Korpúlfar, samtök eldri borgara í Grafarvogi, stóðu nýlega fyrir hreinsunarátaki í hverfinu sínu og tóku um 30 Korpúlfar til hendinni og söfnuðu um 250 kg af rusli víða um hverfið.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, afhenti fulltrúum Korpúlfa viðurkenningarskjal í dag fyrir öflugt starf félagsmanna við hreinsun Grafarvogshverfis. Gönguhópar Korpúlfa þekkja hverfið sitt vel og vita hvar í hverfinu rusl er helst að finna. Á dögunum voru þeir með hreinusunardag þar sem þeir gengu um hverfið og hirtu upp rusl og var því safnað á kerru sem Reykjavíkurborg lagði til.
Jóhann Helgason, formaður Korpúlfa, segir að Korpúlfar láti sér annt um hverfið sitt og allir hafi mætt til að láta gott af sér leiða, eiga saman stund í góðum félagsskap og fagna sumri. Dagur sagði hreinsunarátak Korpúlfa vera til fyrirmyndar, og hverfinu og borginni mikilvægt. Að lokinni afhendingu viðurkenningarinnar var gestunum boðið upp á kaffi og konfekt.
Tilefnið var byrjun hreinsunarátaks Reykjavíkurborgar Hreinsum Reykjavík saman 2.-7. maí sem nær hápunkti 6. maí á sérstökum hreinsunardegi.
Tenglar
Facebook Hreinsum Reykjavík saman
#hreinsumsaman