Brúðubíllinn á ferðinni í sumar
Allir eru velkomnir á sýningarnar og það kostar ekkert!
Hlakka til að sjá ykkur.
Kærar kveðjur,
Helga og Lilli
Hægt er að skoða dagskrá júní og júlí hérna……
Allir eru velkomnir á sýningarnar og það kostar ekkert!
Hlakka til að sjá ykkur.
Kærar kveðjur,
Helga og Lilli
Hægt er að skoða dagskrá júní og júlí hérna……
Guðsþjónusta kl. 11:00 á Sjómannadaginn í Grafarvogskirkju. Helgistund við naustið/bátalægi fyrir neðan kirkjuna kl. 10:30.
Félagar úr Björgunarsveitinni Ársæli sigla inn Grafarvoginn og taka þátt í helgistundinni.
Árni Bjarnason formaður Skipstjórnarmanna á Íslandi flytur hugvekju, Örn Pálsson framkvæmdastjóri smábátaeiganda flytur ritningarorð.
Þorvaldur Halldórsson söngvari syngur bæði við bátalægið og í messunni.
Séra Vigfús Þór þjónar fyrir altari. Kaffi og kleinur eftir messu.
Sumarhátíð Lyngheima var haldin í dag. Boðið var upp á grillaðar pylsur og mjólk. Hoppukastalar voru á svæðinu, krítar og sápukúlur. Andlitsmálun var í boði fyrir þau börn sem vilja fyrr um daginn.
Eins og sést á myndum voru allir í góðu skapi. Fleiri myndir hérna.
Kveðja foreldrafélagið.
Samstarf um uppbyggingu á Ártúnshöfða
Samstarfsyfirlýsing um uppbyggingu á Ártúnshöfða vestan Breiðhöfða var undirrituð í dag. Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson og fulltrúar lóðarhafa, Ingvi Jónasson hjá Klasa og Pétur Árni Jónsson hjá Heild, skrifuðu undir á einni af fjölmörgum nýjum byggingarlóðum. Svæðið sem samkomulagið nær til er 273.000 fermetrar og er gert ráð fyrir að á þetta svæði geti komið 3 – 4.000 nýjar íbúðir. Fyrirsjáanlegt er að á Ártúnshöfða verði eitt mesta uppbyggingarsvæðið í Reykjavík á næstu árum.
Aðilar að samkomulaginu við borgina eru Heild fasteignafélag hf. fyrir hönd Árlands ehf. og Klasi hf. fyrir hönd Elliðaárvogs ehf.
Ungt fólk í öndvegi
Við undirbúningi uppbyggingar íbúðasvæðisins á Ártúnshöfða verður haft að leiðarljósi að skapa hagstæðar aðstæður á hluta svæðisins fyrir ungt fólk og/eða þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð eða kjósa að vera á leigumarkaði. Markmiðið er að skapa aðstæður til að byggja ódýrt húsnæði án þess að slegið sé af gæðakröfum, skapa möguleika fyrir deililausnir, bæði er lýtur að húsnæði, innviðum og samgöngum, eins og segir í yfirlýsingu. Vinna skal með þessi markmið á öllum stigum undirbúnings, deiliskipulagsgerðar, uppbyggingar- og söluferlis.
Samstarf um deiliskipulag og uppbyggingu
Aðilar að samkomulaginu munu standa sameiginlega að deiliskipulagstillögu sem afmarkast af þeim lóðum sem þeir ráða yfir á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. Einnig er gert ráð fyrir samstarfi um að gera lóðir byggingarhæfar og ráðstöfun þeirra.
Þó deiliskipulagstillaga miðist við lóðir samningsaðila verður tekið mið af fyrirliggjandi rammaskipulagi fyrir Elliðaárvog og Ártúnshöfða og er markmið samstarfsins að hámarka gæði skipulagsins á svæðinu og verða núgildandi lóðarmörk ekki látin hafa áhrif á útfærslu deiliskipulagstillögu heldur horft til heildarhagsmuna. Hafi aðrir lóðarhafar vestan Breiðhöfða áhuga á að koma inn í samstarfið er það mögulegt.
Gott jafnvægi milli íbúða og atvinnustarfsemi
Kveðið er á um það í samningi að við deiliskipulagsvinnuna skuli sérstaklega horft til þess að skapa gott jafnvægi milli íbúðarhúsnæðis, atvinnuhúsnæðis og þjónustu í hverfinu, auk tenginga við almenningssamgöngur. Jafnframt verður unnin áætlun um nýtingarhlutfall lands og frummat á kostnaði við innviði og opin svæði. Frumkostnaðaráætlun skal ná til gatnagerðar, breytinga á lögnum sem þarf að afskrifa, kostnaðar við blágrænar lausnir svæðisins, gatnalýsingu og gerð opinna svæða. Enn fremur skal matið ná hlutfallslega til annarra innviða, svo sem skóla og leikskóla, sem þjóna munu svæðinu ásamt öðrum framtíðarsvæðum í Elliðaárvogi/Ártúnshöfða.
Rammasamningur verður gerður til að ákvarða hlutfallslega kostnaðarþátttöku lóðarhafa á svæðinu við gerð innviða, greiðslutilhögun og tímasetningar greiðslna vegna innviðagerðar, hlutfall leiguíbúða á svæðinu, kauprétt á leiguíbúðum og listskreytingar. Þá verður horft til kostnaðarþátttöku í væntanlegri Borgarlínu sem og gatnagerðargjalda vegna uppbyggingar á svæðinu.
Þá verða sett viðmið varðandi veðsetningu lóða til þess að koma í veg fyrir óhóflega skuldsetningu þeirra.
Skipaður verður sérstakur stýrihópur lóðarhafa og Reykjavíkurborgar.
Í frétt á vef Reykjavíkurborgar er yfirlitsmynd af svæðinu sem um ræðir og vísanir í tengt efni: http://reykjavik.is/frettir/samstarf-um-uppbyggingu-artunshofda
Flestum grunnskólum borgarinnar verður slitið miðvikudaginn 7. júní og halda þá hátt í 15.000 skólabörn á vit sumarævintýra.
Þessa vikuna eru flestir grunnskólar borgarinnar að ljúka vetrarstarfinu með útskriftarathöfnum og skólaslitum. Um 1.400 tíundubekkingar eru að kveðja skólana sína og á leið í framhaldsskóla.
Börnum og unglingum stendur til boða fjölbreytt frístundastarf í sumar, bæði sumarsmiðjur of fl. á vegum frístundamiðstöðvanna og alls slags námskeið á vegum félagasamtaka. Nánari upplýsingar og skráning á vefnum www.fristund.is.
Í sumar verður Brúðubíllinn á ferð og flugi um borgina til að skemmta smáfólkinuu. Forsýning verður í Hljómskálagarðinum 8. júní kl. 14.00.
Sýningar Brúðubílsins eru sívinsælar hjá yngstu borgarbúunum og fer Lilli þar fremstur í flokki jafningja. Allir eru velkomnir á sýningar utandyra í sumar en sýnt verður m.a. á Klambratúni, við sundlaug Vesturbæjar,Árbæjarsafn og víðar.
Forsýning á sumardagskránni verður í Hljómskálagarðinum 8. júní klukkan 14:00 en frumsýning í Árbæjarsafni daginn eftir, föstudaginn 9. júní kl. 14.00.
Nemendur 6. bekkjar Rimaskóla sýndu snilldartakta í leiklist þegar þeir settu upp klukkustundar sýningu á ævintýrum H.C. Andersen í grenndarskógi skólans.
Leiksýningin nefnist Klaufar og kóngsdætur, þrjú bestu ævintýri danska ævintýraskáldsins; Eldfærin, Svínahirðirinn og Hans klaufi.
Grenndarskógur Rimaskóla er eitt stórt leiksvið, þrjú rúmgóð rjóður fyrir leikara og áhorfendur. Skrautlegir búningar, myndræn sviðsmynd og að sjálfsögðu skógurinn setja sterkan svip á sýninguna. Nemendum og foreldrum er boðið í leikhúsið undir berum himni og kunna vel að meta.
Þetta er áttunda árið í röð sem að nemendur 6. bekkjar Rimaskóla setja upp leiksýningu í skóginum að vori og er þetta því orðin ómissandi hefð í lok skólaárs.
Leikstjóri að þessu sinni var Agnar Jón Egilsson leikhússtjóri Leynileikhússins með dyggri aðstoð umsjónarkennara og list-og verkgreinakennara.
Nú styttist í skólaslit og þá er ekki úr vegi að minna á mikilvægi yndislesturs í sumarfríinu og koma á framfæri sniðugum hugmyndum fyrir næsta skólaár. Við höfum tekið saman nokkrar hugmyndir sem börn, foreldrar og kennarar geta nýtt sér á næstunni sem og á komandi skólaári og vekjum einnig athygli á Syrpuþoni nú í maí.
Læsissáttmáli og lestrarbingó
Heimili og skóli – landssamtök foreldra útbjuggu á síðasta ári Læsissáttmála fyrir foreldra sem tilvalið er að leggja fyrir og ræða í upphafi skólaárs og/eða á öðrum tímum sem henta. Læsissáttmálinn er leiðarvísir og stuðningsefni fyrir foreldra. Bekkjarfulltrúar, umsjónarkennarar og aðrir geta nýtt sér sáttmálann til að koma af stað umræðum um læsi og hlutverk foreldra þegar kemur að námi og lestrarþjálfun barna. Í sáttmálanum eru kynnt sex áhersluatriði sem fela í sér leiðir til að ná settu marki. Sáttmálanum fylgja leiðbeiningar um fyrirlögn, veggspjald, ítarefni og einnig er hægt að fá skemmtileg bókamerki, segla og kvittanahefti fyrir börnin. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur efnið nánar á heimasíðu okkar, heimiliogskoli.is, og hægt er að nálgast allt efnið á þjónustumiðstöð okkar endurgjaldslaust. Einnig er hægt að fá efnið sent. Nánar hér: http://www.heimiliogskoli.is/laesissattmali
Auk Læsissáttmálans er að finna fjölbreytt lestrarbingó á heimasíðu okkar sem stíla inn á skólafríin. Þar má t.d. finna tvö sumarlestrarbingó sem kjörið er að nýta sér sem lestrarhvatningu: http://www.heimiliogskoli.is/laesi/lestrarbingo
SAFT í samstarfi við Andrés önd
Heimili og skóli reka netöryggisverkefnið SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni og nú hefur SAFT í samstarfi við Eddu útgáfu útbúið Andrésarblað (með hinum eina sanna Andrési önd) þar sem fjallað er um netöryggi og bætta netnotkun. Blaðinu verður dreift með Morgunblaðinu á næstunni sem og á allri fræðslu og uppákomum sem SAFT stendur fyrir, á meðan birgðir endast. Við mælum með að börn, foreldrar og kennarar kynni sér þetta skemmtilega Andrésarblað saman.
Syrpuþon í maí 2017
Andrés Önd og verslunin Eymundsson standa fyrir skemmtilegri upplestraruppákomu fyrir krakka á aldrinum 10-14 ára sem nefnist Syrpuþon. Syrpuþonið verður haldið í verslun Eymundsson í Kringlunni, Laugardaginn 27. maí, milli klukkan 13.00 og 16.00. Allir þátttakendur fá glaðning og viðurkenningu fyrir þátttökuna.
Syrpuþonið er hugsað sem tækifæri fyrir krakka til að spreyta sig á leikupplestri með tilþrifum.
Fyrirkomulagið er einfalt, krakkarnir skrá sig til leiks á www.andresond.is/syrputhon og mæta svo í Eymundsson Kringlunni (á móti Bónus). Þar leiklesa þau upp úr Syrpu í 1-2 mínútur í senn og fá dygga aðstoð og ráðleggingar frá leikaranum og skemmtikraftinum Björgvini Franz Gíslasyni.
Uppákoman verður tekin upp á vídeó og verða tvö (stelpa og strákur) valin úr hópi þátttakenda til að vera „Syrpuröddin” og fá þannig tækifæri til að lesa inn á auglýsingar fyrir Syrpur og Andrés Önd.
Markmið uppákomunnar er að hvetja krakka til lesturs og gefa þeim tækifæri til að lesa upphátt með leiktilþrifum og taka þannig þátt í jákvæðu, skemmtilegu verkefni sem allir ættu að geta ráðið við og haft gaman af. Nánari upplýsingar veitir María í síma 894 8898 og einnig er hægt að skoða auglýsingu í viðhengi.
Eflum lestur í sumar sem og alla daga!