Fjölnir komst í kvöld á topp 1. deildar karla með stórsigri á Grindavík suður með sjó, 4:0, en sigurinn var eins og lokatölur gefa til kynna fyllilega verðskuldaður.
Það tók gestina úr Grafarvogi ekki nema sex mínútur að skora fyrsta markið en það gerði Ragnar Leósson með laglegu skoti fyrir utan teig eftir sendingu frá Þóri Guðjónssyni.
Aron Sigurðarson skoraði svo annað mark Fjölnis og tíunda mark sitt í deildinni á 24. mínútu þegar hann slapp einn í gegn nánast frá miðju og renndi knettinum snyrtilega undir Benóný Þórhallsson sem ver mark Grindavíkur í fjarveru Óskars Péturssonar.
Fjölnismenn gengu svo frá leiknum strax á annarri mínútu síðari hálfleiks þegar Þórir Guðjónsson skoraði þriðja mark gestanna og Ragnar Leósson bætti svo við öðru marki sínu og fjórða marki Fjölnis með langskoti á 62. mínútu sem Benóný missti undir sig, 4:0.
Með sigrinum komst Fjölnir á topp 1. deildar með 37 stig þegar tvær umferðir eru eftir og er með alla ása á hendi fyrir lokaumferðirnar tvær. Grindvíkingar eru í 2. sæti með 36 stig eins og Haukar og Víkingur R. en öll lið eru með +11 í markatölu. Spennan minnkar ekkert í þessari ótrúlegu deild.
Á sama tíma og Fjölnir pakkaði Grindavík saman vann Leiknir R. góðan sigur á Selfossi, 3:2. Hilmar Árni Halldórsson lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Karl Oliyide og skoraði svo sjálfur eftir að Javier Zurbano hafði jafnað fyrir Selfoss í millitíðinni.