Miðvikudaginn 15. október kl. 15-17 er öllum boðið að koma í Grasagarðinn og fá græna fræðslu á vettvangi. Þar verður hægt að kynna sér starfsemina og taka þátt í að upplifa náttúruna og nærumhverfið á nýjan og eftirminnilegan hátt. Boðið verður upp á heita skógarsaft og jurtate.
Reykjavík iðandi af lífi, Náttúruskóli Reykjavíkur, Grasagarðurinn og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn standa árið um kring að víðtækri umhverfis- og náttúrufræðslu í borginni fyrir skólahópa og almenning. Miðvikudaginn 15. október kl. 15 er borgarbúum boðið að koma í Grasagarðinn og kynna þér þeirra skemmtilegu starfsemi og taka þátt í að upplifa náttúruna og nærumhverfið á nýjan og eftirminnilegan hátt.
Þátttaka ókeypis og allir velkomnir.
Reykjavík – iðandi af lífi er fræðsluátak um líffræðilega fjölbreytni í borginni, í umsjón umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur. Það er lykilmarkmið í umhverfistefnu borgarinnar að vernda náttúruleg svæði innan borgarmarka og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og starfsemi vistkerfa en hvoru tveggja er forsenda fyrir ákjósanlegum umhverfisgæðum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Afar mikilvægt er að efla vitund og þátttöku almennings til að tryggja að þessum markmiðum sé náð. Reykjavík- iðandi af lífi býður upp á fjölbreytta fræðslu um hið fjölskrúðuga lífríki borgarinnar fyrir alla, grunn- og leikskólabörn, kennara, erlenda ferðamenn og ekki síst almenning á öllum aldri. Fræðsluefni hefur verið gefið út á vef, prenti og fræðsluskiltum en einnig eru reglulegir fræðsluviðburðir, einkum náttúruskoðanir á vettvangi.
Meginmarkmið Náttúruskóla Reykjavíkur er að efla menntun til sjálfbærni, útinám og umhverfismennt í leik- og grunnskólum borgarinnar og starfsstöðum frístundastarfs. Skólinn leggur áherslu á að efla færni kennara til að starfa utandyra með börnum og veitir ráðgjöf við innleiðingu menntunar til sjálfbærni, útináms og umhverfismenntar með hliðsjón af markmiðum nýrrar aðalnámskrár. Náttúruskólinn býður upp á fjölbreytt námskeið og fræðslu fyrir þá sem starfa með börnum og unglingum á vegum borgarinnar, starfrækir jafningjafræðsluteymi og heldur utan um gerð samninga við leik- og grunnskóla um græn svæði í nágrenni skóla sem notuð eru sem vettvangur útináms.
Grasagarðurinn býður upp á fjölbreytta fræðslu og leiðsagnir fyrir almenning og skólahópa á öllum aldri þar sem áhersla er lögð á ánægjulega upplifun og þátttöku. Grasagarðurinn er lifandi safn undir berum himni og safndeildir garðsins eru nýttar til fræðslu um náttúruna, umhverfið, garðyrkju, garðmenningu, flóru og fánu garðsins. Á viðburðadagskrá hvers árs eru fræðsluviðburðir, námskeið, sýningar og tónleikar.
Heimsókn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og til dýranna sem þar búa getur aukið skilning nemenda á einum af grunnþáttum menntunar sem er sjálfbærni. Líkt og segir í aðalnámskrá er mikilvægt að nemendur geri sér grein fyrir þeim takmörkum sem vistkerfi jarðarinnar setja okkur og að þeir læri að virða, þekkja og umfram allt skilja náttúruna sem umlykur allt mannlegt samfélag. Nám í náttúrugreinum og þá helst þeim sem snúa að náttúrufræði, lífvísindum og umhverfismennt eiga hvað mesta samleið með viðfangsefnum þeirra námskeiða sem í boði eru í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.