Tólf hressir hokkýspilarar á unglingsaldri frá Geraldton og Greenstone District í Ontario í Kanada komu ásamt kennurum sínum og þjálfurum í heimsókn í Rimaskóla þriðjudagsmorguninn 28. apríl. Nemendur og kennarar unglingadeildar Rimaskóla tóku á móti gestunum. Fyrir hópnum fór Tim Griffin hokkíþjálfari sem hélt áhugaverðan fyrirlestur á breiðtjaldi í hátíðarsal skólans um Greenstone héraðið í norðurhluta Ontaríofylkis þar sem veðrátta og landslag svipar til Noregs og Svíþjóðar, ískaldir vetur og hlý sumur. Lífið hjá unglingunum snýst afar mikið um Hokkí leikinn og útivist í nágrenni fjalla, vatna og skóga.
Kennarar Rimaskóla, þau Anna Kristín og Baldur tóku á móti gestunum í fjölnýtistofu Rimaskóla þar sem þeir kynntu Ísland með aðstoð nemenda sinna. Unglingadeildarnemendur stóðu sig mjög vel í að spjalla við kanadísku kollega sína og halda þeim selskap. Kanadísku gestirnir komu færandi hendi og veittu gjafir og viðurkenningar, einkum til þeirra sem voru með þekkingu a NHL, National Hockey League deildinni í BNA og Kanada. Skólinn fékk að gjöf forláta svartbjarnarbangsa „American black bear“ sem var uppáklæddur sem alvöru hokkíspilari. (HÁ)