Félagsmiðstöð í Spöng í Grafarvogi var formlega tekin í notkun og mun hún bæta þjónustu við eldri borgara í hverfinu.
Íbúar Eirborgar munu njóta þjónustu í nýju Félagsmiðstöðinni, en innangengt er um tengigang milli bygginganna. Korpúlfar, félag eldri borgara í Grafarvogi, verður með aðstöðu fyrir félags- og tómstundastarf sitt og Grafarvogssókn verður með kirkjusel í húsinu.
Matsalur með móttökueldhúsi er í Félagsmiðstöðinni, auk fjölnotasala sem hægt er að opna á milli og skapa stærra rými. Þá er gengt úr fjölnotasölum í skjólsælan suðurgarð hússins. Í húsinu verður aðstaða fyrir fótsnyrtingu og hárgreiðslu og á efri hæð opna dagdeild fyrir heilabilaða og skrifstofa félagslegrar heimaþjónustu Reykjavíkurborgar.