Skák og skúffukaka, skotheld uppskrift í samfellt 16 ár
Skákæfingum Fjölnis lauk með fjölmennri skákhátíð í hátíðarsal Rimaskóla 14. maí. Í tilefni af skemmtilegu skákári var öllum 50 þátttakendum æfingarinnar boðið upp á Domínó´s pítsur þar sem allir fengu nægju sína. Til kynnt var um val skákdeildarinnar á afreks-og æfingameistara vetrarins. Margir voru verðugir heiðursins en aðeins tveir útvaldir.
Hin efnilega Emilía Embla B. Berglindardóttir í 2. bekk Rimaskóla var kjörin afreksmeistari. Hún leiddi hina efnilegu stúlknaskáksveit skólans sem sigraði í opnum flokki bæði á jólamóti ÍTR og TR og Reykjavíkurmóti grunnskóla 2020 í flokki 1. – 3. bekkjar, afrek sem engin stúlknasveit hefur fyrr né síðar náð að landa. Emilía Embla varð líka Íslandsmeistari grunnskóla í stúlknaflokki með sveit Rimaskóla 3. – 5. bekkur. Framtíðarskákkona Íslands.
Arnar Gauti Helgason í 6. bekk Rimaskólavar valinn æfingameistari vetrarins. Hann var ásamt fjölmörgum Fjölniskrökkum með 100% mætingu og Reykjavíkurmeistari í flokki 4. – 7. bekkjar 2020 ásamt félögum sínum í Rimaskóla.
Helgi Árnason formaður skákdeildaarinnar sem hefur haft umsjón með og stjórnað skákæfingum Fjölnis frá upphafi, afhenti þessum afrekskrökkum veglega verðlaunabikara. Auk Helga hafa þeir Jóhann Arnar Finnsson, Joshua Davíðsson, Anton Breki Óskarsson og Arnór Gunnlaugsson aðstoðað við æfingarnar í vetur.
Eins og áður segir hefur alltaf verið góð mæting á skákæfingar Fjölnis í gegnum árin og áberandi hversu jafnt kynjahlutfall er meðal þátttakenda. Það á líka við þegar kemur að verðlaunaafhendingu í lok hverrar æfingar. Ekki má gleyma hinni gómsætu skúffuköku sem alltaf er í boði á þessum ókeypis skákæfingum. Heiðurinn af bakstrinum eiga þau Kiddi kokkur, Aneta og Maja starfsmenn mötuneytis Rimaskóla sem láta sér lítið muna um að skella í risauppskrift hvern fimmtudag.
Skák er skemmtileg í Grafravogi og skemmtunin hefst að nýju um miðjan september.