Barnamenningarhátíð brestur á 19. apríl með gleðihátíð í Hörpu

Glaðir krakkar

Barnamenningarhátíð í Reykjavík verður sett í sjötta skipti þriðjudaginn 19. apríl kl. 11 með gleðihátíð í Hörpu.

Barnamenningarhátíð er ein stærsta hátíð sem haldin er á vegum Reykjavíkurborgar en í boði eru um 150 ókeypis viðburðir fyrir börn og unglinga dagana 19.-24. apríl. Dagskráin fer fram í öllum hverfum borgarinnar; í grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, leikskólum, menningarstofnunum, Ráðhúsinu og á fleiri stöðum. Hægt er að nálgast ítarlegri upplýsingar á vefnum barnamenningarhatid.is.

Í ár er lögð áhersla á margbreytileikann í íslensku samfélagi og eru margir viðburðir á hátíðinni sérstaklega tileinkaðir því viðfangsefni. Hjómsveitin Pollapönk samdi lag af því tilefni sem ber heitið Litríkir sokkar og vettlingar og verður flutt á setningu hátíðarinnar í Eldborgarsal Hörpu. 1450 börn í fjórða bekk grunnskóla borgarinnar flytja lagið með hljómsveitinni en þau hafa æft lagið síðustu daga. Lagið er samstarfsverkefni Barnamenningarhátíðar, UNICEF, Rauða krossins og Reykjavík bókmenntaborgar UNESCO.
Dagskráin í Hörpu stendur fram á kvöld en meðal viðburða eru tónlistaratriði með 700 leikskólabörnum í samstarfi við Tónskóla Sigursveins og glæsileg dansveisla þar sem listdanskólar höfuðborgarsvæðisins sameina krafta sína.
Á Barnamenningarhátíð fer jafnframt fram hin alþjóðlega sviðslistahátíð UNGI á vegum  samtakanna ASSITEJ. UNGI býður  upp á fjölda leik- og danssýninga fyrir yngri áhorfendur auk fjölda smærri viðburða s.s. leiksmiðja, leiklestra, sögustundir o.fl. Hátíðin fer m.a. fram í Tjarnarbíói, Þjóðleikshúskjallaranum og Ráðhúsinu.
Hægt verður að fylgjast með viðburðum hátíðarinnar á KrakkaRÚV þar sem ungir fréttamenn úr 8.-10. bekk grunnskóla sinna fréttamiðlun. Um er að ræða samstarfsverkefni  hátíðarinnar og KrakkaRÚV.
Barnamenning verður einnig í hávegum höfð annars staðar á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum og vikum. Í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi verður boðið upp á fjölda viðburða tengda barna- og unglingamenningu og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Um Barnamenningarhátíð
Barnamenningarhátíð er skipulögð af Höfuðborgarstofu og verkefnastjóra barnamenningar í Reykjavík. Með hátíðinni skapast vettvangur fyrir menningu barna, menningu með börnum og menningu fyrir börn. Hátíðin er þátttökuhátíð þar sem gæði, margbreytileiki, jafnræði og gott aðgengi eru höfð leiðarljósi. Í ár er áhersla lögð á fjölmenningu og réttindi barna.

 

 

Stólpi auglýsing stór II2586-10-11-apriltilbod-skjar-01

 

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.