Fyrstu íbúðarhúsin í Gufunesi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýjum íbúðarhúsum í Gufunesi, en Þorpið vistfélag byggir 137 íbúðir á þessu nýja uppbyggingarsvæði sem er í tengslum við skapandi iðnað, frumkvöðlastarfsemi og menningu.

„Það er sérstakt fagnaðarefni að fyrsta verkefnið sem ætlað er að fjölga hagkvæmum íbúðum á viðráðanlegu verði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur sé að fara af stað,” sagði Dagur. „Alls verða þessi fjölbreyttu verkefni níu um alla borg og heildarfjöldi íbúða verður yfir fimm hundruð. Hugsunin er sú að þessi verkefni byggi á nýrri hugsun og hafi það öll að markmiði að gera húsnæðismarkaðinn fjölbreyttari. Til viðbótar er frábært að sjá fyrstu íbúðirnar í Gufunesi rísa en svæðið er nýtt íbúðahverfi og spennandi atvinnusvæði skapandi greina“.

Þetta eru fyrstu nýbyggingarnar í þessu nýjasta hverfi borgarinnar og eru þær á sjávarlóð nyrst í Gufunesi með útsýni yfir Geldinganes og Viðey.  Yrki Arktitektar sáu um hönnun og verktaki framkvæmdarinnar er Eykt.

Framkvæmdir hefjast næstu daga og byggt verður upp í áföngum. Í fyrsta áfanga eru 45 íbúðir, 41 íbúð í öðrum áfanga og 51 íbúð í þeim þriðja. Sameiginleg sameign allra áfanga eru byggðir í öðrum áfanga utan hjóla- og vagnagreymslu sem er byggð samhliða þriðja áfanga.

Framkvæmdatími er stuttur, en afhenda á fyrstu íbúðirnar í maí á næsta ári og ljúka uppbyggingunni allri  í maí ári síðar.  Íbúðir Þorpsins eru úr verksmiðjuframleiddum einingum sem styttir byggingartímann og lækkar kostnað.

Hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur 

Reykjavíkurborg úthlutaði lóðinni í tengslum við verkefni sitt um Hagkvæmt húsnæði, þar sem sérstaklega er horft til þarfa ungs fólks og fyrstu kaupenda og er Þorpið fyrsti byggingaraðilinn til að hefja framkvæmdir innan verkefnisins. Ódýrustu íbúðir Þropsins verða til sölu á innan við 20 mkr.

Vilja byggja upp hagkvæmt vistvænt samfélag 

Hugmyndafræði Þorpsins vistfélags fellur vel að markmiðum Reykjavíkurborgar fyrir hagkvæmt húsnæði. „Við erum fyrir fólk sem vill eign­ast þak yfir höfuðið án þess að þurfa að ráðstafa nær öll­um framtíðar­tekj­um sín­um til margra ára­tuga í hús­næði,“ segir Runólfur Ágústsson talsmaður Þorpsins vistfélags. „Við gerum hlutina öðruvísi til að ná niður byggingakostnaði á sama tíma og við bjóðum fólki að taka þátt í upp­bygg­ingu vist­væns sam­fé­lags sem bygg­ir á deili­lausn­um, sam­vinnu fólks og sam­starfi“.

Þorpið leggur áherslu á mikla sameign og grænan lífsstíl, hvað varðar umhverfis- og samgöngumál.

Mikill áhugi hefur verið fyrir þessum nýju íbúðum og að sögn Runólfs. „Rúmlega 1.100 manns skráðu sig sem áhugasama kaupendur fyrir ári síðan og af þeim hafa nú í apríl á fjórða hundruð staðfest umsókn. Umsóknafrestur um íbúð rennur út þann 15. maí næstkomandi, frestur til að skila inn greiðslumati rennur út 31. maí og við stefnum á að úthluta íbúðum til kaupenda í byrjun júní þar sem dregið verður á milli umsækjenda.“ Þorpið selur sínar íbúðir beint til kaupenda án milliliða.

Áhersla á góða nýtingu rýmis 

Byggð Þorpsins í Gufunesi er brotin upp í þriggja til fimm hæða þyrpingu íbúðarhúsa með alls 137 íbúðum og hverfast húsin um miðlægt torg og garða. Göngustígar í nágrenni eru tengdir inn og í gegnum svæðið. Um er að ræða 5 íbúðarhús, 3ja hæða í suðurhluta og 4ra hæða í vestur- og miðhluta og 5 hæða í austurhluta lóðarinnar. Staðsetning húsa innan hverfisins er ákvörðuð eftir veðurfræðilegri ráðgjöf til að mynda skjól um sólríka garða og torg.

Áhersla er á vandaða hönnun og góða rýmisnýtingu íbúðanna sem eru af fjórum gerðum; stúdíó, tveggja, þriggja og fjögurra herbergja. Þrír stiga- og lyftukjarnar eru í íbúðarhúsunum og eru þau tengd saman um svalaganga og brýr. Byggðin hefur létt yfirbragð og er fjölbreytt í lita- og efnisvali. Í fyrsta áfanga er 5 hæða fjölbýlishús með 45 íbúðum. Húsin eru hvert með sínu litaþema, brotin upp með björtum máluðum flötum. Þetta fyrsta hús verður í gulum og grænum litum sem kallast á við hvíta og gráa fleti. Gaflar eru mynstruð sjónsteypa og mynda með þakkanti ramma utan um húsið. Svalagangar vísa í austur með fjölbreyttu efnisvali í handriðum. Svalir vísa í vestur fyrir síðdegis- og kvöldsól.

Húsin eru verksmiðjuframleidd úr steyptum einingum sem gerðar eru innanhúss við bestu aðstæður.

Bíllaust hverfi: Skjól, sól og grænmetisgarðar  

Íbúðarhúsin mynda garðrými fyrir skjólgott torg, leikvöll, boltavelli og grasfleti. Torgið verður við aðalinngang hverfisins við sameiginleg rými íbúa. Leik- og dvalaraðstaða er norðan megin gegnt ströndinni þar sem gert er ráð fyrir sparkvelli og götuboltasvæði. Tekið er tillit til sólarátta og byggð skipulögð þannig að garðrýmin eru í góðu skjóli fyrir veðri og vindum.  Við íbúðarbyggðina eru matjurtagarðar til afnota fyrir íbúa til ræktunar. Þar verður heimilt að gera vermireiti og gróðurskýli. Bílastæði eru utan byggðarinnar í nýrri breiðgötu þar sem gatnaframkvæmdir eru nú á lokastigi. Þar verða einnig stæði fyrir sameiginlega deilibíla.

Sameiginleg vinnurými, deilibílar og rafhjól 

Sameiginleg fjölnota rými/vinnurými/veislusalur er á jarðhæð við miðlægt hellulagt sólríkt torg. Þetta rými nýtist á daginn sem vinnusetur fyrir íbúa (co-working space), en sem kaffihús eða veislusalur á kvöldin og um helgar. Fyrir utan kaffihúsið, á hellulögðu torgi, er sameiginlegt grill. Við torgið er einnig sameiginlegt þvottahús. Að auki er gert ráð fyrir að í hverri íbúð sé möguleiki á lögnum fyrir þvottavél og þurrkara á baði. Pósthús/deilibúr er einnig við torgið þar sem eru póstkassar íbúa ásamt móttökuhólfum fyrir aðsendan mat og vörur. Léttbyggt hjóla- og vagnaskýli fyrir samtals 120 hjól, eru á einum stað í inngarði og tengjast megin aðkomuleiðum. Í hjólageymslu verða tenglar til hleðslu rafhjóla. Íbúar munu einnig hafa aðgang að deilibílum.

Skýrar kröfur um forgangshópa  

Þorpið í Gufunesi er hluti af verkefni Reykjavíkurborgar til að auðvelda ungu fólki að eignast sitt fyrsta húsnæði. Forgang að kaupum/leigu á íbúðum hafa einstaklingar á aldrinum 18-40 ára. Við endursölu skal þess gætt að söluverð á hvern brúttófermeter íbúðar haldist í sömu hlutföllum milli upphaflegs kaupverðs og almenns söluverðs fjölbýlishúsa í hverfinu.

Uppbygging í Gufunesi 

Mikil uppbygging verður í Gufunesi á næstu árum. Þar verður blönduð byggð fyrir íbúðir, smærri atvinnurekstur, skapandi iðnað, menningu, menntun, sýningar- og atburði, ferðamannaiðnað og sjálfbærar samgöngur. Gufunesið verður þannig einstakt hverfi í borginni þar sem iðnaðarmannvirki, manngert landslag, afþreying- og útivist og stórfengleg fjallasýn við sjávarsíðu mynda órjúfanlega heild.

Þorpið er samkvæmt skipulagi hluti af grænu íbúðarsvæði við sjó. Uppbygging reitsins einkennist af þyrpingu fjölbýlishúsa af ýmsum stærðum, byggingargerðum og hæðum. Leitast er við að skapa aðlaðandi umhverfi með samfélagslegri blöndun. Rammi hverfisins er samfellt, grænt svæði sem tengir saman stök hús og húsaþyrpingar. Andrými þetta er aðgenglegt fótgangandi og hjólandi ásamt sameiginlegum svæðum, s.s. matjurtargörðum, leiksvæðum, grillaðstöðu o.s.frv. Allar íbúðarbyggingar eiga það sameiginlegt að tengjast græna svæðinu á afgerandi hátt, bæði með göngu- og hjólastíg meðfram strandlengjunni, sjónásum og aðalinngöngum húsa. Allar íbúðir á jarðhæð fá verönd sem skilur að almennings- og einkarými. Meginaðkoma bílaumferðar er um breiðgötu sem liggur á milli athafnasvæðis til suðurs og íbúðarsvæðis við sjó til norðurs. Í breiðgötunni er gert ráð fyrir töluverðu magni bílastæða á yfirborði sem skapar jákvæðar forsendur fyrir hagkvæmar íbúðargerðir. Áhersla er lögð á unga byrjendur á íbúðamarkaðinum, virka íbúaþátttöku, deilihagkerfi og umhverfismál.

Nánari upplýsingar:     


Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.