Oliver Aron Jóhannesson (2212) 16 ára Fjölnismaður varð efstur í flokki ungmenna á alþjóðlega skákmótinu Reykjavik Open sem lauk í Hörpu sl. miðvikudag. Árangur Olivers í mótinu, en hann hlaut 7 vinninga af 10, var sérlega glæsilegur, og hann var eini titillausi keppandinn í efstu 49. sætunum. Hinir í hópi efstu voru allir stórmeistarar, alþjóðlegir meistarar eða FIDE meistarar. Oliver Aron endaði í 31. sæti af 271 keppanda.
Með þessum árangri rýkur hann upp ELÓ-stigatöfluna. Stórmeistari okkar Fjölnismanna Héðinn Steingrímsson hlaut 6,5 vinninga og ungu skákstirnin Jón Trausti Harðarson og Dagur Ragnarsson hlutu 5,5 vinninga.
Nansý Davíðsdóttir 13 ára hækkaði um 50 skákstig á mótinu og bróðir hennar Joshua sem tefldi á sínu fyrsta alþjóðlega móti fer inn á stigalistann eftir þetta mót með árangur 1500 stiga skákmanns.
Systkinin Hörður Aron og Hrund Hauksdóttir og Jóhann Arnar Finnsson 14 ára hækkuðu öll á stigum með góðum árangri á mótinu. Öll tefldu þau eða tefla fyrir Rimaskóla í gegnum árin.
Næsta verkefni þessara afreksmanna er að tefla fyrir Skákdeild Fjölnis á Íslandsmóti félagsliða í Rimaskóla dagana 19. – 21. mars.