Viðtal við Kolbein Kristinsson, nýjan formann knattspyrnudeildar Fjölnis.

Við settumst niður með Kolbeini og spurðum hann nokkurra spurninga um starfið framundan.

Hvenær ákvaðst þú að bjóða þig fram í þetta?

Það hefur legið fyrir í einhvern tíma að ég myndi bjóða mig fram sem formann knattspyrnudeildar. Hvenær nákvæmlega er erfitt að segja en einhverjir gárungar (Einar Hermannsson) vilja meina að þetta hafi legið fyrir í meira en áratug.

Hvernig leggst þetta í þig?

Þetta leggst mjög vel í mig. Ég er bæði stoltur og hreykinn og hlakka til að takast á við þetta verkefni ásamt öðrum sjálfboðaliðum og starfsmönnum félagsins.

Ert þú með fastmótaðar áherslur sem þú vilt fara í ?

               Já, tíminn mun leiða þær betur í ljós.      

Eru miklar breytingar sem þú vilt reyna að gera og þá hverjar helstar?

Félagið stefnir nú þegar í rétta átt á mörgum sviðum að mínu mati og við megum vera stolt af því. Nýju fólki fylgja hins vegar oft nýjar áherslur – og breytingar taka mislangan tíma. Ýmsar minni breytingar og tilfærslur er hægt að ráðast strax í og framkvæma á tiltölulega skömmum tíma (talið í dögum og vikum) og svo eru stærri breytingar sem þurfa að vera mjög vel ígrundaðar sem taka lengri tíma (talið í mánuðum og árum). En fyrst og síðast snýst þetta þó um framfarir. Halda áfram eitt skref í einu, gera sanngjarnar kröfur og hafa trú á verkefninu.

Hvernig er staðan á leikmönnum meistaraflokka?

Staðan er góð heilt yfir. Leikmenn beggja meistaraflokka eru búnir að leggja hart að sér í allan vetur og það styttist í að þeir uppskeri eftir því.

Koma nýjir leikmenn til liðsins, eitthvað sem þú mátt segja frá?

Fyrst og síðast stefnum við á að byggja liðin okkar upp á uppöldum leikmönnum eins og kostur er og reynum að gefa þeim leikmönnum sanngjörn tækifæri. Aldur skiptir engu máli í því samhengi ef gæðin eru til staðar – og félagið er með mjög hæfa þjálfara sem meta það hverju sinni. Hvað varðar nýja leikmenn almennt; þá hafa einhverjar mannabreytingar verið á milli ára hjá meistaraflokkunum eins og gengur. Við reiknum með liðsstyrk í báðum liðum áður en Íslandsmótið hefst.       

Hvar sérð þú Fjölni næstu misserin?

Fjölnir er frábært félag og ég sé okkur halda áfram að taka jákvæð skref í rétta átt og þróast enn frekar. Við höfum allt til alls og erum risaklúbbur á íslenskan mælikvarða.

Munt þú reyna að fjölga “litlum” mótum hjá Fjölni?

Mótahald yngri flokka hefur hingað til verið undir styrkri stjórn öflugs Barna- og unglingaráðs (BUR) félagsins og verður það áfram. Í mínum huga ætti áherslan í mótahaldi almennt að vera á gæði fremur en magn. Ég sé t.d. fyrir mér að Fjölnir byggi upp a.m.k. eitt risamót yfir sumartímann í yngri flokkunum þannig að eftir verður tekið. Mót þar sem margir sjálfboðaliðar koma að skipulagningu og framkvæmd. Mót sem allir í félaginu geta verið stoltir af. Klúbburinn og hverfið hefur nú þegar alla innviði til þess, sbr. grunnskóla til gistinga, stóra og flotta grasvelli í Dalhúsum, gervigras velli inni og úti í Egilshöll, aðgengi að sundlaug, bíó, skautasvelli o.fl. Það eru nánast engin takmörk fyrir því hvað er hægt að gera – en það kostar vinnu, metnað og þolinmæði.         

Eitthvað fleira sem þú vilt segja frá?

Allir stórir draumar þurfa smá aðstoð. Ég hvet Grafarvogsbúa til að sýna frumkvæði og leggja sitt af mörkum til fótboltans í Fjölni. Það er hagur okkar allra að félagið haldi áfram að eflast og dafna.

Við þökkum Kolbeini góð svör og ósk um gott gengi í starfi.

Áfram Fjölnir


Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.