Ég bý í Foldahverfinu í Grafarvogi. Í lok síðustu viku var okkur foreldrum leikskólabarna í hverfinu tilkynnt að vegna manneklu myndi hefjast skerðing á þjónustu við börnin (og foreldrana) á næstu dögum. Skerðingin felst í lokun deilda þannig að börnin geta ekki mætt í leikskóla sjöunda hvern virka dag.
Tilkynningin vakti mikla reiði hjá foreldrum. Afleiðingarnar verða enda víðtækar. Foreldrar þurfa ýmist að taka launalaus leyfi eða orlofsdaga fyrirfram vegna skerðingarinnar. Þeir sem ekki ráða við að taka launalaus leyfi lenda þá í sömu vandræðum næsta sumar þegar leikskólar Reykjavíkurborgar verða lokaðir yfir sumartímann. Þá mun skerðingin hafa áhrif á fleiri foreldra en innan þessa hverfis. Um er að ræða 140 börn og þónokkrir foreldranna eru starfsmenn Reykjavíkurborgar. Þeir munu því þurfa að boða forföll á vinnustað sínum sjöunda hvern virka dag með tilheyrandi áhrifum, t.d. á grunnskóla og frístundaheimili.
Síðan eldra barnið mitt hóf leikskólagöngu sína hjá Reykjavíkurborg haustið 2015 hefur mér oft blöskrað ástandið. Ég hef setið í foreldraráði leikskólans og nánast undantekningarlaust hafa fundir ráðsins snúið að hagræðingaraðgerðum skóla- og frístundasviðs eða alvarlegum vandamálum vegna viðvarandi fjársveltis leikskóla borgarinnar. Meðal þess sem ráðið hefur tekist á við er lækkun fæðisgjalds barna, skortur á ritföngum og stórhættulegt ástand leikskólalóða. Foreldrar hafa rætt um lausnir á þessum vandamálum, sem hafa m.a. falist í að senda börn í leikskólann með ávexti að heiman og að foreldrar taki að sér að bæta sjálfir úr ástandi á leikskólalóðum þar sem Reykjavíkurborg hafði ekki brugðist við ítrekuðum kröfum heilbrigðiseftirlits um úrbætur.
Ástandið í borginni er bæði ólíðandi og óskiljanlegt. Útsvarsprósentan er í hámarki og borgin hreykir sér af jákvæðri rekstrarniðurstöðu í góðærinu. Það er því ljóst að önnur mál en dagvistunarmál eru í forgangi hjá meirihlutanum í borgarstjórn. Við sem búum í Grafarvogi og keyrum vestur til vinnu erum mjög meðvituð um gæluverkefnin sem eiga allan hug þeirra sem stýra borginni. Á sama tíma haldast leikskólagjöldin lág. Það er líkast til erfitt fyrir borgarstjórn að hækka gjöldin í samstarfi við flokk sem lofaði gjaldfrjálsum leikskóla í kosningaham.
Íbúar Grafarvogs eru hátt í tuttugu þúsund talsins og Reykjavíkurborg munar um minna en útsvarsgreiðslur þeirra. Við sem þar búum furðum okkur á hvað peningunum okkar er ráðstafað í og má sömuleiðis gera ráð fyrir þverrandi stemningu þar í takt við hækkandi fasteignagjöld. Grunnþjónustu í hverfinu er enda ekki sinnt. Til viðbótar fjársvelti leikskólanna og samgöngumálum má nefna sorphirðuna. Grafarvogsbúar eru enda farnir að venjast yfirfullum ruslatunnum og hafa gefist upp á sameiginlegum söfnunargámum víðsvegar um hverfið. Þar flæðir ruslið sömuleiðis út. Grafarvogsbúar fá hreinlega lítið til baka af því sem þeir leggja inn í sameiginlega sjóði borgarinnar.
Fyrir örfáum dögum samþykkti skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar að setja á laggirnar viðbragðsteymi við manneklu hjá borginni, en aðeins nokkrum árum of seint. Ef til vill fengu verkefnastjórar göngugatna og »torga í biðstöðu« framlengingu á ráðningarsamningum, hver veit? Varla þarf teymið langan umhugsunarfrest til að setja á blað rót vandans, sem er lág laun og aukin menntunarkrafa faglærðs starfsfólks.
>> Það er því ljóst að önnur mál en dagvistunarmál eru í forgangi hjá meirihlutanum í borgarstjórn.