Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 tekur gildi

Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 er uppfærð og endurbætt útgáfa AR2030, sem samþykkt var árið 2014. Aðalskipulagið var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur þann 19.október 2021, sbr. einnig samþykkt hennar 21. desember 2021. Aðalskipulagið var undirritað þann 13. janúar 2022 og mun taka gildi með birtingu í Stjórnartíðindum á næstu dögum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar og Pawel Bartoszek form. skipulags- og samgönguráðs undirrituðu. Hér má sjá fleiri myndir í fullri upplausn: Hlekkur.

„Það er með einstakri ánægju og gleði sem ég staðfesti gildistöku nýs aðalskipulags Reykjavíkur til 2040 með undirritun minni. Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur til 2040 leggur grunn að kraftmeiri og grænni uppbyggingu borgarinnar en dæmi eru um í sögu hennar,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við undirritun í Höfða í dag.

Ný meginmarkmið, breytingar og aðrar viðbætur sem settar eru fram í AR2040, miða allar að því að herða á framfylgd þeirrar stefnu sem mörkuð var í fyrra aðalskipulagi um sjálfbæra þróun, þétta og blandaða borgarbyggð og vistvænar ferðavenjur. Markmiðið er að stuðla að kröftugri borgarþróun innan núverandi vaxtarmarka til ársins 2040. Með skipulaginu er sýnt fram á að þau landsvæði sem við höfum tekið frá undir íbúðarbyggð, atvinnusvæði og samgöngumannvirki í aðalskipulagi undanfarna áratugi, geta dugað okkur til ársins 2040. Þetta þýðir að auðveldara verður að framfylgja markmiðum borgarinnar um sjálfbæra þróun, verndun ósnortinna svæða í útjaðri byggðar, líffræðilega fjölbreytni, kolefnishlutleysi, vernd grænna útivistarsvæða, vistvænni ferðavenjur og uppbyggingu Borgarlínu og fjölbreyttari og skemmtilegri borg.

Meiri borg, meiri náttúra

Fjölgun íbúa og starfa innan núverandi byggðar er mikilvæg af svo mörgum ástæðum. Með því styttum við almennt vegalengdir innan borgarinnar, styðjum við vistvænar ferðavenjur, drögum úr losun CO₂ og komum í veg fyrir rask á ósnortinni náttúru í útjaðri byggðar. Þétting byggðar gefur okkur tækifæri til nýta betur fjárfestingar, s.s. í skólum, opnum svæðum, götum og veitukerfum. Hægt er að draga þar með úr kolefnisspori uppbyggingar og skapa hagkvæmari borgarþróun. Fjölgun íbúa innan eldri byggðar leiðir einnig til þess að skólasamfélagið styrkist, bakland verslunar og þjónustu eflist og almenningsrýmin verða meira lifandi. Áhersla á þéttingu innan núverandi byggðar gefur okkur líka tækifæri til að skapa fjölbreyttara og lífvænlegra samfélag, fyrir alla félagshópa. Uppbygging vistvænnar íbúðarbyggðar á eldri atvinnusvæðum leiðir einnig til þess að umhverfisgæðin í hverfinu aukast og leiðir til frekari endurbóta á innviðum og opnum svæðum í grenndinni. Það er líka ákveðið réttlætismál að nýir íbúar fái tækifæri til að njóta þeirra umhverfisgæða, þjónustustofnana og innviða sem eru til staðar í grónum hverfum borgarinnar. 

Mynd: Reykjavíkurborg
Mynd: Reykjavíkurborg

Betra stjórntæki og skilvirkari stjórnsýsla

Jafnhliða því að endurbæta og herða á stefnu aðalskipulagsins um sjálfbæra þróun, hefur vinnan við skipulagið miðað að því að gera áætlunina að betra stjórntæki.  Markmiðið er að styrkja samningsstöðu borgaryfirvalda í viðræðum við lóðarhafa um magn og gerð uppbyggingar á einstaka reitum. Með því verður auðveldara að tryggja gæði byggðar í samræmi við sett markmið. Breytt framsetning miðar einnig að því að stefna aðalskipulagsins verði almennari og sveigjanlegri, sem ætti að leiða til færri breytinga á því í framtíðinni og skjótvirkara afgreiðsluferlis í húsnæðismálum.

Fjölbreytt húsnæðisuppbygging og vistvænar ferðvenjur

„Borgin mun byggjast þéttar en áður meðfram nýjum þróunarásum Borgarlínu, virkir samgöngumátar eru stórefldir og Reykjavík á að verða hjólaborg á heimsmælikvarða. Hugað er að þróun og eflingu grænna svæða og tengingum þeirra á milli og fjölbreyttri húsnæðisuppbyggingu í þágu allra tekjuhópa. Loftslagsmálum er mætt af meiri festu en nokkru sinni áður og lýðheilsa borgarbúa er meðal nýrra áherslna. AR2040 leggur grunn að því og staðfestir að næstu tveir áratugir verða áratugir Reykjavíkur,“ segir borgarstjóri.

Mikilvægar breytingar í mörgum skilningi

  • Sett eru metnaðarfyllri markmið um vöxt Reykjavíkur og fjölgun íbúða.
  • Skapaðar eru forsendur fyrir stóraukið framboð íbúðarhúsnæðis á fjölbreyttum svæðum í öllum borgarhlutum. Lagður er grundvöllur að hinum nýja borgarhluta í Elliðaárvogi og Ártúnshöfða með þremur nýjum skólahverfum. 
  • Réttur þeirra sem höllum fæti standa á húsnæðismarkaði er betur tryggður.
  • Gerðar eru auknar kröfur um hönnun íbúðarbyggðar og blandaðrar byggðar varðandi gróðursvæði, sólrík dvalarsvæði og önnur umhverfisgæði. 
  • Skerpt er almennt á kröfum um lýðheilsu, umhverfisáhrif, umhverfisgæði og vernd náttúru, menningarminja og byggðar.
  • Stefnan miðar að því að styrkja stöðu borgaryfirvalda í samningagerð við byggingaraðila um magn og umfang byggðar á einstökum reitum.
  • Leiðarljósið er að stuðla að markvissara skipulags- og uppbyggingarferli, m.a. með fækkun tafsamra breytinga á aðalskipulaginu. 
  • Réttindi starfandi fyrirtækja um endurnýjun starfsleyfis til skemmri tíma eru betur tryggð og þannig létt á þrýstingi á ótímabæran flutning viðkomandi starfsemi.
  • Sett fram skýrari markmið um þróun byggðar í Keldnalandi og skapað svigrúm til að hefja undirbúning skipulagsvinnu á svæðinu.
  • Tryggð eru starfsskilyrði fyrir innanlandsflugvöll í Vatnsmýri til ársins 2032 og sköpuð aðstaða til framtíðar fyrir þyrluflug Landhelgisgæslunnar.
  • Stefna um stokk á Miklubraut og á Sæbraut og aukin umhverfisgæði í aðliggjandi hverfum er fest í sessi.
  • Borgarlínan er fest í sessi í aðalskipulaginu og uppbyggingarsvæði í grennd við hana njóta forgangs. Áréttað er að uppbygging innviða byggi á þeim samgöngusáttmála sem samþykktur var 2019, milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og hins vegar þeirra og ríkisvaldsins. 
  • Sett eru metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum og kröfur um mat á kolefnisspori allrar uppbyggingar.

Sjá greinargerð Aðalskipulags Reykjavíkur 2040

Slóð á eldri fréttir af AR2040:

Aðalskipulag í auglýsingu 19.6.21

Sjá kynningarskjal (ágrip) með auglýstri tillögu

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.