Þrjátíu skákkrökkum úr Rimaskóla var miðvikudaginn 19. nóv. boðið í heimsókn í Grunnskólann á Hellu á Rangárvöllum en þar hefur Björgvin Smári Guðmundsson kennari verið að efla skákstarfið og horft til Rimaskóla sem fyrirmynd í þessu uppbyggingarstarfi. Rimaskólakrakkar fengu höfðinglegar móttökur í þessum 150 nemenda skóla. Þeim var boðið í girnilegan hádegisverð fyrir skákmót sem haldið var í tilefni heimsóknarinnar og kaffiveitingar biðu þeirra að skákmóti loknu. Báðir skólarnir mættu með fjórar sjö manna sveitir. Rimaskóli skipti sínu liði upp í fjórar jafnar sveitir en skáksveitum Hellukrakka var skipt eftir bekkjum. Talsverður getumunur var á skáksveitunum en það var greinilegt að nemendum Grunnskólans á Hellu þótti mikil upphefð í því að tefla við nemendur Rimaskóla sem í rúman áratug hafa verið miklir afrekskrakkar á grunnskólamótum í skák bæði hérlendis og á Norðurlöndunum. Grunnskólinn á Hellu mun eftir áramót endurgjalda Rimaskóla heimsóknina og fjölmenna í Grafarvoginn með sama hætti.
Með kveðju
Helgi Árnason
Skólastjóri Rimaskóla