Malbikað fyrir 1,5 milljarð í ár
Meiri fjármunum verður varið til viðgerða og endurnýjunar á malbiki á þessu ári en nokkru sinni áður. Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir 1.460 milljónum króna til verkefnisins og er það ríflega tvöföldun frá því í fyrra.
Áhersla er lögð á endurnýjun bæði með fræsingu og malbikun, sem og malbikun yfirlaga og er það gert til að koma í veg fyrir miklar og kostnaðarsamar viðgerðir síðar. Áætlað er að slík endurnýjun verði í ár 243.000 fermetrar eða sem nemur um 32 km í lengd gatna. Að auki og fyrir utan framantalinn kostnað kemur nýtt malbik á götur sem endurnýjaðar eru frá grunni s.s. endurgerð Hafnarstætis milli Pósthússtrætis og Tryggvagötu, sem og vegna endurgerðar gatnamóta Lækjargötu og Geirsgötu. Þá eru framkvæmdir Vegagerðarinnar á stofnbrautum ekki inn í þessum tölum.
Borgarráð heimilaði á fundi sínum í gær að malbikunarframkvæmdir ársins yrðu boðnar út.
Mikil endurnýjun næstu fimm ár
Gerð hefur verið áætlun um endurnýjun og viðgerðir á malbiki á götum borgarinnar til næstu fimm ára. Í fjárhagsáætlun 2017 – 2021 er lagt til að verið verði 8.380 milljónum króna til verkefnisins.
Fyrstu þrjú árin (2017 – 2019) verður áhersla lögð á endurnýjun malbiksyfirlagna einkum á umferðarþungum götum til að koma í veg fyrir miklar og kostnaðarsamar viðgerðir síðar.
Á árunum 2020 – 2021 er ætlunin að endurnýja fjölmargar götur sem þá hafa náð hafa líftíma sínum og eru það einkum íbúðagötur í Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi.
Í frétt á vef Reykjavíkurborgar er myndefni s.s. súlurit yfir malbikun liðinna ára > http://reykjavik.is/frettir/malbikad-fyrir-15-milljard-i-ar