Skýrsla um framkvæmdir verkefna sem kosin hafa verið af íbúum í hverfum Reykjavíkur síðustu ár var kynnt í borgarráði í gær. Alls hafa 235 verkefni komið til framkvæmda eftir íbúakosningar síðustu tveggja ára. Þau hafa kostað 600 milljónir. Borgarráð fékk einnig kynningu á undirbúningi rafrænna hverfakosninga um verkefni í hverfunum sem hefjast 11. mars næstkomandi.
Skýrslan var unnin af skrifstofu framkvæmda og viðhalds sem starfar á umhverfis- og skipulagssviði og nefnist hún Betri Hverfi 2010 – 2013. Þar er gerð grein fyrir öllum framkvæmdaverkefnum sem unnin hafa verið fyrir fjármagn úr svokölluðum hverfapottum en rúmlega 810 milljónum króna hefur verið veitt í hverfapottana síðan 2010. Síðustu tvö árin, 2012 – 2013, var fjármagn til hverfapotta aukið mjög og settar 300 milljónir í pottana hvort ár – alls 600 milljónir.
Þessi ár skera sig úr í skýrslunni fyrir fjölda verkefna sem valin voru úr innsendum hugmyndum íbúa í öllum hverfum á Betri Reykjavík. Árið 2012 sendu íbúar inn 354 hugmyndir og komu 124 af þeim til framkvæmda í hverfunum. Íbúar komu síðan með 600 hugmyndir í fyrra og voru 111 þeirra kosnar til framkvæmda í rafrænum hverfakosningum. Eins og sjá má á skýrslunni eru verkefnin bæði stór og smá, allt frá göngu- og hjólastígum til bekkja og blómakerja.
Hugmyndasöfnun fyrir árið 2014 hófst í nóvember í fyrra á Betri Reykjavík og bárust 470 hugmyndir. Nú stendur yfir vinna við að velja úr þeim en fagteymi Reykjavíkurborgar og hverfisráðin hafa hönd í bagga með því hvaða hugmyndum er stillt upp til kosninga. Farið er yfir allar hugmyndir sem berast.
Rafrænar hverfakosningar með sama sniði verða haldnar dagana 11. – 18. mars næstkomandi á Betri Reykjavík. Hægt er að sjá allar hugmyndirnar sem borist hafa frá íbúum inn á samráðsvefnum Betri Reykjavík. Reykjavikurborg hvetur alla íbúa sem orðnir eru 16 ára til að taka þátt í kosningunum en þær verða rækilega kynntar þegar nær dregur.