Dagana 9. – 13. desember munu unglingar og félagsmiðstöðvar á vegum frístundamiðstöðvarinnar Gufunesbæjar í Grafarvogi standa fyrir Góðgerðaviku til styrktar Thelmu Ósk Þórisdóttur 13 ára stúlku með meðfæddan efnaskiptagalla. Góðgerðaráð unglinganna sér um framkvæmd og útfærslu vikunnar í samstarfi við starfsfólk.
Meginmarkmið Góðgerðavikunnar er að unglingar kynni sér góðgerðamálefni og vakni til vitundar um það hvernig þeir geta komið öðrum til hjálpar og haft uppbyggileg áhrif á samfélag sitt.
Góðgerðaráðið hefur undanfarinn mánuð undirbúið þessa viku og hafa unglingarnir skipulagt tvo stóra viðburði. Fyrst ber að nefna bingókvöld fyrir alla Grafarvogsbúa sem haldið var í Fjörgyn í gærkvöldi. Allmörg fyrirtæki lögðu til vinninga og kann góðgerðaráð þeim miklar þakkir. Hinn viðburðurinn er ball í Sigyn fyrir alla unglinga í Grafarvogi þar sem dj-ar úr röðum unglinganna koma fram.
Allur ágóði sem safnast rennur óskiptur til Thelmu Óskar. Vonast góðgerðaráðið til þess að geta létt undir með Thelmu en hún þarf að halda erlendis á næstu mánuðum í erfiða aðgerð.
Þetta er í áttunda sinn sem unglingar í Grafarvogi efna til Góðgerðarviku, en hugmyndina fengu unglingarnir sjálfir á sínum tíma og hrintu í framkvæmd af miklum hug.
Nánari upplýsingar um vikuna er hægt að nálgast hjá Þorsteini í síma/vefpósti 695-5180/thorsteinnv@reykjavik.is.