Sópar á fullu í borginni
Vorhreinsun er enn í fullum gangi í borginni en það tekur tíma að sópa og þvo götur, gangstéttir og stíga. Íbúar eru beðnir um að fylgjast með og færa bíla til fyrir sópunum svo þeir nái sem mestu.
Gert er ráð fyrir að vorverkunum í borginni, sópun og þvotti ljúki um 13. júní samkvæmt upplýsingum frá þjónustumiðstöð borgarlandsins.
Allir tiltækir vélsópar og þvottabílar eru á fullu í borginni þessa dagana. Nú er verið að forsópa götur í Miðborginni, gamla Vesturbænum og efra Breiðholti.
Forsópun gatna er lokið í Háaleiti og Kringlu, Gröndum, Melum og Skjólum, Ártúnsholti, Árbæ, Bæjum, Bryggjuhverfi, Hálsum, Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal og Kjalarnesi.
Forsópun er ekki hafin í Laugardalshverfi, Hlíðum, Holtum, Norðurmýri, Teigum og Túnum, Fossvogi, Gerðum, Háaleitisbraut, Múlum og Skeifu.
Sópun gönguleiða er lokið í póstnúmerum á Gröndum, Melum og Skjólum, Grafarvogi og Grafarholti og Úlfarsárdal. Verið er að sópa gönguleiðir í Miðborginni, gamla Vesturbænum, Leitum og Kringlu, Ártúnsholti, Árbæ, Bæjum, Bryggjuhverfi, Hálsum, Höfðum, Selási og Ásum.
Sópun gönguleiða er ekki hafin í póstnúmeri 104, Heimum, Laugarási, Sundum og Vogum. Ekki heldur í póstnúmeri 105, þ.e. Hlíðum, Holtum, Norðurmýri, Teigum og Túnum, póstnúmeri 108, þ.e. Fossvogi, Gerðum, Háaleitisbraut, Múlum og Skeifunni, póstnúmeri 109, þ.e. Breiðholti, Bökkum, Sel og Stekkjum né póstnúmeri 111, þ.e. efra Breiðholti.
Hreinsunarteymi borgarinnar er því nokkurn veginn á áætlun í austurhluta borgarinnar, en nokkrum dögum á eftir í vesturhlutanum eins og er, þar sem forsóp í 101 átti að klárast í síðustu viku samkvæmt áætlun.