Tvö sterkustu stúlknaskákmót ársins voru haldin í Rimaskóla um helgina. Íslandsmót grunnskólasveita stúlkna og Íslandsmót stúlkna. Skemmst er frá því að segja að Rimaskólastúlkur urðu sigurvegarar í öllum aðalflokkum mótanna. A sveit Rimaskóla vann sinn stærsta sigur þegar skáksveitin vann allar sínar viðureignir 4-0 og hefur engum skóla tekist að afreka það fyrr.
Rimaskóli er ekki óvanur að sigra á þessu Íslandsmóti því að þetta var í 11. sinn á 13 árum sem skólinn sigrar. B sveit skólans var í 5 sæti, efst B sveita og til að kóróna frábæra frammistöðu Grafarvogs þá varð efnileg skáksveit Foldaskóla í 3. sæti. Flestar þessar stúlkur hafa æft með skákdeild Fjölnis þar sem barna og unglingastarfið virðist árangursríkt svo ekki sé meira sagt.
Miðað við yfirburði Rimaskóla og að allar þessar stelpur eiga 2 – 3 ár eftir í grunnskóla þá er framtíðin björt. Íslandsmeistarar Rimaskóla eru Nansý Davíðsdóttir, Valgerður Jóhannesdóttir, Ásdís Birna Þórarinsdóttir, Heiðrún Anna Hauksdóttir og Tinna Sif Aðalsteinsdóttir.
Á Íslandsmóti stúlkna daginn eftir unnu Rimaskólastúlkurnar Valgerður Jóhannesdóttir eldri flokk og Nansý Davíðsdóttir yngri flokk. Til hamingju stúlkur með þennan frábæra árangur.