa getur gert gönguferðir erfiðar og sumir nemendur þurfa að fara langa leið til að komast í skólann. Ef nemendur eiga erfitt með að komast gangandi til skóla geta þeir samt tekið þátt í verkefninu á einn eða annan hátt t. d. með því að fara í gönguferð saman áður en kennsla hefst að morgni eða með því að nota hádegi eða löngu frímínútur til þess.
Sunnudaginn 26. ágúst verður guðsþjónusta í Grafarvogskirkju kl. 11:00. Séra Grétar Halldór Gunnarsson þjónar og barn verður borið til skírnar. Organisti er Hákon Leifsson og félagar úr Kór Grafarvogskirkju leiða söng.
Skólatöskur í lit
Innritun barna í grunnskóla Reykjkavíkur fer fram í gegnum www.rafraen.reykjavik.is. Í febrúar hóst innritun fyrir börn í Reykjavík sem eru að fara í 1. bekk grunnskóla og á frístundaheimili, haustið 2018.
Þegar barn fer úr leikskóla í grunnskóla er augljósasta breytingin sú að námið er lögbundið en nám í leikskóla er valkvætt. Foreldrum er því skylt að sjá til þess að barn þeirra sæki grunnskóla. Foreldrar geta svo valið hvort þeir skrá börn sín á frístundaheimili að hefðbundnum skóladegi loknum.
Hægt er að hafa samband við grunnskóla, frístundamiðstöðina í hverfinu eða Þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411-1111 til að fá leiðbeiningar við að skrá börnin. Áður en sótt er um dvöl á frístundaheimili þurfa börn að vera skráð rafrænt í viðkomandi grunnskóla. Umsókn um frístundaheimili gildir fyrir eitt skólaár í senn.
Skv. lögum um leik- og grunnskóla ber þeim að vera í samstarfi sem stuðlar að samfellu í uppeldi og menntun barna en samstarfið getur verið breytilegt eftir hverfum og skólum. Upplýsingar um börnin fylgja þeim á milli skólastiga svo unnt sé að mæta sérhverju þeirra þar sem það er statt í þroska og námi. Foreldrar skulu upplýstir um hvaða upplýsingum er miðlað á milli skóla en það er lagaleg skylda leikskólastjóra og annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins að koma þeim til skila.
Frístundaheimili eru starfrækt við alla grunnskóla Reykjavíkurborgar. Þau bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf þegar skóladegi barna í 1. – 4. bekk lýkur til kl. 17:00. Fast mánaðargjald árið 2018 er 17.285 kr. á mánuði fyrir 5 daga vistun með síðdegishressingu. Sjá nánar gjaldskrá frístundaheimila. Ekki er hægt að tryggja öllum börnum dvöl á frístundaheimili fyrr en tekist hefur að manna stöður frístundaleiðbeinenda/ráðgjafa. Umsóknir eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast en börn sem eru að hefja skólagöngu hafa forgang að dvöl á frístundaheimilum. Sjá nánar reglur um þjónustu frístundaheimila.
Sótt er um fyrir skólaárið 2018-2019 á Rafrænni Reykjavík.
Börn í Klettaskóla sækja frístundaheimilið Guluhlíð eða félagsmiðstöðina Öskju. Veljið umsókn um frístundastarf fyrir fötluð börn og unglinga.
Upplýsingar um annað frístundastarf er að finna á vefnum www.fristund.is. Þar er jafnframt að finna upplýsingar um frístundakortið sem foreldrar geta notað upp í greiðslu fyrir frístundastarf 6-18 ára barna, hvort sem það er frístundaheimili eða greiðsla á þátttöku- og æfingagjöldum.
Ef börn innritast í sjálfstætt starfandi skóla, sérskóla eða fara erlendis er óskað eftir að upplýsingar um það verði sendar á netfangið sfs@reykjavik.is. Sama á við ef börn fara í almennan grunnskóla utan Reykjavíkur.
Flestir, ef ekki allir skólar, bjóða foreldrum til kynningarfundar eða námskeiðs við upphaf grunnskólagöngunnar þar sem þeir eru upplýstir um starfið fram undan. Þannig eru foreldrar betur í stakk búnir til að tileikna sér hlutverk skólaforeldra. Yfirleitt er boðið til sérstaks fundar með kennara, nemanda og foreldrum hans þar sem fjallað er um skólagönguna fram undan og stöðu nemandans.
Þegar barn byrjar í grunnskóla þurfa foreldrar að gera ráð fyrir að það krefjist tíma þeirra og athygli. Það skiptir miklu máli að þeir kynnist daglegu starfi barnsins í skólanum. En fyrst og fremst ættu foreldrar grunnskólabarna að sýna starfi barna sinna áhuga og virðingu með því spyrja þau, hlusta og ræða á jákvæðum nótum um skólann og námið. Með viðhorfum sínum senda foreldrar börnum sínum skilaboð um hvað felist í því að vera góður nemandi.
Menningarnótt 2018 verður haldin 18. ágúst næstkomandi, sem er afmælisdagur Reykjavíkurborgar.
Það verður mikið um dýrðir að venju, leikarar, dansarar og fjöllistafólk verða með uppákomur og íbúar bjóða víða uppá dagskrá í húsagörðum og sundum. Landsbankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi.
Setning Menningarnætur í ár fer fram á hinu nýja Hafnartorgi. Boðið verður upp á lifandi tónlist og gefst gestum og gangandi kostur á að kynna sér svæðið í kringum Hafnartorg og skoða sýningu af svæðinu. Þetta er einstakt tækifæri þar sem svæðinu verður lokað aftur og opnar ekki fyrr en framkvæmdum lýkur.
Meðal atriða á Menningarnótt má nefna Toppinn sem er í umsjón Listræna Umbreytisins sem er nýtt embætt Menningarnætur. Listræni Umbreytirinn að þessu sinni er Jóhann Kristófer Stefánsson, leikari. Hann mun breyta efstu hæð bílastæðahússins við Hverfisgötu 20 í “lounge rooftop bar”. Í stað bíla verður fólk, í stað ryks verða plöntur, og í stað umferðarniðs verður dönnuð house tónlist.
Lúðrasveitir munu útkljá áratugalangan ríg í battli við Tjörnina og verður barist til síðasta tóns. Þá verða Færeyingar sérlegir gestir Menningarnætur og bjóða upp á fjölbreytta dagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur, færeyska hönnun, færeyskar ljósmyndir af Færeyjum og færeyskir tónlistarmenn taka lagið.
Í miðborginni verður boðið uppá þrenna stórtónleika, Tónleika Rásar 2 á Arnarhóli, Garðpartý Bylgjunnar í Hljómskálagarðinum og Hip hop tónleikar á Ingólfstorgi. Þá eru yfir hundrað tónlistarviðburðir um alla borg. Frítt er inná öll söfn í miðborginni sem bjóða uppá fjölbreytta dagskrá fram á kvöld. Þá verður Harpa með afar glæsilega dagskrá frá kl. 13-18. Flugeldasýningin verður á sínum stað á Austurbakka kl. 23.
Á Menningarnótt er sérstök áhersla lögð á að fjölskyldan njóti samveru, komi saman í bæinn og fari heim saman.
Hægt er að nálgast alla viðburði á Menningarnótt á vefnum menningarnott.is.
GÖTULOKANIR
Á Menningarnótt er miðborgin ein allsherjar göngugata og verður því lokuð fyrir bílaumferð frá kl. 7 að morgni til 2 eftir miðnætti. Það er gert til þess að tryggja öryggi gangandi og akandi vegfaranda á þessum fjölsóttasta hátíðardegi ársins. Gestir Menningarnætur eru hvattir til að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur til að komast á hátíðasvæðið. Þeir sem þurfa að koma á einkabíl er bent á að nota bílastæði við Borgartún og í Laugardalnum þar sem ókeypis strætóskutlur aka fólki til og frá hátíðarsvæðinu frá kl. 7.30-1.00. Eins og lög gera ráð fyrir verður sektað fyrir ólöglegar bílastöður og þeir bílar sem hindra aðgengi lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs verða dregnir í burtu svo unnt sé að tryggja aðgengi þessara öryggisaðila ef óhapp ber að. Hægt er að nálgast kort yfir götulokanir á vefsíðu Menningarnætur eða fá upplýsingar í símaveri Reykjavíkurborgar frá kl. 8-23 á Menningarnótt, s.411-1111.
FRÍTT Í STRÆTÓ Á MENNINGARNÓTT
Ókeypis verður í Strætó sem keyrir samkvæmt hefðbundinni leiðartöflu fram til kl. 22.30. Þá tekur við sérstök leiðartafla sem miðar að því að koma fólki hratt og örugglega heim úr miðborginni. Hægt er að finna nánari upplýsingar um leiðarkerfi þeirra vagna Strætó sem aka í miðborgina á vef Strætó. Á Menningarnótt er boðið uppá ókeypis strætóskutlur sem aka reglulega til og frá bílastæðum við Laugardalshöll og Borgartún og að Hallgrímskirkju með viðkomu á Hlemmi. Þessi þjónusta hefur mælst vel fyrir síðustu ár en einkunnarorð hennar eru: Leggðu fjær til að komast nær.
AÐGENGI OG ÞJÓNUSTA
Sérstök bílastæði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða eru á Skúlagötu, Túngötu og við Tækniskólann. Einnig verður hægt að taka leigubíl inn á Skólavörðuholt, Skúlagötu, Túngötu og BSÍ. Sérstök salerni fyrir fatlaða eru á nokkrum stöðum á hátíðarsvæðinu. Nánari upplýsingar eru á vef Menningarnott.is.