Íslandsmót barna í skák fer fram í Rimaskóla laugardaginn 10. janúar og hefst klukkan 12. Þátttökurétt hafa börnfædd 2004 og síðar og sigurvegarinn fær sæmdarheitið Íslandsmeistari barna 2015 og keppnisrétt á Norðurlandamótið í skólaskák sem haldið verður í Færeyjum um miðjan febrúar.
Mjög góð þátttaka verður á mótinu en núna rúmum tveimur tímum fyrir mót eru 77 keppendur skráðir í aðalflokkinn og 12 í peðaskákina. Enn er hægt að skrá sig til leiks.
Alls verða tefldar 9 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma. Eftir 5 umferðir verður keppendum fækkað þannig að þeir sem hafa 3 vinninga eða fleiri halda áfram keppninni um Íslandsmeistaratitilinn en þeir sem hafa færri en 3 vinninga hafa lokið þátttöku.
Peðaskákmót verður haldið samhliða mótinu og hefst klukkan 13:00. Það er ætlað fyrir leikskólabörn og þau allra yngstu í grunnskólum sem eru ekki tilbúin fyrir Íslandsmótið.
Skákdeild Fjölnis verður með veitingasölu á meðan mótinu stendur.
Þetta er í 22. sinn sem keppt er um Íslandsmeistaratitil barna. Sigurður Páll Steindórsson sigraði á fyrsta mótinu árið 1994, en meðal annarra meistara má nefna titilhafana Dag Arngrímsson, Guðmund Kjartansson og Hjörvar Stein Grétarsson. Núverandi Íslandsmeistari barna er Vignir Vatnar Stefánsson.
Skáksamband Íslands og Skákakademían annast framkvæmd mótsins. Keppendur eru hvattir til að skrá sig sem fyrst hér á Skák.is. Fram þarf að koma fullt nafn, grunnskóli og fæðingarár. Þátttökugjald er 1.000 kr (1.500 að hámarki á systkini) og greiðist á mótsstað fyrir upphaf umferðar.
Veitt eru sérstök verðlaun fyrir bestan árangur í hverjum árgangi.
Upplýsingar um þegar skráða keppendur má finna hér.
Sigurvegarar á Íslandsmóti barna frá upphafi:
- 1994 Sigurður Páll Steindórsson
- 1995 Hlynur Hafliðason
- 1996 Guðjón H. Valgarðsson
- 1997 Dagur Arngrímsson
- 1998 Guðmundur Kjartansson
- 1999 Víðir Smári Petersen
- 2000 Viðar Berndsen
- 2001 Jón Heiðar Sigurðsson
- 2002 Sverrir Þorgeirsson
- 2003 Hjörvar Steinn Grétarsson
- 2004 Svanberg Már Pálsson
- 2005 Nökkvi Sverrisson
- 2006 Dagur Andri Friðgeirsson
- 2007 Kristófer Gautason
- 2008 Kristófer Gautason
- 2009 Jón Kristinn Þorgeirsson
- 2010 Jón Kristinn Þorgeirsson
- 2011 Dawid Kolka
- 2012 Nansý Davíðsdóttir
- 2013 Vignir Vatnar Stefánsson
- 2014 Vignir Vatnar Stefánsson