SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna, og skólastjórnendur í Reykjavík hafa tekið saman höndum um að efla samstarf heimila og skóla í borginni. Á fyrsta samstarfsfundi stjórna foreldrasamtakanna og Félags skólastjórnenda í Reykjavík, sem haldinn var 13. janúar, var áhersla lögð á að ræða fyrstu skrefin til að efla samstarfið, en með nýjum grunnskólalögum árið 2008 breyttist hlutverk bæði foreldra og skólastjórnenda í samstarfinu.
Aukin ábyrgð var lögð á foreldra um að taka þátt í samstarfinu um nám barna sinna og með tilkomu skólaráða opnuðust þeim dyr að samráðsvettvangi um málefni skólans. Á skólastjórum hvílir nú sú skylda að eiga samráð við foreldra um stefnumótun og allar meiri háttar ákvarðanir í skólahaldinu, auk þess að vera ábyrgir fyrir stofnun foreldrafélags í sínum skóla. Náið samstarf, samræður og góð upplýsingagjöf á báða bóga skiptir höfuðmáli þegar kemur að því að skapa traust og árangursríkt foreldrasamstarf.
Á samstarfsfundinum kom fram sameiginleg sýn á nauðsyn þess að skýra ábyrgð og hlutverk allra aðila í skólasamstarfinu og var setja saman gátlista sem taka á helstu þáttum sem snúa að samstarfi foreldra og skólastjórnenda.
Í næstu viku heldur SAMFOK námskeið í samvinnu við Félag skólastjórnenda í Reykjavík fyrir fulltrúa foreldra og þeirra sem starfa að málefnum barna og unglinga á grunnskólastigi, annars vegar í Vesturbæ og hins vegar í Árbæ, Grafarholti, Úlfarsárdal, Ártúnsholti og Norðlingaholti. Þar verður farið yfir nýju menntalögin og skoðað hvernig efla má félagsauð og samstarf milli skóla og innan hverfa.
Samfok...