Karlakór Grafarvogs heldur sína árlegu hausttónleika í Grafarvogskirkju laugardaginn 29. nóvember nk. og hefjast þeir kl. 17. Gestur Karlakórsins á tónleikunum verður hinn rómaði Drengjakór íslenska lýðveldisins.
Karlakór Grafarvogs sem er á sínu fjórða starfsári hefur stimplað sig rækilega inn í tónlistarlífið í Reykjavík. Hafa tónleikar kórsins jafnan verið fjölsóttir og gestir skemmt sér hið besta, enda kórinn þekktur fyrir líflega framkomu og skemmtilegt lagaval. Drengjakór íslenska lýðveldisins var stofnaður árið 2008 og hefur komið fram við margvísleg tækifæri og hlotið einróma lof fyrir létta framkomu og góðan söng, enda er hópurinn skipaður reyndum söngmönnum sem allir hafa gaman af því að skemmta sér og öðrum með söng og sprelli. Vart er við öðru að búast en að að tónleikagestir eigi eftir að skemmta sér vel á tónleikunum.
Á fjölbreyttri efnisskránni eru vinsæl íslensk og erlend lög úr ýmsum áttum. Þar er fléttað saman vinsælum íslenskum lögum, bæði alkunnum kórlögum sem og lögum sem hafa verið útsett sérstaklega fyrir kórana.
Söngmenn kóranna beggja eru um 50 talsins en stjórnendur beggja kóranna eru konur. Stjórnandi og stofnandi Karlakórs Grafarvogs er Íris Erlingsdóttir, en Drengjakór íslenska lýðveldisins lýtur stjórn Sólveigar Sigríðar Einarsdóttur.
Aðgöngumiðar eru seldir við innganginn, en einnig má nálgast miða hjá félgum beggja kóranna.