Líkt og undanfarin ár var góð þátttaka á TORG skákmóti Fjölnis í Rimaskóla í gær en 50 grunnskólakrakkar lögðu leið sína á mótstað í Rimaskóla, þar af um 30 utan Grafarvogs. Meðal keppenda voru allir bestu skákkrakkar landsins. Vinsældir TORG mótisins mótast af hversu margir vinningar eru í boði frá fyrirtækjum á TORGINU í Hverafold, mótið er ókeypis og vinsælar veitingar eru í boði frá NETTÓ. Eftir að Helgi Ólafsson stórmeistari og heiðursgestur mótsins hafði leikið fyrsta leikinn fyrir Hákon Garðarsson Fjölni hófst keppnin. Keppendur tókust í hendur og tefldu sex umferðir.
Keppnin var æsispennandi á efstu borðum allan tímann og mikið um jafntefli. Það voru tvíburabræðurnir Björn Hólm og Bárður Örn Birkissynir úr Smáraskóla í Kópavogi sem urðu efstir, Óskar Víkingur í Davíðsson vann yngri flokkinn og Rimaskólastúlkan Nansý Davíðsdóttir varð efst í stúlknaflokki.
Auk Nansýjar urðu fimm aðrir Fjölniskrakkar í 20 efstu sætunum, þeir Jóhann Arnar Finnsson, Jóshua Davíðsson, Kristófer Halldór Kjartansson, Sæmundur Árnason og Róbert Orri Árnason. Keppendur og foreldrar þeirra virtust mjög ánægðir með mótið, skipulegið og góðar aðstæður.
Flestir keppendur fóru heim með verðlaun, allir fengu eins og þeir vildu af veitingum og borðtennisaðstaðan í Rimaskóla reyndist vinsæl á milli umferða. Þetta var í 11. sinn sem skákdeild Fjölnis stendur fyrir TORG skákmótinu og enginn vafi á að mótið verður haldið aftur að ári.
Skákdeild Fjölnis vill þakka fyrirtækjunum á TORGINU sem gáfu verðlaun og veitingar kærlega fyrir frábæran stuðning, NETTÓ, Runni – Stúdíóblóm, Colo´s, bakaríið, bókabúðin og Pizzan.
Myndir: Baldvin Örn Berndsen