Það voru 25 krakkar sem mættu á fyrstu skákæfingu Fjölnis á nýju skákári. Æfingarnar hafa nú verið færðar yfir á miðvikudaga kl. 17.00 – 18:30 og virðist sá tími henta vel . Skákmeistararnir efnilegu, þeir Jón Trausti Harðarson og Oliver Aron Jóhannesson, mættu nýir i þjálfarateymi skákdeildarinnar og veittu þeir 10 krökkum kennslu og þjálfun. Á næstu æfingum Fjölnis bjóða þeir upp á kennslu fyrir nýliða og að fara yfir kappskákir með ungum og efnilegum skákmönnum sem taka þátt í Haustmóti TR og Íslandsmóti félagsliða, leiðbeina þeim um það sem betur má fara í byrjunum og endatöflum.
Á fyrstu æfingunni stjórnaði Helgi Árnason, formaður skákdeildarinnar 18 manna skákmóti og þar sigraði hinn 10 ára gamli MIkael Maron Torfason sem hlaut 4,5 vinninga af 5 mögulegum. Mikael Maron hlaut eldskírn sína í kappskákum á Norðurlandasmóti barnaskólasveita á Selfossi um síðustu helgi með skáksveit Rimaskóla. Hann stefnir að því að bæta sig í vetur og tekur nú þátt í Haustmóti TR. Aðrir í verðlaunasætum á skákæfingu Fjölnis voru þau Einar Bjarki Arason, Sæmundur Árnason, Kjartan Karl Gunnarsson, Halldór Snær Georgsson, Joshua Davíðsson, Hilmir Arnarson og síðast en ekki síst ein efnilegasta skákkona deildarinnar, Ylfa Ýr Welding Hákonardóttir í Foldaskóla.
Fyrsta skákæfingin var mjög skemmtileg og öllum þátttakendum var boðið upp á veitingar í skákhléi. Næsta æfing verður miðvikudaginn 24. september í Rimaskóla og er gengið inn um íþróttahús.