Þá er komið að sjöundu umferðinni í Pepsideild karla og kemur stórlið FH í heimsókn í voginn fagra. Bæði liðin eru taplaus eftir fyrstu sex umferðirnar og sitja FH-ingar á toppi deildarinnar með 14 stig en við Fjölnismenn með 10 stig í 5. sæti.
Gunnar Már spilar gegn sínum gömlu félögum í FH en Gunnar spilaði með FH árin 2009 og 2010. Atli Viðar Björnsson (2007) og Atli Guðnason (2005) eiga báðir eitt tímabil með Fjölni þar sem þeir skoruðu grimmt. Svo eru tveir uppaldir Fjölnismenn í FH liðinu en það eru þeir Ingimundur Níels Óskarsson og Ólafur Páll Snorrason og bjóðum við þá hjartanlega velkomna á heimaslóðir.
Fjölnir og FH hafa tvisvar mæst í efstu deild á Fjölnisvelli. Árið 2008 fóru leikar 3-3 þar sem Gunnar Már, Ólafur Páll Snorrason og Kristján Hauksson skorðu mörk okkar. Árið 2009 tapaði Fjölnir 1-4 og skoraði HM-farinn Aron Jóhannsson mark okkar í þeim leik.
Einar Karl Ingvarsson verður ekki í leikmannahópi Fjölnis í dag gegn FH þar sem hann er á láni frá FH.
Það verður nóg af leikjum á næstunni hjá strákunum okkar. Næsti leikur er svo gegn Fram á sunnudaginn (Fjölnisvöllur), svo Borgunarbikarinn gegn KR fimmtudaginn 19. júní (KR-völlur) og svo verður skellt sér í Garðabæinn sunnudaginn 22. júní og spilað gegn Stjörnunni. Svo strákunum veitir ekki af öllum þeim stuðningi sem þeir geta fengið til að koma sér í gegnum þessa leikjatörn.
Við minnum fólk á stelpurnar í meistaraflokki verða á grillinu fyrir leik og í hálfleik og verður í boði ljúffengur hamborgari og ísköld Pepsi á 1.000 kr.
Allir á völlin og ÁFRAM FJÖLNIR