Helgi Árnason, skólastjóri Rimaskóla, fær Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna í ár. Verðlaunin fær hann fyrir ötult starf sitt í þágu skáklistar sem hluta af skólastarfi.
Verðlaunaféð er ein milljón króna, og rennur helmingur til skákstarfsemi í Rimaskóla og afgangurinn til Skákskóla Íslands. Alls hefur 36 milljónum verið úthlutað úr Velferðarsjóði barna á árinu en heildarúthlutun frá stofnun sjóðsins nemur um 750 milljónum króna.
Rimaskóli hefur sex sinnum orðið Norðurlandameistari og tólf sinnum á árunum 2003-13 tekið þátt í Norðurlandamótum. Þá hefur skólinn tekið þátt í öllum Reykjavíkur- og Íslandsmótum í skák frá stofnun skólans og unnið til fjölda verðlauna.