Þeim verður ekki haggað
Daglega eru teknar margar ákvarðanir í Ráðhúsi Reykjavíkur. Það heyrir til undantekninga ef einhverjar af þeim koma frá fulltrúum í minnihlutanum. Það er nefnilega þannig að það er ekki sama hvaðan gott kemur. Vissulega þegar eru teknar margar ákvarðanir eru einhverjar þeirra umdeildar, auðvitað því þær snerta oft marga íbúa Reykjavíkurborgar. Því er mikilvægt að hlusta þegar kemur gagnrýni og vera tilbúin að bakka með ákveðnar ákvarðanir sér í lagi ef fagleg rök koma fram fyrir því að betra sé að hætta við þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Það er þó ekki gert og meirihlutanum verður ekki haggað t.d í þeirri ákvörðun að loka og sameina skóla í norðanverðum Grafarvogi, sú ákvörðun er meitluð í stein. Loka skal Kelduskóla Korpu, það verður gerður unglingaskóli í Kelduskóla Vík og börnum frá 6 ára til 12 ára er skipt á milli Borgarskóla og Engjaskóla. Þessar aðgerðir hafa áhrif á 820 börn í norðanverðum Grafarvogi.
Hvernig gengur að sameina skóla
Já því miður þá gengur það ekkert of vel, vegna þess að mikil vinna hefur skiljanlega farið í allt það sem fylgdi COVID-19. Einhver myndi spyrja sig eigum við þá ekki að staldra við. Þetta er gríðarlega kostnaðarsamt ferli enda hafa síðustu sameiningar sem farið var í árið 2012 sýnt það að ekki króna sparaðist á þeim. Núna á að keyra þetta í gegn og þau rök sem er beitt eru að þetta sé gert af því að faglega sé þetta betra. Því hafa kennarar sem vinna í Kelduskóla Korpu mótmælt og benda réttilega á að þar er verið að loka einum af verðlaunuðu þekkingarskólum í Reykjavík. Reykjavíkurborg er því að rýra þau gæði sem nemendum í norðanverðum Grafarvogi hefur verið boðið upp á.
Hvað er nýsköpunarskóli
Til stendur að stofna nýsköpunarskóla fyrir börn í 8. 9. og 10. bekk. Hvað er nýsköpunarskóli? þrátt fyrir að hafa óskað eftir svörum hefur mér ekki tekist að fá þau. Ekkert hefur verið kynnt fyrir foreldrum. Af hverju er haldið áfram, af hverju fá ekki börnin okkar í norðanverðum Grafarvogi að vera í sínum skólum áfram. Hér er verið að leika sér með börn, þau eru vissulega tölur í excel skjölum borgarinnar en þeirra framtíð og þeirra hagsmunir verða að vega þyngra en ákvörðun sem hefur fyrir einhverju síðan verið meitluð í stein og og mun mögulega fegra bókhald Reykjavíkurborgar.
Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og er búsett í Grafarvogi.