Skákdeild Fjölnis hélt páskaskákæfingu föstudaginn 11. apríl þegar allir krakkar voru á leiðinni í páskaleyfi. Æfingin var fjölmenn því alls tóku 26 krakkar úr Grafravogi þátt í 5 umferða móti. Nansý Davíðsdóttir Rimaskóla sigraði örugglega og lagði alla sína andstæðinga. Þessi nýkrýndi Íslandsmeistari með skáksveit Rimaskóla hefur verið öflug við taflborðið í vetur og er á leið á NM stúlkna síðar í apríl til að verja titil sinn frá í fyrra. Nansý hlaut 5 vinninga en næstir á eftir henni urðu þeir Kristófer Halldór, Joshua og Hilmir Arnarson í Rimaskóla og Sæmundur Árnason Foldaskóla, allir með fjóra vinninga. Aðrir verðlaunahafar voru Róbert Orri, Kjartan Karl, Heiðrún Anna , Baldvin Þór, Hákon, Kacper og Halldór Snær Rimaskóla og Magnús Haraldsson Ingunnarskóla. Verðlaun að þessu sinni voru páskaegg. Allir sem mættu á æfinguna fengu páskaegg í þátttökuverðlaun og undu glaðir við sitt, enda skákmótið mjög öflugt og skemmtilegt.