Öll 40 plássin í Sturlubúðum, skákbúðum Fjölnis helgina 1. – 2. febrúar, eru nú uppbókuð og aðeins hægt að skrá sig á biðlista. Dagskrá skákbúðanna er mjög spennandi en þar skiptist á skákkennsla og frjáls tími í frábæru umhverfi Útilífsmiðstöðvarinnar að Úlfljótsvatni.
Gist verður eina nótt og boðið upp á kvöldvöku á laugardegi. Síðasti liður á dagskrá sunnudagsins verður Nóa – Síríus skákmótið. Sælgætisgerðin gefur alla vinninga auk þess að gefa þátttakendum skákbúðanna glaðning á kvöldvökunni.
Fjölniskrakkar voru duglegastir og fljótastir að skrá sig í skákbúðirnar enda nýtur Skákdeild Fjölnis stuðnings Gúmmívinnnustofunnar Skipholti sem greiðir 75% af þátttökugjaldi Fjölniskrakka. Með stuðningi við Skákdeild Fjölnis vill Grafarvogsbúinn Sturla Pétursson minnast afa síns og alnafna sem á löngum skákferli kom að þjálfun barna og unglinga. Sturla yngri telur barna-og unglingastarf Skákdeildar Fjölnis mjög í anda afa síns.
Lagt verður af stað í Sturlubúðir með rútu á laugardagsmorgni kl. 10:00 frá Umferðarmiðstöðinni og þátttakendur sem það kjósa verða teknir upp í N1 við Ártúnshöfða.